10.11.2007 | 22:50
Aðkomumannahátíð á Akureyri
Nýlega las ég einhvers staðar að á nýju ári yrði efnt til borgarafundar á Akureyri um hátíðahöld í bænum um verslunarmannahelgar. Það finnst mér gott framtak.
Þau sem lásu þessa síðu fyrir og eftir síðustu verslunarmannahelgi þekkja þá skoðun mína að Akureyri hafi nú upp á ýmislegt fleira að bjóða en tjaldsvæði fyrir drukkna unglinga og dílera og húsgarða til að gera í þarfir sínar.
Akureyringar eru stoltir af bænum sínum og kæmi mér ekki á óvart þótt ofangreint sé það síðasta sem þeir vildu hrósa sér af.
Svo vænt þykir Akureyringum um bæinn sinn að þeir geta ekki hugsað sér að vinna á honum spjöll. Þess vegna eru öll skemmdarverk í bænum nánast undantekningarlaust unnin af aðkomufólki.
Þar er komin eðlileg skýring á því að aðkomufólk á Akureyri er oftar fréttaefni en hinir friðsælu og sómakæru bæjarbúar.
Hin undarlega skemmdarfýsn sem grípur gesti bæjarins stafar auðvitað ekki af neinu öðru en öfund. Aðkomumenn sjá að bærinn er miklu fallegri og flottari en heimabyggðin og una því ekki. Hafi þeir áfengi um hönd - en slíkt er ekki óalgengt - verður öfundin dómgreindinni yfirsterkari og skemmdarfýsnin hömlulaus.
Er nema von að misjafnt orð fari af aðkomufólki í þessum bæ?
Nú legg ég til að um hverja verslunarmannahelgi verði á Akureyri haldin aðkomumannahátíð með fjölmenningarlegu yfirbragði.
Akureyringar eiga ekki að skammast sín fyrir óvild sína á aðkomumönnum. Þeir eiga þvert á móti að markaðssetja hana, eins og Keli á Amtinu hefur bent á.
Á aðkomumannahátíð væri hægt að sýna gestum bæjarins það fjölmarga sem Akureyri hefur upp á að bjóða og fyllir Akureyringa stolti.
Burtfluttir Akureyringar gætu fengið að fljóta með því þeir eru næstum því aðkomumenn.
Nýinnfluttir líka. Það gæti ef til vill stytt þann alltof langa tíma sem það tekur fyrir þá að verða sannir Akureyringar.
Athugasemdir
Haha, ég held að Akureyringar, með fullri virðingu fyrir þeim, séu fordómafullasta fólk sem ég hef kynnst, gagnvart aðkomufólki, fyrir utan Þingeyinga kannski. En ég fluttist í Aðaldalinn 6 mánaða og flutti þaðan 20 ára, með viðkomu á Húsavík og það er sú furðulegasta lífsreynsla sem ég hef reynt...sérstaklega Húsvíkingarnir...
Takk fyrir þetta innlegg.
Annars held ég og segi að maður eigi ekkert að vera að flytja austar á norðurlandinu en á Blönduós, ef maður er ekki innfæddur. Það er beinlínis hættulegt. Þetta er þolanlegt á Blönduósi en þá aðeins ÞOLANLEGT. Skrítið að líða eins og E- BOLA faraldrinum...Æ, ég vona að þú skiljir þetta bull hjá mér.
Alltaf gaman að koma hérna við á síðunni þinni.
Alva Ævarsdóttir Þingeyingur og Gaflari (allavega næstum því) en alveg pottþétt Íslendingur.
alva (IP-tala skráð) 10.11.2007 kl. 23:50
Ég styð þessa tillögu, sem fyrrverandi bæjarbúi (nokkuð mörg ár síðan).
Hef meira að segja nánari útlistun á því hvernig framkvæma mætti þessa hátíð: Allir í gistingu á Hrafnagili, síðan mætti setja fólkið upp í rútur og aka með það rúnt um bæinn, það er að segja fara með það í kynnisferð, undir eftirliti. Fólk fengi að fara út að viðra sig og skoða valda merkisstaði (er ekki með þá á hraðbergi, enda langt síðan ég bjó fyrir norðan, aðrir gætu talið þá upp). Enda svo í jólahúsinu í bakaleiðinni, til frekari áréttingar á hugarfari því sem fólkinu hefur verið innprentað að það verði að tileinka sér vilji það aftur inn fyrir bæjarmörk.
Auðvitað yrði að byrja tímanlega á því fyrir hátíð að girða bæinn af með bæjarmúr, sem fengi síðan að standa áfram, til að varna ribböldum úr öðrum bæjum og sýslum inngöngu, nema gegn stimplaðri vottun um að hafa tekið þátt í kynningarhátíðinni.
Ég tek fram að ég hef ekkert á móti akureyringum og fannst í góðu lagi að blása hátíðina í fyrra af. Á þarna skyldfólk, tvær systur og þeirra börn og barnabörn. Og mér finnst ótækt að breyta þessum fallega bæ í villidýrabæli um verslunarmannhelgar, vegna gróðasjónarmiða örfárra sölumanna. Áfram Akureyri!
Alva, bernska þín og æska í Aðaldalnum hefur sem sagt verið ein og samfelld fuðuleg lífreynsla, þar sem þú bjóst þarna frá hálfs árs aldri til tvítugs. Ég hef heyrt það áður að þeir séu skrítnir þarna fyrir austan...
Greta Björg Úlfsdóttir, 11.11.2007 kl. 11:51
Fjölþjóðleg aðkomumannahátíð, viðlíka og haldin er á vestfjörðunum er í sannleika sagt góð hugmynd...lílega þyrfti þó að finna henni betra nafn
Greta Björg Úlfsdóttir, 11.11.2007 kl. 11:54
já hihi...stundum var það nú...
alva (IP-tala skráð) 11.11.2007 kl. 12:25
haha AA - aðfluttur andskoti, hef aldrei heyrt þetta áður.
alva (IP-tala skráð) 14.11.2007 kl. 00:50
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.