23.10.2007 | 22:13
Sing if you´re glad to be straight!
Fróðlegt hefur verið að fylgjast með því hvernig umræðan um samkynhneigð hefur þróast.
Nú virðast mörg af helstu baráttumálum samkynhneigðra vera í höfn. Þeir njóta sömu réttinda og annað fólk. Þeir geta gift sig borgaralega. Þjóðkirkjan veitir hjúskap þeirra blessun. Allar líkur eru á að prestar Þjóðkirkjunnar fái rétt til að gefa þá saman að lögum og þá geta þeir gift sig kirkjulega líka.
En hjúskaparformið heitir ennþá "staðfest samvist" en ekki "hjónaband" og því vilja samkynhneigðir ekki una. Þeir vilja að hjúskapur þeirra nefnist það sama og hjúskapur gagnkynhneigðra. Vilja alls ekki vera hinsegin - að því leyti.
Þá rísa upp gagnkynhneigðir og finnst að sér vegið. Þeir vilja verja hjónabandið sem hjúskaparform gagnkynhneigðra. Þeir vilja varðveita þau sérkenni sín að vera gagnkynhneigðir. Rétt sinn til gagnkynhneigðar. Þeir koma undan rúmunum og öfugir út úr skápunum.
Þeir vilja fá að vera þau en hvorki þeir né þær.
Ég spái stofnun Samtakanna 87.
Athugasemdir
það hefur töluvert vatn runnið til sjávar síðan Tom Robinson kyrjaði slagara sinn forðum, já ég gæti alveg trúað því að samtökin 87 yrðu stofnuð á næstunni..
Björn Jónsson (IP-tala skráð) 23.10.2007 kl. 22:40
Ekki held ég að það yrði stór eða öflug samtök.
Svala Jónsdóttir, 23.10.2007 kl. 22:55
Hýr tengdasonur bloggara taldi orðið herraband ætti vel við hjúskap homma og frúarband þá við hjúskap lesbía. Fyrir mér getur þetta samt alltsaman bara kallast hjónaband.
Hverjum finnst að kynhneigð sinni vegið með því að kalla hjúskap þeirra sem hafa aðrar hvatir það sama og þeirra? Ekki býst ég við því að gagnkynhneigð verði neitt öðruvísi þó það deili hugtaki með hjúskap samkynhneigðra.
Ég get fullyrt að þeir einu sem halda öðru fram eru þeir sem efast um eigin kynhneigð.
Bjarki Þór Baldvinsson (IP-tala skráð) 23.10.2007 kl. 23:25
Já það er fyndið að við séum árið 2007 að rífast um ósýnilega vini og að þarfir þeirra séu ofar þörfum lifandi fólks, eða er fólk kannski bara að rífast um peninga
DoctorE (IP-tala skráð) 24.10.2007 kl. 07:24
Í þessum efnum leyfist enginn efi, Bjarki. Rétt skal vera rétt. Umburðarlyndi nútímans felst aðallega í því að umbera skoðanir jásystkina. Víðsýni að dást að því hversu stór manns eigin hlið á málinu sé. Hugekki telst að synda með straumnum. Þeir sem leyfa sér að ræða um eðli hjónabandsins, velta því fyrir sér, efast um það, eru auðvitað annað hvort haldnir hommafóbíu eða rétt ókomnir út úr skápunum. Svona er nú "umræðan".
Svavar Alfreð Jónsson, 24.10.2007 kl. 10:58
Ég var að tala um þá sem finnst að kynhneigð sinni vegið ef hjúskapur samkynhneigðra kallast það sama og þeirra. Ef þeim finnst að sér vegið er það vegna þess að þeir telji það geti haft áhrif á sig. Hvernig er hægt að skilja það öðruvísi en á þann hátt að þeir eru óvissir um eigin kynhneigð?
Nema þeir telji að hjúskapur samkynhneigðra sé lægri en gagnkynhneigðra og þeir séu því að "missa" eitthvað með því að bendla hjónabandið við óæðri kynhneigðir. Ef svo er þá biðst ég afsökunar. Það fólk er ekki í efa um eigin kynhneigð, heldur bara skíthælar.
Bjarki Þór Baldvinsson (IP-tala skráð) 24.10.2007 kl. 11:23
Þær og þeir hafa barist fyrir að vera þeir og þær og orðið bara vel ágengt. En ef þau vilja vekja athygli á að þau séu þau og vilji vera það áfram er það þá af því þau eru skíthælar eða eru ekki viss um hvort þau eru þeir eða þær?
