14.9.2007 | 11:30
Lyktin af þér
Í gærkvöldi horfði ég á þýsku kvikmyndina "Das Leben der Anderen". Hún er afskaplega vel gerð og frábærlega leikin. Umfjöllunarefnið er líka mjög spennandi - lífið í þýska alþýðulýðveldinu. Aðalsöguhetjan er starfsmaður Stasi, austur-þýsku leyniþjónustunnar.
Upphafsatriði myndarinnar vakti upp minningar hjá mér. Vorið 1994 var ég á ráðstefnu í Berlín. Þá heimsótti ég aðalbækistöðvar Stasi sem eru til húsa í gamla flotamálaráðuneyti nasistanna. Yfirmaður Stasi, Joachim Gauck, tók á móti okkur.
Húsakynnum Stasi var ekki lokað eftir fall múrsins. Þar er að finna gríðarlegt magn upplýsinga um fólk, aðallega fyrrum borgara DDR. Þegar alþýðulýðveldið varð gjaldþrota var ákveðið að fólk gæti nálgast upplýsingar um sig hjá Stasi og fólk var ráðið til stofnunarinnar til að gera þær aðgengilegar. Einnig gast þú fengið að vita hverjir það voru sem gáfu upplýsingarnar um þig, eins og fram kemur í Das Leben der Anderen. Gauck var settur yfir þessa nýju Stasi.
Gauck sagði okkur sögu Stasi og leiddi okkur um húsakynni stofnunarinnar. Við sáum meðal annars deildina sem sá um að opna bréf til almennings. Það eftirminnilegasta var samt risastór geymslusalur, fullur af vandlega lokuðum glerkrukkum. Hver þeirra var merkt mannsnafni og hafði að geyma klút. Við gestirnir vissum ekkert hvað þetta var en Gauck vissi af eigin raun hvað hér var um að ræða.
Á sínum tíma var Gauck æskulýðsprestur í borginni Rostock í gamla austurhlutanum. Margir prestar létu um sig muna í andófi gegn alræðinu og auk þess var kirkjan bakhjarl friðarhreyfinga sem voru stjórnvöldum mikill þyrnir í augum. Einu sinni sem oftar var Gauck færður til yfirheyrslu. Að henni lokinni var honum réttur klútur og hann beðinn að nudda honum við nára sér. Þar er víst mesta útstreymi lyktar á líkamanum og þess vegna hoppa hundar gjarnan í klof manna.
Klúturinn var svo gripinn með töng og settur ofan í krukku. Henni var lokað og síðan var hún merkt og komið til geymslu á vísum stað. Gauck var einn fjölmargra borgara sem þótti líklegur til að reyna flótta vestur yfir. Þess vegna fannst þeim vissara að eiga lykt hans til að geta sent hundana á eftir honum.
Stasi fylgdist vel með sínum, skráði hjá sér daglega hegðun fólks, hlustaði á það tala við sína nánustu við eldhúsborðið og elskast á kvöldin. Þar að auki átti ríkið lykt af þúsundum borgara sinna.
Athugasemdir
Horfði á þessa mynd um síðustu helgi og var alveg stórhrifin!
Guðríður Hrefna Haraldsdóttir, 14.9.2007 kl. 11:34
Óhuggulegt. Ég fæ óraunveruleika tilfinningu að lesa þetta.
krossgata, 14.9.2007 kl. 12:25
Já, þetta er spúkí. Sá því miður ekki myndina, en hef heyrt talað um hana.
Arnaldur Indriðason hefur líka gert þessu tímabili góð skil í "Kleifarvatni".
Greta Björg Úlfsdóttir, 14.9.2007 kl. 13:07
Myndin er stórgóð. Mæli með því að þú horfir á the US vs John Lennon ef þú ert á þessum buxunum og metir hvort ástandið sé skárra þar...
Gestur Guðjónsson, 14.9.2007 kl. 13:51
Þakka fyrir góð skrif
Baldur Kristjánsson, 14.9.2007 kl. 22:55
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.