13.9.2007 | 12:07
Fjölmiðlalögin
Íslensk þjóðfélagsumræða er óskapleg skrykkjótt. Einn daginn eru allir fjölmiðlar uppfullir af einu máli og hver einasti bloggari hefur á því skoðun. Næsta dag er málið gjörsamlega horfið og enginn hefur minnsta áhuga á því lengur.
Einu sinni voru svonefnd fjölmiðlalög hitamál svo um munaði. Forsetinn sjálfur blandaði sér eftirminnilega í þann slag. Blaðamenn tóku líka afstöðu í málinu og fundu fjölmiðlalögunum meðal annars það til foráttu að þau hefðu ekki verið nægjanlega rædd.
Það var nokkuð til í því hjá þeim. Og hver skyldi bera ábyrgð á því? Ætli fjölmiðlafólkið sjálft sé saklaust?
Nei, það held ég ekki. Umfjöllunin um fjölmiðlalögin var að mínu mati fátækleg þó að yfirleitt þurfi ekki að hvetja fjölmiðlafólk til að beina kastljósi að sér sjálfu. T. d. var varla gerð tilraun til þess að setja þessi umdeildu lög í víðara samhengi en víðar en hér á landi hefur verið hitamál hverjir eigi fjölmiðlana.
Enn hafa þeir sem sárast söknuðu umræðu um eignarhald á fjölmiðlum ekki efnt til hennar svo heitið geti.
Rannsóknir hafa sýnt að samhengi er á milli innihalds fjölmiðla, dagskrárefnis og gæða annars vegar og hins vegar eignarhalds á fjölmiðlum. Þetta kemur m. a. fram í bók þýska blaðamannsins Robert Islinger "Von Abendland zum Disneyland. Wohin steuern unsere Medien?" (ISBN 3-7632-5393-9).
Þar gengur Islinger meira að segja svo langt að fullyrða að blaðamenn hafi ekkert að segja í eigendur fjölmiðla, sem sífellt verða háðari lögmálum markaðsaflanna. Því segir hann að lög um eignarhald sé nauðsynlegur stuðningur við vandaða blaðamennsku.
Í umræðunni um hin alræmdu fjölmiðlalög rak mig í rogastans þegar ég heyrði vinstri menn taka undir þá skoðun harðsvíraðra frjálshyggjumanna að líta beri á fjölmiðla sem hverja aðra markaðsvöru og því sé ekki þörf að hafa um þá sérstök lög.
Vel er hægt að láta fjölmiðla lúta sömu lögmálum og gilda um aðrar neysluvörur - en ef við drögum fjölmiðla og skeinipappír í sama dilkinn er hætt við að á endanum verði ekki nema sjónarmunur á þeim varningi.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.