Heilsast á rauðu ljósi

Nú á dögum er það trúarlega feimnismál. Það er hálfgert tabú. Þeir sem taka til máls um trúmál eiga á hættu að vera stimplaðir kverúlantar (sem á reyndar oft við rök að styðjast). Hér á blogginu geta menn fengið hin heiftarlegustu viðbrögð opni þeir þráð um trúarleg efni. Ég hef fengið slík viðbrögð úr báðum áttum, bæði frá heittrúuðum og trúleysingjum.

Samt er það trúarlega allt í kringum okkur. Eitt nærtækt dæmi um það er kveðjan og heilsan. Á Íslandi segjum við "komdu sæll" og "vertu blessaður". Þetta er trúarlegur siður. Að minnsta kosti magískur. Og alla vega ekki athæfi sem hægt er að skýra til fulls með raunvísindalegum aðferðum.

Sælan og blessunin eru trúarleg hugtök. Í okkar kristna heimi streymir blessunin til okkar lóðrétt og lárétt. Hin lóðrétta blessun kemur beint frá Guði. Þá láréttu öðlumst við í gjöfum þessa heims.

Þar að auki hefur það að óska einhverjum einhvers á sér augljóst trúarlegt yfirbragð. Það er í raun lítil bæn. Það á að gera meira en að koma einhverju til leiðar eða verða til einhvers. "Blessaður!" er meira en boð og ósk. Orðið sjálft miðlar einhverju við það að vera sagt. Kveðjan sjálf býr yfir mætti.

Þú hefur ábyggilega fundið hlýjuna og birtuna í heilsu og kveðju.

Þegar maðurinn kveður hefur hann upp gjarnan upp hönd. Þegar menn heilsast nudda þeir saman opnum lófum. Þegar hann blessar er hönd lögð á enni þess sem blessunina hlýtur.

Í heimi trúarbragðanna getur maðurinn miðlað bæði blessun og bölvun. Lófinn og ennið eru þeir staðir líkamans sem hleypa mest af blessuninni út og þeir staðir eru ennfremur móttækilegastir fyrir blessun.

Næst þegar þú sérð tvo menn heilsast úr bílunum sínum á rauðu ljósi með því að lyfta opnum lófum er sum sé um að ræða tvo einstaklinga sem eru að skiptast á lífsorku og blessun.

Yfir þvera götuna.

Sennilega trúa þessir menn svo engu nema því sem hefur verið vísindalega sannað.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: halkatla

að segja "lifðu heill" er úr heiðna hugarheiminum, það sem er heilt er gott og heilbrigt - sama hugsun á bakvið það og að segja sæll og blessaður. Þetta eru æðislegir siðir. Líka þetta íslenska fyrirbæri að segja alltaf takk fyrir matinn. Og að segja bless er líka æðislegt

halkatla, 11.10.2007 kl. 09:16

2 identicon

Holy smoke og önnur orð sem þú nefnir eru oftar en ekki sögð án nokkurrar hugsunar tengd trúmálum.
Mér fannst þessi grein vera með mjög svo miklu kukls yfirbragði gamli minn

DoctorE (IP-tala skráð) 11.10.2007 kl. 09:35

3 identicon

Heill og sæll, Svavar.

Já, við eigum falleg ávörp og kveðjur. Ekki vissi ég að blessanir þyrftu að berast inn eða út úr líkamanum í gegnum ákveðna líkamshluta eða að leiðni þeirra væri misjöfn í því tilliti, enda er ég ekki menntaður í guðfræði. Ég vissi ekki heldur að hægt væri að skiptast á lífsorku en geri ráð fyrir að það sé mun tilkomumeira ferli en að kæta geð náungans. Ennfremur gerði ég mér ekki grein fyrir að blessanir mætti hallamæla. Ég vona að þú getir miðlað fávísum frekar af speki þinni um þessi merkilegu fyrirbæri eða bent á hvar nánari upplýsingar um þau er að finna.

Góðar stundir.

Reynir (IP-tala skráð) 11.10.2007 kl. 09:39

4 Smámynd: Guðmundur Örn Jónsson

Sæll og blessaður Svavar.  Gaman að þessum pistli, sýnir okkur hvernig svo margt er komið frá hinum kristna arfi í samfélaginu.

Guðmundur Örn Jónsson, 11.10.2007 kl. 09:57

5 identicon

Sæll og blessaður Svavar.. Það var mjög gaman að lesa pistilinn þinn og almennt alla pistlanna þína. Ég hef nú ekki en þá fundið kirkju hérna úti sem er eins og þjóðkirkjan en það hefur mikið lyft mér upp að lesa pislanna þína 

 kveðja Alma Guðna

Alma Guðnadóttir (IP-tala skráð) 11.10.2007 kl. 10:14

6 Smámynd: Greta Björg Úlfsdóttir

Komdu sæll, Svavar!

Þetta var skemmtilegur pistill hjá þér og ég þakka þér kærlega fyrir hann. Ekki skal ég deila við neinn um það hvort blessun Guðs okkar sé lóðrétt eða lárétt eða allt um kring, sýnist það koma út á eitt hvort eð er. Hvort menn skiptist á lífsorku til að kæta geð sitt og annarra með því að leyfa henni að streyma í gegnum enni og lófa, eða aðra líkamsparta sýnist mér líka ekki höfuðmál eða sáluhjálparatriði, enda deila víst einhverjir um það líka hvar hún (sálin) sé niðurkomin, í líkama mannsins, eða hvar/hvort hana sé yfirleitt að finna þar eða annars staðar.

Vertu svo ævinlega margblessaður!

Kveðja, Greta Björg. 

Greta Björg Úlfsdóttir, 11.10.2007 kl. 11:19

7 Smámynd: Baldur Kristjánsson

Blessaður!

Baldur Kristjánsson, 11.10.2007 kl. 15:45

8 identicon

Sælinú og sé með yður
sálarró og innri friður.
Himnaföðursins helgi griður,
til hægri og vinstri, upp og niður.

Brjánn Guðjónsson (IP-tala skráð) 11.10.2007 kl. 17:42

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband