7.9.2007 | 16:56
Segðu upp Símanum og skráðu þig í Þjóðkirkjuna!
Ég hélt að þetta dæmalausa Símamál væri því sem næst búið. Heyrði svo álitsgjafa tala í útvarpið áðan þegar ég var á leiðinni heim. Held að það hafi verið Þorfinnur Ómarsson. Hann býsnaðist mikið yfir viðbrögðum Þjóðkirkjunnar við kvöldmáltíðarfarsímaauglýsingunni. Hvatti þá sem ekki væru sammála Þjóðkirkjunni í þessu máli að segja sig úr henni.
Ætli ég hafi misst af einhverju? Var ekki leitað eftir áliti biskups Íslands á þessari auglýsingu? Og gaf hann ekki bara álit sitt? Sagði að sér fyndist auglýsingin ekki smekkleg eða eitthvað í þá áttina? Er búið að kæra í málinu? Hefur einhverju eða einhverjum verið hótað?
Viðbrögðin við viðbrögðunum eru auðvitað miklu ofsafengnari en viðbrögðin sjálf. Hvaða sögu ætli það segi?
Áðan las ég pistil eftir Pétur Tyrfingsson, glerharðan guðleysingja. Hann kemst að miklu skýrari niðurstöðu í málinu en biskupinn. Segir auglýsinguna hreint guðlast.
Á þá ekki að hvetja Pétur Tyrfingsson til að skrá sig umsvifalaust í Þjóðkirkjuna?
Og sé hann í viðskiptum við Símann að hætta þeim án tafar - til að vera alveg öruggur?
Athugasemdir
Ég held að stundum að fólk sé ekki með öllum mjalla...hreint að ganga af göflunum...
Þetta er frábær pistill hjá Pétri, hann er greinilega skýrari í kollinum en meðal Jón, hvað þá Gnarr. Hugsaður þér ef hann væri prestur, hætt við að hann myndi slá eldklerkinum við.....
Greta Björg Úlfsdóttir, 7.9.2007 kl. 18:15
Já, Pétur er stundum beittur, eins og þegar hann skrifaði:
Vandin sem hér blasir við er sálarmein í vestrænum þjóðfélögum. Þetta mein felst í þeirri pólitísku rétthugsun að trúarskoðanir fólks eigi að virða umfram aðrar skoðanir hversu vitlausar sem þær eru og kirkja og prestar eigi einhvern sérstakan rétt á því að skoðanir þeirra séu látnar í friði. Þessu dekri og tepruskap hafa prestar vanist. Þegar orðinu hallar á þá taka þeir það ákaflega nærri sér og dettur þá ekkert annað í hug en verið sé að vega að starfsheiðri þeirra og jafnvel æru. Enda fer öll þjóðin hjá sér þegar þessir menn fara í hár saman.
Matthías Ásgeirsson, 7.9.2007 kl. 18:58
Mikið eiga þeir bágt sem fá ekki að vanvirða nægilega skoðanir kirkju og presta!
Alls staðar er sama niðurbælda þögnin um kristna trú, hvort sem blöðum er flett eða flakkað um netheima - t. d. moggabloggið. Enginn þorir að segja neitt.
Ég legg til að Pétur og Matti stofni sjálfshjálparhóp fyrir þá sem þjást af vanvirðingarbælingu.
Einhver bláeygð prestskepna væri ábyggilega til í að hleypa þeim inn í safnaðarheimilið hjá sér.
Svavar Alfreð Jónsson, 7.9.2007 kl. 21:45
Þvílíkur stormur í vatnsglasi. Ég held að fjölmiðlar hafi tekið Lúkasinn á þetta. Almennt (þá get ég auðvitað bara talið það fólk sem ég hitti - sem er bæði trúað fólk og vantrúað) þá finnst fólki þessi auglýsing ófyndin, einstaka finnst hún ósmekkleg, en flestum er sama.
