Að sjá stráin en ekki túnið

straw[1]Síðustu dagana hefur maður varla haft við að innbyrða tíðindi af hræringum í REI-málinu sem smám saman leiddu til hruns meirihlutans í höfuðborg lýðveldisins. Fréttmenn hafa svo sannarlega staðið vaktina og sagt okkur frá framvindunni í fínkornuðum smáatriðasalla. Við fengum að vita hvernig listinn með kaupréttarhöfum breyttist og hverjir vissu um listann og hverjir ekki. Við fengum að vita hver tók í hönd hvers, þann sem ekki kannaðist við að taka í hönd hins og hvenær sá lagðist í bælið í flensu. Við sáum hverjir voru í fýlu og hverjir brostu meðan við kjömsuðum á kvöldmatnum.

Fréttatímar nútímans flytja okkur veruleikann í smáatriðum en því miður gleymist oft að skoða hið stærra samhengi hlutanna. Þannig ýta fjölmiðlarnir undir þá tilfinningu að það séu einstök nöfn og einstakir atburðir sem breyti gangi sögunnar og sköpum skipti.

Undanfarið hef ég verið að lesa bókina "The Rise of Christian Europe" eftir breska sagnfræðinginn Hugh Trevor-Roper. Þetta er rennilegt rit og upplýsandi. Á einum stað í bókinni er sagt að mannkynssagan sé ekki sköpuð af einstökum hetjum. Þær geti í mesta lagi verið hvatar og leiðtogar afla sem þegar séu til staðar.

Til þess að sjá þessi öfl þarf þolinmæði. Þau sjást oft ekki fyrr en eftir á, þegar unnt er að skoða söguna úr ákveðinni fjarlægð. Þess vegna þarf stundum - og sennilega oftast - að bíða til að geta séð það sem raunverulega gerðist.

Sú þolinmæði er yfirleitt ofviða fjölmiðlum nútímans. Þegar biðinni er lokið teljast tíðindin gömul og málið úrelt. Fréttin er hætt að selja.

Og við höldum áfram að heyra um það hvenær hver skreið í bælið í flensu.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Hlynur Hallsson

Takk fyrir skemmtilegan pistil. Nokkuð til í þessu með fjölmiðlana. Bestu kveðjur,

Hlynur Hallsson, 12.10.2007 kl. 07:11

2 Smámynd: Greta Björg Úlfsdóttir

Hverju orði sannara. Takk fyrir þetta, eins og ævinlega.

Greta Björg Úlfsdóttir, 12.10.2007 kl. 11:35

3 Smámynd: María Kristjánsdóttir

Hjartanlega sammála.

María Kristjánsdóttir, 12.10.2007 kl. 15:06

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband