8.9.2007 | 22:14
Síminn í kristniboði
Ég var eitthvað að rífa mig inni á síðunni hjá Jónu bloggvinkonu minni og þótti þessi athugasemd mín þar svo ægileg snilld að ég ákvað að birta hana hér sem sjálfstæða og kynþroska bloggfærslu. (Ég vona að maður megi gera svona og Jóna verði ekki reið.)
Þótt mér finnist miklu meira í ætt við frekju en fyndni þegar fyrirtæki notar söguna um heilaga kvöldmáltíð til að selja símtæki sé ég margt spaugilegt við þetta mál. Mér finnst það eiginlega alveg tröllfyndið að fólk telji Símann vera í einhverju kristniboði af góðsemi sinni með þessari auglýsingu.
Vilji Síminn stuðla að útbreiðslu kristinnar trúar eru ábyggilega margar betri leiðir til en þessi.
Ég veit að höfundur auglýsingarinnar hefur haldið þessu fram og þess vegna finnst mér líka fyndið að ekki heyrist múkk í þeim sem hvað harðast hafa gagnrýnt trúboð hér á landi. Þeir virðast þvert á móti flestir ekki eiga orð til að lýsa hrifningu sinni á auglýsingunni.
Og sé Síminn lagstur í kristniboð - hvað skyldu þeir viðskiptavinir hans segja sem ekki eru kristinnar trúar eða trúlausir?
Ég hef unnið á auglýsingastofu og þið megið treysta því að þessi auglýsing er ekkert öðruvísi en aðrar auglýsingar: Hún á að selja. "Show me the money!" - með hjálp heilagrar kvöldmáltíðar.
Athugasemdir
Ég treysti því þá að þú lesir Vantrú á morgun og vísir lesendum þínum á þau skrif. Einnig mættir þú benda henni Jónu á þá grein.
Af hverju í ósköpunum geturðu svo aldrei nefnt "þá sem hvað harðast hafa gagnrýnt trúboð hér á landi" á nafn? Er þetta fólk of ómerkilegt fyrir þig - ertu yfir það hafinn - of menntaður og merkilegur til að eyða í það orðum eða vefvísunum?
Matthías Ásgeirsson, 8.9.2007 kl. 22:23
Vantrú.is byrjuð að nota síðuna mína til kynningar á væntanlegu vantrúarefni! Ég þakka heiðurinn - og þið eruð sko alls ekki ómerkilegt fólk í mínum augum. Skárra væri það nú! Þið eruð meðal minna dyggustu lesenda!
Svavar Alfreð Jónsson, 8.9.2007 kl. 22:30
Matthías afhverju bendir þú mér ekki bara sjálfur á þá grein. En takk fyrir, skilaboðin náðu til mín.
Svavar ''rífðu'' þig sem oftast inn á minni síðu. Alltaf gaman að fá þig í heimsókn. Held barasta að þetta sé með fyrstu skiptunum sem við erum virkilega ósammála. Bara gaman að því
Jóna Á. Gísladóttir, 8.9.2007 kl. 22:30
Takk sömuleiðis Jóna.
Og mér er sönn ánægja að hvetja fólk til þess að skoða Vantrú á morgun þegar mínir menn taka Símaauglýsinguna í nefið. Það er nú það minnsta sem ég get gert fyrir þá - ég hlýt að vera uppáhaldsbloggarinn þeirra.
Svavar Alfreð Jónsson, 8.9.2007 kl. 22:48
...er það ekki alveg einsog prestar þurfa líka að "sjá peningana"? Varla myndir þú nenna að standa í þessu þjóðsagnabrölti, nema vegna þess að þú færð greitt fyrir það?
Eða ertu kannski að bíða eftir því að Jésús detti niður bráðlega, til að fullkomna versin?
bugurbugadi (IP-tala skráð) 9.9.2007 kl. 01:07
Þetta væri nú alveg fullkomnað ef ég fengi greitt fyrir að svara athugasemdum eins og þessari...
Svavar Alfreð Jónsson, 9.9.2007 kl. 10:48
Þó það nú væri, hér er greinin Skítt með boðorðin - ég gat ekki vísað á hana í gærkvöldi því þá var hún ekki komin í loftið.
Ekki veit ég hvort hægt er að segja að þú sért uppáhaldsbloggarinn okkar Svavar. Ég er t.d. frekar lítið hrifinn af skrifum þínum - mér finnst þú blogga afskaplega mikið í dylgjustíl og beita útúrsnúningum til að fegra þinn kristna málstað. Mér leiðist til að mynda afskaplega þegar fólk telur það málstað sínum til framdráttar að ala á fordómum gagnvart vísindum eins og þú gerir gjarnan.
Eitt þarf fólk svo að átta sig á varðandi áróðursstríð eins og það sem Þjóðkirkjan stendur í. Það borgar sig ekki fyrir andstæðinga hennar að hafa sig mikið frammi þegar Þjóðkirkjan er á fullu af grafa sig ofan í djúpa holu. Þá er betra að standa hjá og fylgjast með.
Matthías Ásgeirsson, 9.9.2007 kl. 14:08
Sannir óvinir yfirgefa mann aldrei. (Stanislaw Jerzy Lec)
Svavar Alfreð Jónsson, 9.9.2007 kl. 18:21
Jóna Á. Gísladóttir, 10.9.2007 kl. 21:20
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.