12.9.2007 | 22:57
Blessaðar áhyggjurnar
Það er alls ekki í flimtingum hafandi að vera manneskja á þessum síðustu og verstu. Ríkisstjórnin er ómöguleg - eins og aðrar ríkisstjórnir fyrr og síðar - fiskurinn er horfinn úr sjónum, landbúnaðurinn er á heljarþröm að venju, andrúmsloftið hlýnar stöðugt, Þjóðkirkjan er í upplausn, vaxtaokur sligar heimilin í landinu, unglingarnir eru á kafi í eiturlyfjum og börnin ánetjast sjónvarpsglápi og tölvuleikjum.
Þar við bætist að greiðslukortareikningurinn er ógreiddur, enn þarf að hækka yfirdráttinn, taka upp gírkassann í bílnum, koma parketi á stofugólfið, bjarga hjónabandinu og fara til læknis út af verkjum í brjósti sem maður er lengi búinn að vera smeykur við.
Öll góð rök hníga að því að hafa áhyggjur. Hefði maður engar áhyggjur ætti að hafa af því sverar áhyggjur.
Hvað eru menn svo að þvæla um fugla himinsins og liljur vallarins?
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.