24.10.2007 | 22:40
Einkavæðing Drottins allsherjar
Rabbí Jakob Emden var eitt sinn spurður að því hvers vegna nýárshátíð Gyðinga stæði í tvo daga. Hann svaraði:
"Jú, fyrri daginn leitum við til Guðs og biðjum hann að láta allar okkar óskir rætast.
Þann seinni biðjum við hann að láta óskir óvina okkar ekki rætast."
Það sem einn þráir er annars kvíði. Draumurinn minn getur verið martröðin þín.
Nú láta menn ekki nægja að einkavæða alla skapaða hluti heldur snúa sér að því óskapaða. Guð sjálfur er í miðju einkavæðingarferli. Trúin á hann er algjört einkamál. Hver hefur sinn guð og smíðar sér trú að smekk.
Skipulögð trúarbrögð eiga undir högg að sækja. Trúin tilheyrir einkageiranum. Fólk þarf ekki á öðrum að halda í þeim efnum. Enda er annað fólk yfirleitt til vandræða.
Trúin er mitt mál og kemur öðrum í raun ekki við. Mín einkatrú er trú í mína þágu, mér til gagns og yndisauka og hagræðis. Mitt valíum og víagra.
Athugasemdir
Hvað verður þá um: "hvar sem tveir eða þrír eru saman komnir í mínu nafni..."???
Greta Björg Úlfsdóttir, 25.10.2007 kl. 04:32
"Ó, þá náð að eiga Jesúm, einkavin í hverri þraut". Það er ekki bara fyrir löngu búið að einavæða trúna heldur líka einkavinavæða hana.
Sigurður Þór Guðjónsson, 25.10.2007 kl. 10:15
Manneskjan er félagsvera og mun alltaf sækjast í samfélag við aðra. Skynditrú frá neskaffi mun ekki virka til lengdar.
krossgata, 25.10.2007 kl. 12:17
„Trúin á hann er algjört einkamál. Hver hefur sinn guð og smíðar sér trú að smekk.“
Áttu við að það fólk sem játar kristna trú og jafnvel mæti í messu til þín trúi á eitthvað allt annað en það sem kirkjan fjallar um?
Snorri Stefánsson (IP-tala skráð) 25.10.2007 kl. 12:21
Þakka fyrir áhugaverð skrif þín Svavar, nú sem áður. Ég skil vel að þú dæsir út af þessari þróun. Heimurinn opnast meir og meir og upplýsingar liggja á lausu um allt milli himins og jarðar, en við verðum einangraðri samt sem áður og teljum tilfinningar og hugsanir eingöngu vera einkamál. Smíðum svo okkar einkasannleik úr einhverjum lufsum. Svona er þetta nú oft. Þó ekki sé það gæfulegt. En trúin er auðvitað eins og hugsunin bæði einkamál og sameiginlegt mál okkar allra, ef svo má segja. Kristnir menn hljóta að leggja áherslu á eininguna, samtalið - að við erum limir á einum og sama líkama. Eins mætti segja að sé maðurinn tengdur Guði, er hann einnig tengdur öllum heiminum.
Guðmundur Pálsson, 25.10.2007 kl. 13:38
Mikið óskaplega yrði ég ánægður ef trúað fólk myndi yfir höfuð líta á trúna sem sitt einkamál.
Aftur á móti hefur Þjóðkirkjan evangelíska þá stefnu að breiða út trú sem stangast einmitt á við þá hugmynd.
Meðan þú ert á launum hjá mér og starfar við að boða þína trú er hún alls ekki einkamál.
Matthías Ásgeirsson, 26.10.2007 kl. 00:09
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.