Eiga þau ekki að eiga jafnan rétt á við þá og þær að kalla sig þau? Það finnst mér kjarninn í þessu. Hvort sem það endar svo með að hjónaband verður orð allra eða hver hópur eigi sitt hugtak. Hver hópur með sitt hugtak finnst mér rökréttara miðað við baráttuna. Þeir og þær hafa barist fyrir viðurkenningu sem þeir og þær, þ.e. það sem gerir þá og þær frábrugðna þeim (hvk). Eðlilegasti hlutur í heimi hlyti að vera hugtök þeirrar menningar og kristalla þá baráttu.
krossgata, 24.10.2007 kl. 11:35
Hver eru rökin fyrir því að hjúskapur samkynhneigðra skuli ekki kallast hjónaband? Hjónaband er sáttmáli milli einstaklinga um samvistir og sameiginlega ábyrgð, þar sem einstaklingarnir ákveða að eyða lífinu saman. Þetta segir ekkert til um hvers kyns viðkomandi aðilar þurfa að vera. Einnig má benda á að hjón er hvk orð og á því vel við margskonar gerðir heitbanda.
Bjarki Þór Baldvinsson (IP-tala skráð) 24.10.2007 kl. 12:02
Bjarki: Ertu að meina að þau sem efast um að hjónabandið eigi að vera kynhlutlaust séu hrædd um að verða samkynhneigð verði hjónabandið jafnt fyrir samkynhneigða og gagnkynhneigða? Finnst þér þetta nú gáfulegt innlegg í umræðuna?
Verði niðurstaðan sú að hjúskapur samkynhneigðra verði nefndur annað en hjúskapur gagnkynhneigðra er ekki þar með sagt að annar sé hinum æðri. Um tvö nákvæmlega jafngild sambúðarform gæti verið að ræða, bæði lagalega og kirkjulega.
Ég hef svo sem ekki tekið neina afdráttarlausa afstöðu í þessu máli. Það snýst núna sýnist mér einkum um skilgreiningar og málnotkun. En það getur auðvitað skipt máli hvernig við skilgreinum hlutina og hvað við köllum þá. Og umræða og umhugsun gæti verið gagnleg.
Svavar Alfreð Jónsson, 24.10.2007 kl. 12:07
Örlítil leiðrétting á orðum Bjarka: Hjónaband hefur fram að þessu ekki verið skilgreint í lögum sem sáttmáli milli einstaklinga, heldur karls og konu. Menn eru að tala um að breyta þessu þannig að ekki sé lengur talað um karl og konu heldur einstaklinga. Ekki er nema sjálfsagt að fólk komi með slíkar tillögur en þegar þær snúast um gagngerar breytingar á einni elstu stofnun samfélagsins, hjónabandinu nefnilega, er jafn sjálfsagt að um þær verði einhver umræða.
Svavar Alfreð Jónsson, 24.10.2007 kl. 12:34
Heheheheheheh!!!! Takk Svavar fyrir mjög gott drull yfir málfluttning minn (Finnst þér þetta nú gáfulegt innlegg í umræðuna?).
En ég bara einfaldlega fatta ekki að það sé stór díll að nota hugtakið hjónaband um hverskonar vígð heitbönd einstaklinga.
Bjarki Þór Baldvinsson (IP-tala skráð) 24.10.2007 kl. 13:51
Það káfar ekkert upp á mína gagnkynhneigð að samkynhneigðir fái að nota orðið hjónaband um sitt ,,ægteskab" eitt atkvæði frá mér!
Jóhanna Magnúsar- og Völudóttir , 24.10.2007 kl. 17:06
Er það í alvörunni svo að þessi deila sé farin að snúast um málfræði? Eða getur það verið nokkuð annað en desperat yfirklór þeirra sem vilja tefja og snúa útúr umræðunni? Það má vel vera að þessi orðnotkun fari fyrir brjóstið á einhverjum öldruðum íslenskufræðingum...en að prestar noti málfræðina sem vopn er nú frekar til marks um rökþrot á öðrum sviðum, að mínu mati.
Hvað með önnur tungumál? Enska orðið "marriage" er samkvæmt mínum skilningi algerlega kynlaust...og aldrei hef ég heyrt málfræði-rökum beitt í þessu samhengi hér í Ameríku...og nóg er nú rifist samt! Í Kanada geta nú tveir menn eða tvær konur gengið í "marriage" vandræðalaust og ekki virðist það ennþá hafa sett kanadíska þjóðfélagið á hvolf!
Ég hef enn ekki heyrt góð (fordómalaus) rök fyrir því á hvern hátt það myndi gera lítið úr, eða lítillækka hjónaband karls og konu þó svo samkynhneigðir gætu líka gengið í "hjónaband" ef þeir svo kysu.
Staðreyndin er sú að á meðan þetta er kallað eitthvað annað (eins og staðfest samvist, domestic partnership eða civil union) þá er um aðskilnað að ræða. "Seperate but equal" is never equal.
Með vinsemd og virðingu,
Róbert Björnsson, 24.10.2007 kl. 17:12
Ég tek undir athugasemdina hans Róberts og líka athugasemdir annarra sem sjá ekkert að því að samkynhneigðir geti gengið í "hjónaband". Svo vitlaust þegar þetta er farið að snúast um orðalag eins og Róbert bendir á.
Hjónaband er bara löggjörningur og þegar fólk giftir sig í kirkju er það staðfesting á þeim löggjörningi með blessun þeirra sem hafa segjast vera í umboði guðs.
Ég vil að allir njóti jafns réttar í öllu og að allt sem heitir kynhneigð sé ekki eitthvað sem ræður réttindum fólks og alls ekki þegar það vill ákveða hverjum það vill giftast.
Ég held að meiri hluti þjóðarinnar vilji fullkominn og jafnan rétt fyrir alla, óháð kynhneigð. Það ætti að segja forkólfum kirkjunnar eitthvað. Snýst kirkjan kannski ekki lengur um fólkið? Gengur þetta út á forpokaðar rykfallnar skoðanir bókstafstrúarfólks?
Margrét St Hafsteinsdóttir, 24.10.2007 kl. 18:25
Ég þakka ágæt viðbrögð við skrifum mínum. Hjónabandið hefur fram að þessu, bæði hér á landi og annars staðar, verið gagnkynhneigt. Nú vilja sumir skilgreina það upp á nýtt, gera það kynhlutlaust og hvort sem fólk er á móti eða með því finnst mér gagnlegt að ræða slíkar breytingar og skiptast á skoðunum um þær - þótt einhverjum kunni að finnast slíkt "desperat yfirklór".
Borgaraleg yfirvöld setja lög um hjúskaparform en ekki trúfélög. Langflest ríki heimsins hafa hjónabandið gagnkynhneigt og ég er ekki viss um að ástæðan fyrir því séu "forpokaðar rykfallnar skoðanir bókstafstrúarfólks". Verði hjónabandið aflagt í þeirri mynd sem við þekkjum það - sem auðvitað kemur til greina - er held ég ekkert að því að íhuga það skref gaumgæfilega en berja umræðuna ekki niður með hommafóbíuhamrinum og fordómafelgulyklinum.
Svavar Alfreð Jónsson, 24.10.2007 kl. 22:13
Hvers konar lágkúrukomment eru þetta hér!? Tilefnin eru næg til að rausa um þetta mál út um kvipp og kvapp. Kemur enginn auga á hvílík bókmenntaleg snilld bloggið er? Fattar enginn að prestur hefur plötuumslag Tomma öfugt? Snyrtileg pilla því maðurinn sem söng svo skemmtilega um gráu Cortínuna hætti að vera hommi einn daginn og átti börn og buru!
Ég tek líka ofan fyrir prestinum sem áttar sig á því hvernig bjálfaþjóðfélagið hefur umbreytt dygðum umburðalyndis, víðsýni og kjarks.
Ef þetta snillddarblogg er lesið og reynt að finna einhverja sérstaka skoðun sem skáldið heldur fram... þá finnst hún ekki. Prestur heldur nákvæmlega engu fram. Kann fólk ekki lengur að njóta skemmtilegra skrifa?
Pétur Tyrfingsson, 24.10.2007 kl. 22:15
Ég ætla nú ekki að fara að leggja Svavari orð í munn en ég held hann hafi ekki verið að sækjast eftir hóli með skrifum sínum heldur verið að bjóða upp á umræðu. Það má nú síðan karpa um það hversu gáfuleg umræðan hefur reynst.
Bjarki Þór Baldvinsson (IP-tala skráð) 25.10.2007 kl. 00:15
Pétur: Kannski er ástæðan fyrir því að fólk skrifar athugasemdir við skrif Svavars sú að skrif hans vöktu athygli og fannst þau skemmtileg eða áhugaverð á einhvern hátt. Þegar fólk er með opið fyrir athugasemdir við sínum skrifum, þá snýst þetta um að aðrir geti "kommentað" og rætt um málefni ef þeim er velt upp en ekki setið bara og hugsað, en skemmtileg skrif! Það gerir maður frekar þegar maður les bækur eða greinar í blöðum.
Svavar: Mér finnst gott af þér að vera með vangaveltur um þessi málefni sem snúa að hjónabandinu og málefni samkynhneigðra og gagnkynhneigðra í því sambandi, þar sem þú ert prestur og starfar innan kirkjunnar.
Ég hef ákveðnar skoðanir í þessum málum, og eru þær trúlega tilkomnar vegna þess að ég er alin upp frá blautu barnsbeini með þá hugsun að það eigi aldrei að mismuna fólki á einn eða neinn hátt og ég var alin upp við kristna trú en mikið víðsýni.
Hjónaband er sáttmáli sem margir vilja gera sín á milli og margir þá fá blessun á þann sáttmála í kirkju og því ætti fólki að vera frjálst að gera það, sama hver kynhneigð þeirra er.
Að flokka fólk á einhvern hátt út frá kynhneigð er bara hallærislegt og sagan ætti að vera búin að segja okkur það að samkynhneigðir eru komnir til að vera og þegar að við dustum af þeim "syndahugmyndinni" sem biblían boðar í löngu úreltum ritningum um þá, verður þetta ekkert mál og það fólk sem er samkynhneigt getur sér frjálst um höfuð strokið.
Ég tel ástæðuna fyrir því að samkynhneigðir njóti ekki til fullnustu algjörlega sama réttar og gagnkynhneigðir þegar kemur að hjónabandinu vera þá að enn líta margir þannig á að kynhneigð þeirra sé synd. Að halda því fram að þetta snúist um að hjónabandið hafi verið skilgreint sem sáttmáli á milli konu og manns er bara fyrirsláttur, sem örugglega margir vilja ekki kannast við, en gera það svo sannarlega, þegar þeir horfast í augu við það hvað í raun liggur á bak við þessa "skoðun" þeirra.
Mér finnst að kirkjan sem er ekki á alltof burðugum fótum þessa dagana, ætti að fagna því að fólk sem hefur verið útskúfað í gegnum aldirnar, hundelt og jafnvel drepið fyrir það eitt að vera samkynhneigt, skuli enn sýna henni þetta traust og enn hafa trú í hjarta sínu, og vilji yfirhöfuð fá blessun yfir sitt "hjónaband" þrátt fyrir allt sem þeim hefur verið gert í nafni Guðs Almáttugs.
Margrét St Hafsteinsdóttir, 25.10.2007 kl. 14:00
Mér þykir síðasta málsgreinin í kommenti Margrétar athyglisverð, því hún bendir þar réttilega á ástæðuna fyrir því að kirkjan hleypur ekki til og samþykkir umyrðalaust kröfu gagnkynhneigða minnihlutans, það er að segja hina aldagömlu hefð. Kirkjunnar fólk hefur bent á að ef þetta verður (einhvern tíma) samþykkt þá er íslenska mótmælendakirkjan fyrsta kirkjan í heiminum sem fellst á að hjónaband gagnkynhneigðra og samkynhneigðra sé jafngilt, hvorki meira né minna. Nútímagildismat hefur sigur yfir hefð aldanna.
Greta Björg Úlfsdóttir, 26.10.2007 kl. 08:16
Margrét: Vel má vera að hallærislegt sé að flokka fólk á einhvern hátt út frá kynhneigð, en það er nú samt gert. Fólk skiptist t. d. í gagnkynhneigða og samkynhneigða. Þeir síðarnefndu hafa með sér ákveðinn félagsskap sem hefur verið til stórkostlegs gagns fyrir þá og aðra.
Ég skil hvað þú ert að meina með því að blanda syndinni í málið. Það er rétt hjá þér að margir kristnir menn litu þannig á að Biblían fordæmi samkynhneigð. Margir telja að svo sé enn. Heilu trúfélögin. En ekki íslenska Þjóðkirkjan. Á Prestastefnu á Húsavík fyrr á árinu voru með yfirgnæfandi meirihluta atkvæða samþykkt drög kenningarnefndar Þjóðkirkjunnar þar sem segir um þá ritningarstaði að þeir fordæmi ekki "...samkynhneigð sem slíka og heldur ekki þá einstaklinga sem lifa í kærleiksríkri sambúð ástar og trúfesti."
