Horfst í augu við illskuna

RomeoDallairePistillinn minn hérna neðar um að ekki væri alltaf á manneskjuna að treysta fór illa í suma. Einn móðgaður lesandi sagði ótrúlega mannvonsku birtast í þessum skrifum.

Árið 1994 reyndu íbúar Afríkuríkisins Rúanda þetta bókstaflega á eigin skinni. Á  100 dögum voru 800.000 borgarar, menn, konur og börn, brytjaðir niður í þjóðarmorði. 

Veröldin aðhafðist ekkert, hvorki ríki, alþjóðlegar stofnanir né kristin kirkja.

Mannkynið brást.

Í gær sá ég myndina Shake Hands with the Devil. The Journey of Romeo Dallaire. Þetta er margverðlaunuð heimildarmynd frá  árinu 2004.

Romeo Dallaire er kanadískur herhöfðingi og var foringi friðargæslusveita Sameinuðu þjóðanna þegar þjóðarmorðið var framið. Hann þurfti að horfa upp á það án þess að geta aðhafst nokkuð. Hvergi fékk hann stuðning þótt hann grátbæði um hann. Öllum var skítsama.

Dallaire var lengi að ná sér eftir þessa atburði og í myndinni sést hann heimsækja Rúanda aftur áratug eftir hin hryllilegu morð.

Myndin er nefnd eftir bók sem Dallaire skrifaði um upplifanir sínar. Heiti hennar segir hann dregið af því að einu sinni heilsaði hann einum forsprakka morðingjasveitanna með handabandi. Höndin sem hann fann var náköld og augu mannsins full af ólýsanlegri illsku. Dallaire fannst þetta vera djöfullinn sjálfur.

Ég mæli með þessari mynd.

Ekki síst fannst mér athyglisvert að í raun hafa fáir viðurkennt þau afdrifaríku mistök sem gerð voru í Rúanda. Leiðtogar heimsins virðast ekki tilbúnir að horfast í augu við eigin illsku og afglöp. Þess vegna gæti svona lagað hæglega gerst aftur.

Það er kaldhæðnislegt að í myndinni segist Romeo Dallaire hafa gert mistök, einn af fáum sem það viðurkenna. 

Jafnframt er hann einn sárafárra sem bjargaði einhverjum mannslífum í hildarleiknum árið 1994.

Við hin horfðum á tennis eða gæddum okkur á spældum eggjum.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Greta Björg Úlfsdóttir

Svavar, fæ ég þessa mynd á myndbandaleigum, eða hvar?

Greta Björg Úlfsdóttir, 28.11.2007 kl. 15:58

2 Smámynd: Svavar Alfreð Jónsson

Já, ég fékk hana á leigu hérna í bænum.

Svavar Alfreð Jónsson, 28.11.2007 kl. 16:23

3 identicon

"Hvað finnst þér um þessi dráp, pabbi? Finnst ér þau ekki til fyrirmyndar - einmitt það sem Hútúar ættu að gera? Ég meina, okkur var kennt í skólanum að fyrir mörg hundruð árum hafi Tútsar gert okkur það sama svo að þeir eiga þetta skilið, ekki satt?"

"Sembeba, þú veist ekki hvað þú ert að tala um. Láttu mig nú í friði. Ég þarf að sofa," svaraði presturinn.

"Þessir Tútsar hafa alltaf látið eins og þeir væru okkur æðri ... alltaf litið niður á okkur Hútúa. Heldurðu að þeir væru ekki að drepa okkur núna ef þeir væru við völd? Það er því bara sjálfsvörn að drepa þá, eða hvað?"

Þarna er prestur, sem skaut skjólshúsi yfir 8 konur af Tútsa-ættum, að ræða við son sinn þegar þjóðarmorðið var hafið af fullum þunga. Sonurinn vissi ekki af því að inn af svefnherbergi föður hans kúldraðist óvinurinn í 3 mánuði inni á lítilli baðherbergiskytru. Sonurinn er Hútúi eins og presturinn þó að móðir hans hafi verið Tútsi.  

Samtalið heldur áfram:

"Þú ert heimskur drengur, Sembeba. Það er engin afsökun fyrir því að úthella blóði að ástæðulausu. Farðu nú út úr herberginu mínu. Ég þoli ekki að hlusta á bullið í þér."

Þetta samtal er úr bókinni Ein til frásagnar sem skrifuð er eftir frásögn Immaculée Ilibagiza sem lifði þjóðarmorðið af.

Þessi stutti úrdráttur finnst mér gefa mun betri mynd af ástandinu í Rúanda í kringum þjóðarmorðið heldur en þín einfaldaða mynd af djöfli í mannsmynd. Þeir sem leituðu kvennanna þessa mánuði sem þær dvöldu þarna voru fyrrum nágrannar, vinir, kunningjar og jafnvel frændur þeirra. Venjulegt fólk sem var algerlega laust við allan djöfulskap áður en múgæsingurinn fór úr böndunum.

Það sem gerði þetta venjulega fólk viðkvæmt fyrir þessari múgstjórnun og geðveiki sem stigmagnaðist upp í drápsæði var hins vegar stíf innræting sem það hafði lifað við alla sína ævi um stigsmuninn á Hútúum og Tútsum. Upplifun Immaculée af þessu öllu verður þó mjög sérstök þar sem henni var hlíft við þessari innrætingu frá foreldrum sínum.

Þjóðin öll hafði hins vegar búið við ótta og óöryggi í hundruði ára þar sem alið var í sífellu á hatri, óöryggi og ótta á milli þjóðarbrotanna með því að hamra á því að einstaklingarnir væru mis réttháir eftir því hvaða blóð rann í æðum þeirra og vegna gamalla átaka og illinda.

Sagan hefur sýnt okkur að þar sem er alið á óöryggi og ótta, og manngildið er flokkað eftir fáranlegum duttlungum og helberri heimsku, þá býr það í haginn fyrir múgsefjun sem getur stigmagnast jafn hryllilega og raunin varð þarna.

Við eigum að horfast í augu við þetta, reyna að átta okkur á orsökunum og læra af þessu. Við lærum ekkert af því að djöfulgera andstæðinginn og fría okkur þannig frá því að reyna að skilja hvað er á bakvið það þegar fólk tekur þátt í svona geðveiki og mannvonsku.

Þú nefnir það í lok færslu þinnar að við hin vorum að spila tennis eða að gæða okkur á spældum eggjum. Þessi hin sem þú ert að tala um er meginþorri mannkynsins sem hafði annað hvort ekki hugmynd um þann hrylling sem var í gangi í Rúanda eða ekki í aðstöðu til þess að gera nokkuð. Sá hluti mannkyns, því að hann er klárlega yfirgnæfandi meirihluti, ætti að vera sá vitnisburður sem við horfum til og berum okkur saman við.

Ég ætla þó ekki að gera lítið úr því að það var mikið af áhrifafólki sem manni skilst að hafi vitað af ástandinu en samt haldið að sér höndum. Það er hins vegar vitað innan sálfræðinnar að einstaklingar sem búa að góðu sjálfstrausti og hafa lært að treysta eigin dómgreind eru líklegastir til þess að sýna frumkvæði og taka af skarið í erfiðum málum. Þeir sem þurfa alltaf að leita eftir utanaðkomandi leiðbeiningum fá svo margar og misvísandi leiðbeiningar að þeim fallast oft hendur því þeim skortir innsæi til að vita hverju sé treystandi.

Nema þeir fái þeim mun sterkari leiðtoga, og það er ekkert sem tryggir það að sterkir leiðtogar séu góðir leiðtogar.

