Guðlast til sölu

Auglýsing Símans er umrædd. Ég skrifaði einu sinni pistil hér á bloggið sem hét "Hvað segja auglýsingarnar?". Þar nefndi ég til sögunnar þýska guðfræðinginn Horst Albrecht og sagði að hann héldi fram "að í samfélagi ofgnótta sé ekki nóg að halda fram ágæti tiltekinnar vöru. Meira þurfi til. Það þurfi að selja neytandanum heila veröld með vörunni. Máttur vörunnar er þannig ekki fólginn í því hagnýta heldur því ímyndaða. Tengja þurfi vöruna draumum, þrám og væntingum neytandans og í sívaxandi mæli fær varan því á sig trúarlegan blæ. Hlutverk þess sem auglýsir vöru eða þjónustu sé að skapa og glæða þrá neytandans eftir "einhverju betra". Auglýsingar eru þannig á vissan hátt prédikanir. Þær skapa það sem á að vera eftirsóknarvert í lífinu."

Kristnir menn geta eiginlega ekki verið húmorslausir þótt ábyggilega megi benda á undantekningar frá þeirri reglu. Góð rök hafa verið færð fyrir því að Guð hljóti að hafa skapað húmorinn (meira um það síðar). Sé allt hendingum háð er tilveran í eðli sínu húmorslaus. Tilviljunin hefur ekkert skopskyn. Þá ríkir ekkert nema ísköld alvaran, krakkar mínir.

Símaauglýsingin fer í taugarnar á mér vegna þess að mér finnst ekki tilhlýðilegt að nota þessa sögu til að selja símtæki eða annan varning. Auglýsing er alltaf auglýsing. Hún er notuð til að koma á framfæri vöru eða þjónustu. Auglýsing upphefur vöruna og Símaauglýsingin er gott dæmi um það hvernig varningur er látinn öðlast trúarlegan blæ.

Umræðurnar um þessa auglýsingu eru oft dálítið skrýtnar. Ágætur fjölmiðlamaður bloggaði um viðbrögð Þjóðkirkjunnar við henni undir yfirskriftinni "Hefur ekki Þjóðkirkjan skoðun á þessu líka?". Þar bendir hann á mikilvægi tjáningarfrelsis. Það virðist samt ekki eiga að vera fyrir alla því að í pistlinum hæðist höfundur að því að talsmenn Þjóðkirkjunnar hafi haft skoðun á umræddri auglýsingu og sagt hug sinn.

Finnst einhverjum asnalegt að kirkjan hafi skoðun á því hvernig Píslarsagan er meðhöndluð? Ekki síst ef leitað er eftir skoðun talsmanna hennar á því?

Neikvæð viðbrögð fólks við auglýsingunni hafa líka verið borin saman við líflátshótanir í kjölfar þess að dönsk blöð birtu skopmyndir af Múhameð spámanni. Það er til dæmis gert hér. Ég veit ekki til þess að nokkrum hafi verið hótað lífláti eða líkamsmeiðingum vegna símaauglýsingarinnar. Fólk hefur bara haft skoðanir á henni. Mörgum finnst hún ósmekkleg - og mér finnst ósmekklegt að gefa í skyn að þar með sé það fólk á leiðinni að fremja morð eða hryðjuverk.

Enginn þarf að segja mér að þeir sem unnu auglýsingarnar hafi ekki séð fyrir svona viðbrögð. Ágætur vinur minn benti mér á að ef til vill væru viðbrögðin hluti af plottinu. Það er í tísku að sparka í Þjóðkirkjuna og trúarbrögðin. Það þykir töff að hæðast að Biblíunni. Það er kúl að ögra prestunum. Síminn vill vera í tískunni og bæði töff og kúl.

Þetta er nú samsæriskenning sem bragð er að.

Egill Helgason skrifaði einu sinni bloggpistil þar sem hann hvatti fólk til að móðga trúarbrögðin. Auðvitað er ekki hægt að móðga trúarbrögð. Það er á hinn bóginn hægt að móðga fólk, særa það og lítilsvirða það sem því er heilagt og dýrmætt.

Er slíkt heróp ekki gott innlegg í hið umburðarlynda fjölmenningarsamfélag sem við Íslendingar þykjumst vera að mynda?