Biskupinn verð ég að segja mjög rólegur yfir málinu sem reynt var að blása upp. Svo að ég velti fyrir mér hvað er málið? Er það að þeir sem deila á kristna og trú þeirra eru að skammast yfir því að þeir trúuðu hlupu ekki upp til handa og fóta og misstu sig?
En ég hef kannski misst af einhverju uppþoti kristinna og kirkjunnar?
krossgata, 7.9.2007 kl. 22:26
Ég tek undir hvert einasta orð sem trúleysinginn Pétur Tyrfingsson ritaði. Þessi auglýsing er gróft brot á boðorði númer 2. En það sem mér finnst stóra málið í auglýsingunni er að Jón Gnarr stendur raunverulega uppi með silfurpeningana, búinn að selja það sem ég hélt að væri kristnum mönnum heilagt. Hann hefur örugglega fengið dágóðan "silfur"skilding fyrir auglýsinguna.
Eitt er víst að símatæknin er flott í 3ju kynslóð farsíma, en það er alveg á hreinu að þegar ég kaupi þessa þjónustu þá verður það af Vodafone, en þeir munu bjóða þetta um áramót og örugglega án þess að leggja nafn drottins vors Jesú Krists við hégóma.
Guðrún Sæmundsdóttir, 7.9.2007 kl. 22:39
"Alls staðar er sama niðurbælda þögnin um kristna trú, hvort sem blöðum er flett eða flakkað um netheima - t. d. moggabloggið. Enginn þorir að segja neitt."
Hefurðu ekki skoðað trúarbragðasvæði moggabloggsins? Ég held að þessi
"niðurbælda þögn um kristna trú" sé bara til í hugarheimum presta.
Síðan veit ég af afar góðri netsíðu þar sem fram fara heilmiklar umræður um kristna trú. Þú ert auðvitað velkominn á hana Svavar.
Hjalti Rúnar Ómarsson, 8.9.2007 kl. 00:20
Auglýsingin er ósmekkleg og móðgandi, en ég er ekki viss um að hún sé guðlast. Ég veit svo sem ekki hvort ég skil það hugtak nógu vel.
Píslarsagan er helgasti hluti Biblíunnar og það þarf að fara varlega með að nota hana í annarlegum tilgangi. Ef þessi auglýsing telst guðlast, eru þá bíómyndir eins og Life of Brian og Síðasta freisting Krists líka guðlöst?
Í fyrri myndinni er hæðst að sögu Krists og í þeirri síðari er þeim möguleika velt upp hvort Jesús hefði freistast til að ganga að eiga Maríu Magdalenu. Sama má þá segja um DaVinci lykilinn.
Theódór Norðkvist, 8.9.2007 kl. 01:57
Life of Brian var fyndin og Síðasta freisting Krists vel gerð. Í Símaauglýsingunni er kvöldmáltíðarsagan nýtt í þeim tilgangi að selja gemsa. Mér finnst það ósmekklegt. Alveg eins og mér fyndist ósmekklegt að nota jólaguðspjallið til að selja bleyjur. Þetta hefur ekkert með húmor eða list að gera.
Og Hjalti minn: Það sem ég skrifaði um þögnina um kristna trú átti að vera fyndni. Það er sko engin þögn eða tepruskapur varðandi skoðanir presta og kirkju. Við erum sammála um það.
Svavar Alfreð Jónsson, 8.9.2007 kl. 10:47
Sorry ég get ekki séð neitt að þessari auglýsingu, sé engan mun á henni per se og á markaðsvæðingu þjóðkirkju á trú.
Ef sumir ætla að taka þetta svona nærri sér þá myndi ég segja að þeir sömu ættu að segja sig úr þjóðkirkju og frá símanum, skrá sig síðan hjá vodafone og í söfnuð sem gerir ekki út á Mammon.
