Nonni Fríðu

Í dag hélt Kristján Jóhannsson stórsöngvari tónleika hér í bænum. Þeir tókust frábærlega er mér tjáð en því miður hafði ég ekki tök á að sækja þá.

Aftur á móti kemst ég á tónleika annaðkvöld og hugsa mér gott til glóðarinnar. Þá heldur Jón Þorsteinsson, tenór, tónleika í Akureyrarkirkju í tilefni af útkomu hljómdisksins "Ó, Jesú, að mér snú". Diskurinn hefur að geyma 23 sálma úr Sálmabókinni. Undirleikari er Hörður Áskelsson. Flestir sálmanna voru á plötu sem kom út fyrir 16 árum þegar Ólafsfjarðarkirkja varð 75 ára. Jón hóf sinn söngferil á sönglofti þeirrar kirkju. Hann var ekki nema fimm ára þegar hann fékk að fylgja afa sínum og nafna Frímannssyni þangað, en sá gamli söng í kirkjukórnum.

Jón á að baki glæstan feril í söngnum og starfar nú við söngkennslu í virtum tónlistarháskóla í Hollandi.

Ég get hikstalaust mælt með þessum diski og þori alveg að fullyrða að enginn Íslendingur syngur sálma af meiri list og einlægni en Jón - eða Nonni Fríðu eins og Ólafsfirðingar kalla hann. Eða Nonni frændi eins og hann er nefndur á mínu heimili. Diskinn má kaupa hér.

Við Íslendingar eigum marga alveg yndislega sálma. Hreina dýrgripi. Bæði þeir sem vita það og hinir sem ekki hafa ennþá fattað það almennilega ættu að drífa sig á útgáfutónleikana. Þeir byrja kl. 20:30. Svo þurfa menn ekki að borga krónu fyrir að fá að hlusta á þennan snilling og öðling.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Þórir Jónsson

Útgáfutónleikar Nonna Fríðu og Harðar Áskelssonar í Akureyrarkirkju að kvöldi 10. september voru í einu orði sagt yndislegir og það kom þægilega á óvart að kirkjan var nærri fullsetin. Rödd Jóns er þeirrar náttúru að sálmar öðlast nýtt líf í flutningi hans, bæði lag og texti. Ég heyri yfirleitt ekki vel orðaskil í söng en Jón skilar hverju orði í mín eyru. Hversu skýrt Jón fer með texta er raunar ótrúlegt; árangur þrotlausrar vinnu. Sem barn varð hann fyrir slysi og stykki fór úr tungunni og það háði honum verulega í tali. Meðan hann var enn í Hollandi fór hann í áhættuaðgerð hérlendis og þökk sé snjöllum læknum tókst hún vel en Jón þurfti að læra að tala upp á nýtt.

Heim kominn af tónleikunum fór ég að hlusta á plötuna „Guðs kirkja er byggð á bjargi“, sem Ólafsfjarðarkirkja gaf út 1991, og nýja diskinn, „Ó, Jesú, að mér snú“. Mér finnst athyglisvert að upptaka Gunnars Smára (Stúdíó Sýrland) stenst svo vel tímans tönn að ekki er að heyra mun á þeirri upptöku og hinni nýju; sálmunum sem teknir voru upp í ár leið.

Diskurinn „Ó, Jesú, að mér snú“ er hreinasta perla og til sóma öllum sem að útgáfu hans komu, bæði söngvara, undirleikara og tæknimönnum. Mér þykir ekki ólíklegt að fleiri en við Bogga muni gefa hann í jólagjöf söngelskum vinum og vandamönnum.

Þórir Jónsson, 11.9.2007 kl. 02:30

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband