28.10.2007 | 22:27
Dæmalaus leiðindi
Í barnaskólanum í gamla daga fengum við dæmahefti. Þau voru full af reikningsdæmum sem við áttum að spreyta okkur á. Aldrei var ég öflugur í stærðfræðinni og alls ekki öruggt að niðurstöður mínar væru sannar og réttar.
Til hliðar við dæmaheftin höfðum við svokölluð lausnahefti sem eins og nafnið gefur til kynna höfðu að geyma réttar lausnir á dæmunum í hinum heftunum.
Þegar talað er um sannleikann minnist ég oft þessara lausnahefta. Þau voru sannleikurinn. Þar var ekkert nema endalaus, borðleggjandi og gegnheill sannleikur.
Frekar voru þessi lausnahefti þurr aflestrar og sumir kennaranna vildu helst ekki að við börnin fengjum þau afhent. Þeir sögðu að útkoman skipti ekki meginmáli. Aðalatriðið væri að við reyndum að reikna dæmin og lærðum réttar aðferðir.
Þessir kennarar áttu til að gefa manni rétt fyrir dæmi þótt maður fengi vitlaust út úr þeim - ef þeir sáu að rétt var reiknað.
Sennilega er það líka þannig með sannleikann. Fleira en svörin og lausnirnar hefur gildi. Ekki er síður mikilvægt að spreyta sig á sannleikanum og glíma við hann en að komast að endanlegri niðurstöðu. Kunna réttu aðferðirnar, þekkja leiðirnar, vita spurningarnar.
Og eru það ekki miklu fremur dæmaheftin en lausnaheftin sem gera tilveruna spennandi verkefni og lífið þess virði að lifa því?
Athugasemdir
Samt hefur nú reynst mér býsna vel "hið fullkomna svar" sem sr. Árelíus Níelsson lét okkur fermingarbörnin læra við spurningunni: Hver er vilji Guðs? Rétt svar: Vilji Guðs er hið góða, fagra og fullkomna.
Seinna hef ég komist að raun um að þetta svar mun vera ættað frá hinum heilaga kirkjuföður Ágústínusi; eða er það ekki rétt hjá mér?
Greta Björg Úlfsdóttir, 29.10.2007 kl. 07:46
Hver man ekki eftir reikningsbók Elíasar Bjarnasonar?
Ingibergur Sigurdsson (IP-tala skráð) 29.10.2007 kl. 11:06
Það er svipað með margt sem maður tekur sér fyrir hendur, leiðin að markmiðinu er oft skemmtilegri og meira gefandi en lok verkefnisins.
krossgata, 29.10.2007 kl. 13:07
Þetta er upplýsandi pistill.
Ef ég ætti að taka saman þá pistla sem þú skrifar í þessum óljósa stíl virðist mér þú þjást af einhverri óbeit á því sem satt er ef það flækist fyrir trúarhugmyndum þínum. Þannig mætti auðveldlega skilja þig svo að þú viljir frekar þvælast um með ranghugmyndir í hausnum heldur en að fræðast um heiminn.
Dálítið sorglegt en eins og ég sagði, upplýsandi.
Matthías Ásgeirsson, 29.10.2007 kl. 15:57
Hmm, blessaður presturinn hefur nú einu sinni lífsviðurværi af að hæpa gamlar lygasögur og ævintýri um ósýnilegan en afar grimman og hefnigjarnan kall uppi í himninum, talandi snák og náunga sem bæði átti að hafa verið einkasonur téðs ósýnilegs kalls og sonur jarðnesks föður síns (kominn frá þjóðsagnapersónunni Davíð konungi í gegnum jarðneskan pabba sinn). Þannig að þetta er mjög vandræðaleg staða og milljarðar í húfi fyrir prestinn og kollega hans.
Baldur Fjölnisson, 29.10.2007 kl. 19:51
Tveir beiskir að kommentera á prestinn. Hvaða dapra lífsreynsla skyldi valda þessu áliti þeirra á prestum?
Greta Björg Úlfsdóttir, 30.10.2007 kl. 00:15
ja hérna voðalegt er að lesa þetta, Baldur og Matthías.
alva (IP-tala skráð) 30.10.2007 kl. 10:22
Já, það er óskaplegt að vera svona beiskur.
Matthías Ásgeirsson, 30.10.2007 kl. 13:45
Menn mega trúa á hundinn sinn mín vegna og mig varðar ekkert um það og þeir mega trúa á talandi snáka og einhverjar óskýranlegar verur, allt í góðu með það, EN klúbbastarfsemi utan um slíkt á ekki að vera á framfæri skattgreiðenda og raunar er ótækt að stjórnmálamenn séu tengdir slíku.
Baldur Fjölnisson, 30.10.2007 kl. 15:32
Og P.S. þetta ad-hominem nagg, til að koma sér hjá því að festa fingur á argúmentum viðmælandans, dugar ekki. Flestir sjá í gegnum slíkt.
Baldur Fjölnisson, 30.10.2007 kl. 15:40
Mér finnst nú alveg duga að koma með komment ad hominem á persónu sem skýlir sér á bak við Bush kallinn! Bara mín skoðun...
Greta Björg Úlfsdóttir, 30.10.2007 kl. 16:33
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.