Hjónabandið er samt ennþá skilgreint gagnkynhneigt sambúðarform, ekki einungis af kirkjum heldur ennfremur veraldlegum yfirvöldum langflestra ríkja heimsins - líka þar sem engin formleg tengsl eru á milli trúar og ríkis. Ég efa ekki að mikil umræða eigi eftir að vera um eðli hjónabandsins hér á landi sem annars staðar en það er held ég ekki alveg sannleikanum samkvæmt þegar gefið er í skyn að íslenska þjóðkirkjan sé eina fyrirbærið í veröldinni sem enn líti á hjónabandið sem sáttmála karls og konu.
Svavar Alfreð Jónsson, 26.10.2007 kl. 08:46
Hef ég misskilið eitthvað? Ég hélt að barátta samkynhneigðra snerist um að fá staðfestingu, annaðhvort borgaralega eða með guðsblessun, yfir sambúðina en ekki að baráttan snerist um málnotkun: að kallast „hjón“. Rétturinn til borgaralegrar staðfestingar og guðsblessunar er kominn í höfn, því betur, má ég segja, að vísu með þeim takmörkunum, skilst mér, að prestum sé ekki skylt að gefa saman (þýðir það ekki að „blessa“?) fólk af sama kyni ef það stríðir á móti sannfæringu þeirra. Á það lít ég sem sjálfsögð mannréttindi þeim til handa. Í slíkum tilvikum hljóta samkynhneigðir að hafa sama rétt og gagnkynhneigðir: að geta leitað til annars prests um þjónustuna og þá er það mál líka í höfn.
Þökk sé þeim sem voru í fremstu víglínu fyrir réttindum samkynhneigðra hafa fordómar gagnvart þeim minnkað, fordómar sem eiga sér rætur í menningu okkar. Þeir koma fram í Íslendingasögunum, til dæmis Gísla sögu Súrssonar. Þar kemur reyndar við sögu annar hópur fordæmdra, andlega vangefnir, en það er önnur saga.
Það þarf býsna mikla vankunnáttu í líffræði til þess að halda því fram að karl og kona séu eins og af því leiðir meðal annars að sambúð tveggja einstaklinga af sama kyni getur aldrei leitt til þess að nýr einstaklingur verði til. Þess vegna er að mínu viti ekkert sem mælir gegn því að notað sé annað orð um sambúð gagnkynhneigðra en samkynhneigðra. Ég fæ með engu móti séð að sambúð samkynhneigðra sé lítilsvirt og ekki talin jöfn sambúð karls og konu með því að nota um hana annað orð. Meira að segja gæti það verið málfarsleg krafa um nákvæmni að nota ekki sama orðið um þrennt ólíkt þó svo að í ensku sé allt þrennt kallað "marriage". Enskir kalla það allt "tail" og Danir „hale“ á lífverum sem við aðgreinum með orðum eins og hali, dindill, rófa, skott og sporður. Ættum við kannski að endurskilgreina og víkka merkingu orðsins „hali“ til að vera eins? Fuglinn dillaði halanum? Fiskurinn sló til halanum? Kötturinn sperrti upp halann?
Hundurinn dillaði halanum?
Í nútímaíslensku er orðabókarskilgreining orðsins hjón „karl og kona gift hvort öðru“, „húsbændur á heimili“ en eldri merkingin „vinnuhjú“ gefin líka. Ein leið væri að víkka merkingu orðsins, sem er merkingarfræðilega vel þekkt í málinu. Þá þarf kirkjan að endurskilgreina, ekki satt?
Verði leið endurskilgreiningarinnar farin þá mætti til að mynda kalla borgaralega eða prests-/guðsblessaða sambúð samkynhneigðra „hjónaband“ og sambýlingana „hjón“ en taka upp orðið „hjú“ um gagnkynhneigða sambýlinga í samsvarandi sambúð sem þá væri „hjúskapur“.
Í ljósi þess sem hér að ofan er sagt þá finnst mér málfræðileg og kirkjuleg endurskilgreining orðsins „hjón“ einungis breyting breytinganna vegna en ekki að hún sé staðfesting á einhverju misskildu jafnrétti.
Þórir Jónsson, 30.10.2007 kl. 01:48
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.