5.10.2007 | 09:07
Hver er sjálfum mér næstur?
Ég hef verið að íhuga dálítið tengsl trúar og hreysti. Nærtækt dæmi um þessi tengsl er sú staðreynd að margir fíklar finna ómetanlega hjálp í trú sinni. Þegar menn missa tök á eigin lífi er með öðrum orðum ekki eina úrræðið að borða töflur. Þá þarf að breyta lífi sínu.
Fíkillinn stendur frammi fyrir því verkefni að breytast. Hann þarf að endurskoða sig, raða sér saman upp á nýtt, huga að skoðunum sínum, viðhorfum og gildum. Hann þarf að uppgötva hvað sé raunverulega mikilvægt í lífinu og eftir hverju hann sækist. Til að ná bata spyr fíkillinn sig nærgöngulla spurninga, hann gerir upp fortíð sína og nær sáttum við sjálfan sig og umhverfi sitt.
Þetta eru snúin verkefni og þeir sem standa frammi fyrir þeim leita gjarnan í trúna því trúarbrögðin hafa þróað aðferðir til að takast á við þau. Þar að auki er afstaða þess sem ræður ekki við tilveruna í eðli sínu trúarleg því kjarni trúarbragðanna er sá að maðurinn sé sjálfum sér ekki nógur.
Nú á dögum þykir ekki smart að tala um syndina. Hún er í margra augum hallærisleg. Sá skilningur kristinna manna að maðurinn sé fallinn syndari á ekki upp á pallborðið í þjóðfélagi þar sem maðurinn og möguleikar hans eru ofar öllu. Við trúum á framfarir og þróun. Sérfræðingahyggja nútímans er reist á grunni ofurtrúar á mátt vísindanna, því viðhorfi að illskan sjálf sé tæknilegt vandamál. Hugkvæmni mannsins muni að lokum útrýma bölinu og í fyllingu tímans skapi hann himnaríki á jörðu.
Á síðustu öld gerðu menn róttækar tilraunir til að búa til hið fullkomna þjóðfélag. Þær fyrirætlanir breyttust í martröð botnlausrar mannfyrirlitningar eins og sagan kennir okkur, því sá maður sem gerir sig að miðpunkti alheimsins gleymir sínum skæðasta óvini:
Sjálfum sér.
Þeir sem hneppst hafa í fjötra fíknarinnar vita vel hversu hættulegur maðurinn er sér sjálfum. Hann er veikastur fyrir þeim freistingum sem hann leggur fyrir sig sjálfur. Aldrei er hann blindari en þegar hann sjálfur á í hlut. Engri lygi trúir hann jafn greiðlega og þeirri sem hann skrökvar að sér sjálfum.
Athugasemdir
Þær aðferðir sem trúarbrögðin hafa þróað til að takast á við fíkn hafa að vísu ekkert reynst haldbetri en meðferð sem byggir á rökhyggju og sjálfsábyrgð. Ég bendi t.d. á þessa netsíðu; http://www.rational.org, fyrir þá sem eru með ofnæmi fyrir Gvuði en vilja samt hætta að hegða sér eins og eymingjar.
Eva Hauksdóttir (IP-tala skráð) 5.10.2007 kl. 20:01
Ég hef þekkt marga fíkla í næstum því 30 ár. Þar hef ég kynnst mörgum sem eru trúlausir en samt orðið bláedrú árum og áratugum saman- en reyndar líka mörgum trúuðum. Almennt talað held ég þó að guðstrú sé ekkert sérstakt atriði í því að losna við fíkn. Frekar andlegur heiðarleiki.
Sigurður Þór Guðjónsson, 6.10.2007 kl. 00:31
Þetta er spurning um heilaþvott öðru fremur. Viðfangið er rifið niður og troðið niður í skítinn og síðan endurforritað. Við erum jú móttækilegust fyrir innrætingu þegar við erum veik fyrir. Það er klassískt. Þess vegna brjóta skattgreiðendur (ríkið) sig sjálfa niður með fíkniefnasölu og senda síðan sig í meðferð eða kristilegrar innrætingar til endurforritunar og þaðan kemur meðfærilegt og þægt fólk allavega á meðan það sækir samkomur. En klikki það kosta skattgreiðendur bara aðra heilaþvottartilraun osfrv.
Baldur Fjölnisson, 6.10.2007 kl. 00:45
Til að fyrirbyggja misskilning: Menn geta ábyggilega tollað edrú án trúar. Ég veit á hinn bóginn um marga sem fá ómetanlega hjálp úr trú sinni í baráttunni við fíkn.
Svavar Alfreð Jónsson, 6.10.2007 kl. 11:16
Ég þekki líka marga mikla trúmenn sem aldrei hafa tollað edrú! En hvað um það, ekki er ég að tala gegn trú, aðeins minna á að góð edrúmennska er óháð trúarskoðunum.
Sigurður Þór Guðjónsson, 6.10.2007 kl. 19:01
Duglegar fyllibyttur mega mín vegna vera hvaða trúar sem er, Sigurður, og ekki var nú meiningin að metast um það hvort sé betra að hætta að drekka með Guðs hjálp eða einhverri annarri - heldur vildi ég einungis benda á að margir sækja hjálp í trúna til að losna við fíkn, svo ég taki það fram einu sinni enn. Aðrir fara öðruvísi að. Báðum hópunum óska ég góðs gengis.
Svavar Alfreð Jónsson, 6.10.2007 kl. 21:48
Langaði að bæta hér við... mín skoðun (og reynsla) er sú að trú er undirstaða þess að geta átt heilbrigt líf. Þá er ég ekki að tala um trúarbrögð. Andlegt líf,byggt á t.d 12 sporum AA samtakanna skilyrðir ekki fólk í ákveðin trúarbrögð en með þvi að stíga þau spor hefur fólki tekist að lifa andlegu lífi. Ekki eingöngu fíklar,heldur aðstandendur þeirra eiga því sporunum líf sitt að þakka. En allt byggist það á æðri mætti. Sama hvernig fólk túlkar hann. Ég vil meina að trúmenn,sem ekki ná að verða edrú, lifi ekki eftir þeirri trú. Munurinn er jú sá, að láta verkin fylgja orðum. Að lifa eftir sannfæringu sinni,reynist oft erfitt. Tek það fram hér að ég er ekki talsmaður AA samtakanna.
Báran, 8.10.2007 kl. 08:13
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.