1.9.2007 | 11:12
Árangursmiðað líf
Í þjóðfélagi okkar verða allir að ná árangri og skila honum. Frá blautu barnsbeini erum við alin upp við að við verðum að vera eitthvað, verða eitthvað og gera eitthvað til að kallast gjaldgeng. Alltaf er verið að segja okkur hvað við verðum að vera og eigum að eiga.
Sumir ná engum árangri og láta ekkert af sér leiða, eru ekkert, gera ekkert og eiga ekkert. Örlög þeirra eru öllum ljós og skilaboðin skýr: Þeir eru lúserar.
Smám saman er mennskan að deyja í veröldinni. Hún kafnar undir öllum þessum kröfum. Mennskan er dæmd til dauða í heimi, þar sem við verðum að verða eitthvað annað en við sjálf til að þóknast samtíðinni. Mennskan á sér enga von þar sem mistök leyfast ekki.
Þess vegna er náðin helsti bandamaður manneskjunnar.
Athugasemdir
Er ekki setning Biblíunnar "af ávöxtunum skuluð þér þekkja þá" oft misskilin? Því þá gleymist að ekki er átt við veraldlegt góss, heldur þá fjársjóði sem mölur og ryð fá ekki grandað. Það segir einnig í sömu bók "sælir eru fátækir í anda" - þrátt fyrir að þeir geti ekki státað af miklum afrekum í ferilsskrá.
Greta Björg Úlfsdóttir, 1.9.2007 kl. 12:11
Mikið rétt hjá þér Svavar og þörf áminning. Mestu skiptir að fólk finni sína hamingju óháð því hvaða leið það fer gegnum lífið og nái sátt við sig og sína hvort sem það er efnað, minna efnað eða fátækt. Svo er nú svo skrítið með þetta allt að þeir sem eru efnaðir (silfurskeið í munni), eða duglegir að koma sér áfram, eiga líka oft erfitt með að vera túlkaðir sem sannir og kærleiksríkir í samfélaginu okkar. Þannig að það búa fleiri við mótlæti en þeir fátæku. Enginn fær meira útúr lífi sínu af hamingju og velgengni, hvort sem hún er andleg eða veraldleg, en það sem viðkomandi er tilbúinn að vinna að sjálfur og skapa sér. "Hver er sinnar gæfu smiður" óháð efnahag og aðstæðum.
Hólmgeir Karlsson, 1.9.2007 kl. 14:01
Mikið rétt - oft finnst manni eins og "eftirsóknarvert" líf sé "rekið" í gegnum fjölmiðla, blöð og tímarit. Lífshlaup fólks með fallegum myndum er sett upp og "lay-outað" á síðum glanstímarita. Lúserarnir komast aldrei þangað, þeir bara lesa um hina og spegla sitt eigið tilbreytingarlausa líf í brosmildum, rétt klæddum viðmælendunum og bæta enn einni lúsertilfinningunni við í eigin garð.
Anna Ingólfsdóttir (IP-tala skráð) 1.9.2007 kl. 18:19
Góð og þörf hugleiðing eins og alltaf. kv. B
Baldur Kristjánsson, 1.9.2007 kl. 22:32
Það væri gaman ef þú kæmir með frekari útskýringu eða dæmi um hvernig náðin er helsti bandamaður manneskjunnar. Mér finnst það forvitnilegasta setning pistilsins en minnst tengd við hann.
krossgata, 2.9.2007 kl. 03:00
Tek undir orð krossgátunnar. Skýringar vel þegnar. En er ekki þetta undanhald mennskunnar af þeim ástæðum sem þú ert að tala um orðin einna minnst í kristnum þjóðfélögum (án þess að ég sé að kenna kristninni um það, en kannski allra minnst hér á Íslandi?)? Hvernig má það þá eiginlega vera?
Sigurður Þór Guðjónsson, 2.9.2007 kl. 21:57
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.