Kristín Kristjánsdóttir (IP-tala skráð) 28.11.2007 kl. 19:23

4 identicon

Ég sá þessa mynd fyrr á þessu ári, þegar hún var sýnd á RÚV. Þá var ég nýkomin heim frá fjarlægri eyju, þar sem ég þurfti að horfast beint í augu við illsku mannsins í meira návígi en kannski var mér hollt. Sjálfsagt hef ég tekið í hendur margra sem höfðu mannslíf á samviskunni. Mér varð svo mikið um þegar ég horfði á þessa mynd að ég var með gæsahús bókstaflega allan tímann. Kannaðist við svo margt - sektarkenndina og vanmáttinn sem Romeo Dallaire lýsir svo vel.

Hafi ég efast um breiskleika mannsins áður en ég var sjálf á átakasvæði, þá efast ég ekki lengur. En sem betur fer kemur manneskjan líka stundum á óvart í "hina áttina" og sýnir hetjudáðir og manngæsku jafnvel þó hún sé stödd í miðri hringiðu illskunnar...

Auður H Ingólfsdóttir (IP-tala skráð) 28.11.2007 kl. 19:34

5 Smámynd: Svavar Alfreð Jónsson

Ég þakka Kristínu fyrir langa færslu. Hvet hana til að sjá myndina. Innrætingin sem hún talar um kemur svo sannarlega þar við sögu. 

Kristínu vill klína á mig einhverjum "einfölduðum myndum". Ég bendi henni á að ég nefndi hvorki umrædda mynd né bók því nafni sem hún heitir. Djöfullinn í mannsmynd er upplifun foringja friðargæsluliðsins.

Ef trúarlegt tungutak pirrar hana verður hún í þessu tilfelli að eiga það við aðra en mig.

Sömuleiðis þakka ég Auði hennar athugasemd. Dýrmætt að fá að heyra frá konu sem starfar á átakasvæðum og þörf ábendingin um mannlega reisn og gæsku í hringiðu illskunnar.

Svavar Alfreð Jónsson, 28.11.2007 kl. 20:07

6 Smámynd: Hjalti Rúnar Ómarsson

Já, fjöldamorðin í Rúanda voru afar hræðileg. Þarna var fólkinu skipt í tvo hópa og síðan var litið svo á að meðlimir hins hópsins ættu skilið að deyja.

Afskaplega sorglegt. Minnir mig samt á ónefnda heimsmynd, en í henni á ónefndur einræðisherra eftir að skipta heiminum í tvo hópa og láta annan hópinn kveljast að eilífu. Ég er viss um að enginn af þessum "djöflum í mannsmynd" hafi verið það sjúkir að óska öðrum eílífum kvölum. En sumt fólk telur að það sé merki um algæsku að senda fólk í eilífar kvalir. Svavar er meira að segja líklega í þeim hópi.

Hjalti Rúnar Ómarsson, 28.11.2007 kl. 21:21

7 Smámynd: Svavar Alfreð Jónsson

Æi, Hjalti, hættu nú þessu helvítistuði þínu. Þú sérð það sjálfur að þetta kemur pistlinum mínum ekkert við.

Svavar Alfreð Jónsson, 28.11.2007 kl. 21:40

8 identicon

Hjalti Rúnar. Það truflar mig ekki nokkurn skapaðan hlut að þú sért yfirlýstur trúleysingi og ég hef engan áhuga að rökræða þau mál við þig enda mannréttindi hvers einstaklings að trúa (eða trúa ekki) því sem hann vill. Mér finnst hinsvegar furðulegt að sjá þig vísa í einn hræðilegasta glæp mannkyns á síðustu áratugum, sem þjóðarhreinsanirnar í í Rúanda voru, bera þær saman við hvernig þú upplifir heimsmynd þeirra sem eru kristinnar trúar, klína síðan þeirri heimsmynd á síðuritara og kveða svo upp þann dóm að þeir sem þú telur að tilheyri þeim hópi séu verri og sjúkari en þeir einstaklingar sem gengu um og myrtu hundruðir þúsunda...

Það segir mér að skilningur þinn og innsýn í þá atburði sem áttu sér stað í Rúanda risti afar grunnt, þó þú hafir kannski eitthvað lesið þér til um staðreyndir.