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Villi (IP-tala skráð) 6.9.2007 kl. 11:17

2 Smámynd: Kjartan Jónsson

Ég verð að viðurkenna að ég er nokkuð hrifinn af þessari auglýsingu símamanna - eða ég ætti kannski frekar að segja þeim áhrifum og hugleiðingum sem hún hefur vakið. Ég er ekkert sérstaklega hrifinn af fyrirtækinu, hefur sýnst það nota sér yfirburðamarkaðsstöðu sína hér á landi mjög gróflega, en það er önnur saga. Í rauninni finnst mér auglýsingin líka frekar sakleysisleg, þetta er húmor sem er hvorki rætinn né gerir lítið úr einhverju, er frekar í ætt við þann góða og gagnlega húmor sem snýr heiminum á haus, gerir göt í veruleikasýn okkar og fær okkur til að hugsa um hlutina. Hún gefur líka þeim kristnu mönnum sem hún pirrar tækifæri til að líta í eigin barm og skoða rætur þess pirrings, hvort eitthvað skorti e.t.v. upp á umburðarlyndið og kærleikinn sem ég hefði talið kjarna kristninnar frekar en margt annað.

Kjartan Jónsson, 6.9.2007 kl. 13:27

3 Smámynd: Svavar Alfreð Jónsson

Rætur pirringsins hef ég skoðað. Þær eru ekki í húmornum í auglýsingunni. Ég tek undir það að hann sé fremur saklaus og ekki rætinn. Það sem mér finnst pirrandi við auglýsinguna er að þessi saga skuli vera notuð til að selja varning og upphefja hann.

Kvöldmáltíðarsagan er heilög í mínum huga. Þar með er ekki sagt að ekki megi segja eitthvað sniðugt um hana. Slíkt getur þvert á móti birt manni nýjar hliðar á sögunni.

Mér finnst samt ekki smekklegt að nota hana til að selja hluti. Í ágóðaskyni. Gera út á það að særa trúarlegar tilfinningar fólks til að vekja athygli á söluvöru.

Sjálfsagt finnst sumum slík viðbrögð bera vott um skort á kærleika og umburðarlyndi, en að hverju á kærleikurinn þá að beinast, sem menn sakna, og hvað er verið að umbera?

Svavar Alfreð Jónsson, 6.9.2007 kl. 15:57

4 Smámynd: Þórdís Bára Hannesdóttir

Mjög ósmekkleg auglýsing.  Hönnuður hennar og Síminn vissu nákvæmlega hvað þeir voru að gera.  Mér finnst mjög ótrúlegt höfundurinn skuli vera hissa á því að einhver skuli hafa hneykslast eða sé sár.

Þórdís Bára Hannesdóttir, 6.9.2007 kl. 19:07

5 Smámynd: Greta Björg Úlfsdóttir

Takk fyrir góðan pistil um málið. Mér finnst gott hjá þér að benda á smekkleysuna í skrifum þess fólks sem líkir viðbrögðum kristins fólks við auglýsingunni við líflátshótanir öfgafullra hópa múslima vegna teikninganna af Múhameð.

Mér fannst líka góð athugasemd ungs manns sem ég las í bloggi Péturs Hafstein, þar sem hann talar um að málið snúist kannski ekki alfarið um trúmál, heldur alveg eins um skort á almennri tillitssemi og/eða siðferðiskennd. Hann spyr um það hvernig mönnum hefði orðið við ef t.d. morðinu á Kennedy hefði verið snúið upp í grín til að auglýsa tiltekna vöru. Ánægjulegt að heyra þessa rödd frá yngri kynslóðinni í öllum flaumnum af athugasemdum um að "hva, þetta sé nú bara drepfyndið og hvort kristnir séu húmorslausir upp til hópa"

Hér má lesa það sem ég hafði um málið að segja í mínu bloggi:http://saumakona.blog.is/blog/saumakona/entry/304498/

Greta Björg Úlfsdóttir, 6.9.2007 kl. 19:38

6 Smámynd: Matthías Ásgeirsson

Það sem mér finnst pirrandi við auglýsinguna er að þessi saga skuli vera notuð til að selja varning og upphefja hann.
Er þessi saga ekki notuð dags daglega til að selja og upphefja varning - þ.e.a.s. kristni? 

Matthías Ásgeirsson, 6.9.2007 kl. 22:31

7 Smámynd: Svavar Alfreð Jónsson

Eigum við ekki frekar að segja að sagan sé notuð til að koma ákveðnum boðskap á framfæri?

Sem er dálítið annað en að selja gemsa.

Svavar Alfreð Jónsson, 6.9.2007 kl. 22:48

8 Smámynd: Hjalti Rúnar Ómarsson

Það er vel hægt að tala um ákveðin trúarbrögð eða trúarhreyfingar sem söluvörur. Réttara væri að tala um að kirkjan notaði söguna til þess að fá fólk til þess að nota þjónustu sína.

Annars hafa kristnir menn í gegnum árþúsundin notað guðspjöllin til 
þess að halda því fram að við hin munum kveljast að eilífu. Og að við eigum það
skilið!

Miðað við það þá er það mjög góð notkun á þessari heimskulegu sögu að selja síma.

Hjalti Rúnar Ómarsson, 7.9.2007 kl. 02:26

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband