30.8.2007 | 08:38
Slúður til sölu
Einhverra hluta vegna hafa sögusagnir um náungann ætíð átt greiðan aðgang að eyrum manneskjunnar, hvort sem þær eru hálflognar eða algjör uppspuni. Slúður er mikilvæg söluvara í þeirri miklu markaðsmaskínu sem fjölmiðlar samtímans eru.
Slúður er sjaldnast meinlaust. Það getur þvert á móti verið stórhættulegt. Það er særandi, meiðandi, niðurlægjandi og sundrandi. Fram til þessa hefur slúður þótt mein í siðmenntuðum samfélögum. Það virðist vera að breytast.
Slúður verður ekki til fyrir þá sök eina að einhver er til að breiða það út. Líka þarf að hlusta á það, lesa það og síðast en ekki síst - að kaupa það.
Þegar við kaupum slúður erum við að kosta framleiðslu þess. Við verðlaunum þá sem níða æruna af fólki og leggjum þeim lið við að bera ljúgvitni gegn náunganum.
Athugasemdir
Ærin ástæða að minna á sölumennsku Gróu á Leiti sr. Svavar. Takk f. það.
Gísli Baldvinsson (IP-tala skráð) 30.8.2007 kl. 09:00
Þetta er sannarlega holl lesning og sönn. Ljúft væri ef sem flestir hugsuðu svona og þá jafnvel hugleiddu hvernig þeim liði ef þeir stæðu í sporum þess sem níddur er.
Aðalheiður Magnúsdóttir, 30.8.2007 kl. 10:12
ég er sammála ykkur en ekki gleyma að heill hellingur af fólki fær borgað eða græðir vel á því að láta slúðra um sig... hvað á að gera við það? þar er amk ekki um níð að ræða en við hin verðum heimskari í hvert sinn sem við heyrum um þannig fólk
halkatla, 30.8.2007 kl. 17:58
Æi já, H.C. Andersen hitti svo vel í mark með sögunni sinni um fjöðrina sem varð að fimm hænum, þar sem sú hænan sem fjöðrina felldi í upphafi kannaðist að sjálfsögðu ekkert við söguna um hana þegar hún birtist í fréttablaði bæjarins og var þar orðin að fimm berstrípuðum og dauðum hænum
. Ég hef alltaf haldið mikið upp á þá sögu!
En Anna Karen bendir réttilega á að margt fólk sem tengist skemmtanabransanum þrífst á vissan hátt á því að um það sé slúðrað og verður illa við ef það fær ekki reglulega af sér mynd og umsögn á síðum slúðurblaðanna. Þó held ég að tollurinn af slíkri stöðugri umfjöllum geti reynst dýr. - Ekki vildi ég vera fræg og láta fylgjast með hverju mínu fótmáli af "papparössum", það hlýtur að verða mjög þreytandi til lengdar, þó einhverjum kunni að finnast það spennandi í upphafi
.
Greta Björg Úlfsdóttir, 31.8.2007 kl. 12:13
Bara láta vera að slúðra um það! Kannski fer blessað fólkið þá að reyna að fá sér heiðarlega vinnu til að geta saltað grautinn sinn!
Þórir Jónsson, 2.9.2007 kl. 11:44
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.