Mikið væri gaman ef fólk gæti talað saman af svolítið meiri virðingu fyrir hvort öðru en þú sýnir í þinni athugasemd, þó annað fólk hafi aðra lífssýn en þú.

Fyrirgefðu Svavar að ég ryðst svona inn á síðunni þína að svara athugasemdum hér. Veit að þú ert fullfær um að svara sjálfur - en það truflar mig þegar ekki er hægt að fjalla um jafn alvarlega atburði og hér eru til umræðu, án þess að einhver sjái sér hag í að snúa þeirri umræðu upp í eitthvað einka uppáhaldsumræðuefni, sem í þessu tilviki virðist snúast um að sýna fram á hvað allir þeir sem trúi á eitthvert afl æðra manninum séu nú vitlausir.  

Auður H Ingólfsdóttir (IP-tala skráð) 28.11.2007 kl. 22:01

9 Smámynd: AK-72

Kannski smá ábending fyrir fróðleiksfúsa um R'uanda. Romain gaf fyrst út samnefnda bók um þetta sem ætti e.t.v. að vera fáanleg í Máli og Menningu eða Eymundsson, sem er talsvert ítarlegri en heimildarmyndin.

Einnig sá ég fyrir ekki svo löngu síðan að til voru tvær viðtalsbækur við annarsvegar fórnarlömb þjóðarmorðanna í Rúanda og svo hinsvegar gernedurnar. Því miður man ég ekki heitin en hefði allavega sjálfur aðallega áhuga á að lesa viðtalsbókina við gerendur til aðr eyna að skilja hvers vegna menn fremja svona óhæfurverk.

AK-72, 28.11.2007 kl. 22:35

10 identicon

Sú sem segir frá í bókinni sem ég las hafði ekki hugmynd um það að hún aðgreindist frá vinum sínum sem "Tútsi" fyrr en hún kom í skóla. Foreldrarnir höfðu passað sig á því að kenna henni og systkinum hennar ekki að flokka fólk eftir svona fávitalegum stöðlum.

Þetta varð henni því þónokkuð áfall þegar hún byrjaði í skólanum og kennarinn rak hana út úr skólanum með skömm fyrir að gera sér ekki grein fyrir því hver staða hennar væri. En hún bjó þó áfram að sterkum skilaboðum frá foreldrum sínum um það að það væri rangt að flokka fólk með þessum hætti.

Það gerir frásögn hennar mjög sterka því hún var að vissu leyti eins og hlutlaus áhorfandi í þessu því að innrætingin hafði aldrei náð að festa neinar rætur hjá henni, þrátt fyrir að vera þolandi, mitt í þessu gífurlega ofbeldi. Hún er því frjáls einmitt til þess að velta frekar fyrir sér af hverju þetta spratt allt og sjá áfram manneskjuna í morðingjunum því það var engin innræting til þess að blinda hana þar. Það var ekkert í hennar huga sem leyfði henni að afgreiða þetta með því að Hútúar væru einfaldlega verra fólk heldur en hún.

Hún sá að það var innrætingin og hugmyndirnar sem voru vandamálið, ekki fólkið sjálft.

Kristín Kristjánsdóttir (IP-tala skráð) 28.11.2007 kl. 23:03

11 Smámynd: Matthías Ásgeirsson

Ef "mannkynið brást", hvað er þá hægt að segja um algóðan, alvitran og almáttugan gvuðinn þinn?  Brást hann ekki?

Nei, þú missir trúna á mannkynið sem þó hefur sannarlega gert margt gott en heldur í trúna á gvuðinn þinn sem aldrei hefur gert neitt af viti.

Skemmtilegt.

Matthías Ásgeirsson, 28.11.2007 kl. 23:07

12 Smámynd: Svavar Alfreð Jónsson

Trú mín á mannkyninu er alla vega ekki blind. Og þolinmæði mín ekki endalaus.

Svavar Alfreð Jónsson, 28.11.2007 kl. 23:31

13 identicon

Hvað með blindu þína á trúarbrögð þín?