DoctorE (IP-tala skráð) 8.9.2007 kl. 14:46
Já svavar... ég skil vel að þeir hlutir sem séu þér kærir séu ekki misnotaðir í þágu auglýsingu til að græða peninga..Ástæða þess að ég skil það svo vel er að ég pirrast einmitt sjálfur þegar ég heyri t.d tónlist sem er mér kær og er eyðilögð t.d með rapphljóðum......
Mér þykir samt verra að svo virðist að auglýsingarstofan sé að notfæra sér ykkar Íhaldsömu viðhorf því þeir vissu nákvæmlega hver viðbrögð okkar yrðu..í það minnsta held ég það... fyrir mér er þetta frá a til ö ekkert annað en auglýsingarflopp ... þið kirkjunarmenn voruð í raun plataðir til að auglýsa betur þessa auglýsingu með þessu umtali..
Brynjar Jóhannsson, 8.9.2007 kl. 22:19
Já, svona er að vera einfaldur!
Svavar Alfreð Jónsson, 8.9.2007 kl. 22:22
Ég hlustaði líka á þetta viðtal Þorfinns Ómarssonar en það er rangt farið með málið hjá þér að hann hafi sagt að fólk ætti að segja sig úr þjóðkirkjunni ef þeir væru ekki sammála þjóðkirkjunni í þessu máli.
Málið er mun flóknara en það og fyrir þá sem hlustuðu á það heyrðu að þeir voru einnig að tala um giftingu samkynhneigðra og vandræðaleika innan þjóðkirkjunnar í þeim málum.
Í kjölfarið sagði Þorfinnur að fólk, sem ekki er sammála þjóðkirkjunni [í hinum ýmsu málum] ætti bara að segja sig úr henni.
Þetta er mjög mikilvægt að rétt sé farið með mál. Það að þjóðkirkjan gifti ekki samkynhneigða geta allir verið sammála (hvort sem þeir eru hlynntir því eða ekki) um að það mál er mun meira þungavigtarmál en símamálið sem er í raun og veru léttvigt og verður gleymt og grafið eftir áramót (v/áramótaskaups) líkt og páskahneyksli Spaugstofunnar um árið.
Elin (IP-tala skráð) 9.9.2007 kl. 11:50
Ég tek undir með Svavari að það er ósmekklegt að snúa út úr píslarsögunni til að selja ákveðna vöru. Samt eru þær bíómyndir sem ég nefndi hrein gróðafyrirtæki, þ.e. gerðar í þeim tilgangi að selja þær. Eini munurinn er að myndirnar sjálfar eru varan í fyrra tilvikinu, en sími í því síðara.
Aldrei þessu vant er ég sammála "doktor" E, þar sem hann segir: Ef sumir ætla að taka þetta svona nærri sér þá myndi ég segja að þeir sömu ættu að segja sig úr þjóðkirkju og frá símanum, skrá sig síðan hjá vodafone og í söfnuð sem gerir ekki út á Mammon.
Má ég spyrja doktorinn hvort hann viti um slíkan söfnuð? Ég hef ekki enn fundið hann.
Theódór Norðkvist, 10.9.2007 kl. 21:44
Hann er ekki til, því miður; gengur allt út á peninga; en reyndar ef fólk heldur sig utan skipulagðra trúarbragða og milligöngumanna þá held ég að sannleikurinn sé þar, ef hann er til
DoctorE (IP-tala skráð) 11.9.2007 kl. 16:14
Athugasemd Elínar barst einhverra hluta vegna ekki fyrr en í kvöld. Ég þakka hana og tek undir það að þessi símaauglýsing er mun minna mál en málefni samkynhneigðra. Engu að síður voru hófsamleg viðbrögð kirkjunnar við auglýsingunni notuð til að hvetja fólk til úrsagnar - þó að öðru máli óskyldu hafi verið blandað þar saman við.
Svavar Alfreð Jónsson, 13.9.2007 kl. 22:41
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.