16.10.2007 | 21:44
Áfengi í matvörubúðum?
Þegar rætt er um hvort selja eigi bjór og léttvín í matvörubúðum er ástæða til að rifja upp hvernig hinn sæli biskup Þorlákur meðhöndlaði görótta drykki.
Þjóðardýrlingur Íslendinga virðist ekki hafa verið algjör bindindismaður á áfengi þótt hann hafi neytt þess í miklu hófi og mætti ekki á sér finna, eða eins og segir í sögu hans:
"Svo var honum um drykk farið að aldrei mátti finna að á hann fengi þó að hann fengi þess kyns drykk."
Virðist hann ekki hafa haft á móti því að aðrir drykkju ögn meira en hann, því sagt er að það öl hafi aldrei brostið er hann blessaði. Var það kallað að vera drykksæll. Ekki veigraði hann sér heldur við því að sitja drykkjuveislur og var svo óvandlátur og vinveittur að þar sæmdi hann "við allt það er eigi samdi illa".
Þorlákur lét sér ekki nægja að fara sparlega með áfenga drykki heldur gætti ennfremur hófsins þegar óáfengir voru annars vegar, þar á meðal blávatn.
Þá hafði hann þann háttinn á að súpa "þrjá sopa eða fimm eða sjö en nálega aldrei framar".
Athugasemdir
Þakka þér fyrir skemmtilegar vísanir til Þorláks helga. Ég vissi ekkert um þennan mann fyrr en ég las pistlana þína nema að 23. desember er við hann kenndur.
Sjálfur get ég ekki státað af sömu hófseminni og dýrlingurinn enda verð ég seint nefndur í sömu andrá og þeir sem hafa slíka stöðu. Framan af ævinni bergði ég sérhvern vínbikar til botns og uppskar í samræmi við það. Ég sneri við blaðinu um þrítugt og hef síðan bergt af lífsins bikar af sama ákafa og ég drakk áfengi áður.
Sjálfum finnst mér ekki neitt óþægilegt að kaupa bensín á bensínstöðvum, hjólbarða á hjólbarðaverkstæðum og á sama hátt truflaði það mig aldrei, meðan ég notaði áfengi, að þurfa að kaupa það í sérstökum áfengisverslunum, þótt sannarlega væru innkaupaferðir mínar þangað tíðari en það sem gengur og gerist.
Hafandi sagt þetta þá skil ég þá sem vilja kaupa áfengi um leið og matvöru. Flestir neyta þessa saman og vilja gjarnan sameina innkaupin. Áfengið per se truflar mig ekki í matvöruverslunum erlendis og því skyldi það gera það hér heima.
Nú er klukkan 10 að morgni og ég að standa upp frá lestri til að fá mér 4 kaffibolla morgunsins. Reikna ég með því að ég sé í kaffidrykkjunni, líkt og öðru, frábrugðinn hinum hófsama dýrlingi.
Góðar kveðjur til þín og þinna, Svavar minn. Mig langar til að þakka þér fyrir þessa bloggsíðu. Hún er hressandi og upplífgandi og minnir okkur á að um trúmál er hægt að fjalla æsingalaust og að þau tengjast öllu mannlegu.
Hreiðar Eiríksson (IP-tala skráð) 17.10.2007 kl. 10:11
Það er reyndar eitt sem ég hef verið að trufla mig; ef að áfengi er selt í matvöruverslunum, hvaða skilaboð erum við að senda æsku landsins? Að setja samasem merki á milli matvöru og áfengis finnst mér rangt. Það er ekkert til sem heitir vínmenning og þarna hefði ég átt að nota gæsalappir... menn vísa oft til Frakklands þegar "vínmenning" er rædd, en vita menn að í Frakklandi einu deyja umþaðbil 200 manns, daglega vegna skorpulifur? Getum við talað um hassmenningu í Amsterdam? Cocamenningu í Suður Ameríku?
Guðni Már Henningsson, 17.10.2007 kl. 12:21
Athyglisvert með sopana. Af hverju ætli hann hafi bara drukkið fjölda sopa á oddatölum (3,5,7)?
krossgata, 17.10.2007 kl. 14:42
Sæll Svavar þakka þér fyrir skemmtileg skrif um Þorlák helga. Ég les alltaf skrif þín, það er orðin fast í mínu daglega lífi. Ég er alveg ferlegur dóni að hafa ekki fyrr þakkað fyrir mig. En geri það hér og nú takk fyrir.
Kveðja Ásgerður
Ásgerður (IP-tala skráð) 17.10.2007 kl. 18:11
Getum við innleitt hófsemina - með því að auka aðgengi að áfengi?
Ef við getum ekki fylgt eftir reglum um lögaldur og tekið í alvöru strangt á "unglingadrykkju" og barnafylliríi - - - við núverandi aðstæður; - er þá líklegt að við getum frekar náð tökum á vandamálum ofneyslu áfengis og sérlega ótímabærri drykkju barna - með því að auka aðgengi?
Hef ekki svarið..........................
Bensi
Benedikt Sigurðarson, 17.10.2007 kl. 20:26
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.