Ég sé heilmikil líkindi með aðdragandanum að fjöldamorðunum í Rúanda og hinni kristnu heimsmynd. Ástæðulaust niðurbrot og tilraun til kúgunar kemur fram í hvoru tveggja. Í báðum tilfellum er fólki skipt í tvo hópa og annar hópurinn telur einstaklingana í hinum hópnum vera sér síðri eða í slagtogi við einhver myrkraröfl. Í öðru tilvikinu finnst þér það vera merki um illsku, en í hinu algæsku.

Kristín Kristjánsdóttir (IP-tala skráð) 28.11.2007 kl. 23:38

14 Smámynd: Baldur Fjölnisson

Það er engin olía þarna og því enginn áhugi að taka á málinu annars hefðu trúarfasistar í BNA og Bretlandi í eigu hagsmunaaðila séð um fjöldamorðin og væru vafalaust enn að.

Baldur Fjölnisson, 28.11.2007 kl. 23:49

15 Smámynd: Greta Björg Úlfsdóttir

Þó ég sé nú yfirleitt ekki sammála honum Baldri þá er ég það núna. En þá vil ég líka taka það skýrt fram að ég tel mig og það fólk sem er á sömu línu ég í trúmálum eiga fátt, ef yfirleitt nokkuð, sameiginlegt með því fólki sem ég kalla trúarfasista og rekur til dæmis "Hellhouses" sem sýnishorn af því hvaða refsingar muni bíða þeirra sem þeir líta á sem erkisyndara skv. sinni túlkun á Biblíunni. - Fyrirgefið ef ég er hér komin út fyrir upphaflega umfjöllunarefnið.

Greta Björg Úlfsdóttir, 29.11.2007 kl. 00:09

16 Smámynd: Greta Björg Úlfsdóttir

Ég bendi á að þeir sem hér skrifa og hafa brennandi áhuga á að leggja eitthvað af mörkum til að bæta heiminn mættu alveg kíkja við hérna: Komið með...

Greta Björg Úlfsdóttir, 29.11.2007 kl. 00:16

17 Smámynd: Svavar Alfreð Jónsson

Kristín: Ég upplifi mína trú hvorki sem niðurbrot né kúgun heldur uppbyggilega og frelsandi.

Annars er efni pistilsins þjóðarmorðin í Rúanda og illskan sem þar var látin viðgangast. Vilji fólk velta mér upp úr tjöru og fiðri vegna trúar minnar munu ábyggilega gefast til þess hentugri tækifæri.

Ég tek undir það sem þú segir um innrætinguna í fyrri athugasemd. Óhollar kenningar eru hættulegar. 

Samt geta fyllibytturnar ekki bara skellt skuldinni á brennivínið - eða hvað?

Góður punktur frá Baldri. Það sem hann segir um auðlindirnar kemur líka fram í myndinni sem ég skrifaði um í pistlinum.

Hvert mannslíf í veröldinni virðist vera mörgum sinnum minna virði en ein olíutunna. Eða jafnvel olíubrúsi.

Svavar Alfreð Jónsson, 29.11.2007 kl. 00:33

18 identicon

Þetta eru áhugaverðar umræður.   Reyndar er það svolítið kaldhæðið að í hvert sinn sem Svavar skrifar hugleiðingu koma alltaf einhverjir (þ.m.t ég...) og setjum all sem hann skrifar í trúarlegt samhengi.  -Satt best að segja pínulítið ósanngjarnt.

En what the hell.. Svona er helvítis bloggið..

Fjöldamorðin í Rúanda koma svo í kjölfarið á misheppnaðri herför Bandaríkjanna til Sómalíu þar sem þeir brendu sig illilega á að reyna að stilla til friðar milli stríðandi fylkinga.  Það hefur örugglega spilað inn í hve treg vesturveldin voru að koma til hjálpar.  

Sú sem Kristín segir frá og var rekin út í horn vegna þess að hún var Tútsi á sér pínulitla hliðstæðu hér á Íslandi.  Leikskólabörn hvers foreldrar vilja ekki "nýta sér þjónustu" leikskólaprests, eru látin vera ein eftir meðan hin börnin fara í messu eða þvíumlíkt.  Ég hef heyrt átakanlega sögu af trúlausu foreldri sem náði í barnið sitt eitt að leika sér á einhverju vissum vikudögum (þegar hinir krakkarnir voru í einhverskonar trúar-stússi) - Viss útskúfun fólgin í því að hafna "þjónustu" stærsta trúfélagsins.....

-bara pæling .....

Teitur Atlason (IP-tala skráð) 29.11.2007 kl. 01:55

19 Smámynd: Greta Björg Úlfsdóttir

Hvað viltu gera í því Teitur - neita hinum börnunum um þá sömu þjónustu, af tilliti við trúleysingjabörnin - á hvern er þá verið að halla?

Ég er viss um að ef í boði væri fræðsla í heimspeki eða einhverju því um líku (sem þyrfti að fara úr húsi til að sækja), sem foreldrar barna Votta Jehova myndu til dæmis ekki vilja að þau sæktu, þá fyndist þér súrt í broti að slík kennsla væri felld niður þeirra vegna. Sérstaklega ef það væru aðeins örfá börn sem í hlut ættu, en meiri hluti foreldra samþykktu slíka kennslu.

Greta Björg Úlfsdóttir, 29.11.2007 kl. 04:14

20 identicon

Ljótt að heyra þetta "trúleysingjabörnin", það er allt á móti því að trú sé borin á borð fyrir börn í skólum landsins, margar barnssálir munu líða fyrir slíkt og ég mun aldrei samþykkja slíkan viðbjóð, að bera saman heimspeki & trú er bara fáránlegt, móðgun við menntun barasta og ég stend á því og skrifa að allir þeir sem telja í lagi að vera með hallelújasamkomur í skólum eru siðlausir með öllu, bera alls ekki hag barna eða bara mannréttindi fyrir brjósti.
Þjóðarmorðin... eru skömm fyrir allt mannkynið, kannski vert að spá í einu, að 2 öflugustu menn í heimi, Mr Bush & Mr Blair eru báðir ofurkristnir .. spáið í því, en þeir hreifa sig ekki nema þeir hafi hagsmuni mikla af því.

DoctorE (IP-tala skráð) 29.11.2007 kl. 08:13

21 Smámynd: Svavar Alfreð Jónsson

Það er vandlifað í veröldinni og ekki ætla ég að gera lítið úr því að erfitt getur verið að tilheyra minnihlutahópum. Ég veit að í skólum landsins gera menn sitt besta til að misbjóða engum, hvorki foreldrum né börnum, og þiggja með þökkum allar góðar ábendingar og ráð.

Nú er aðventan að koma og þá heimsækja að venju margir skólahópar mína kirkju. Að sjálfsögðu á að gera allt sem mögulegt er til að koma til móts við þau börn sem ekki mega stíga inn í kirkju - en að bera það saman við þjóðarmorðin í Rúanda er að mínu mati lítilsvirðing við fórnarlömb morðanna.

Svavar Alfreð Jónsson, 29.11.2007 kl. 08:42

22 identicon

"en að bera það saman við þjóðarmorðin í Rúanda er að mínu mati lítilsvirðing við fórnarlömb morðanna."

-Þetta er rétt hjá þér Svavar.  Þetta var ódýrt skot. Jafnvel ósmekklegt. Ég biðst afsökunar.

-Hafð þú það sem allra best ágæti Svavar.

Teitur Atlason (IP-tala skráð) 29.11.2007 kl. 09:47

23 identicon

Ekki banna ég mínum börnum að fara í kirkju, ekki níði ég trúarbrögð í þeirra eyru, ekki prédika ég trúleysi yfir þeim, ég geng með kross en er ekki trúaður.
Ég set stopp á að trúaðir fari inn í skóla landsins, það er hlutur sem mér ofbýður við, Jesú kann að hafa sagt: leyfið börnunum að koma til mín en hann sagði ekki leyfið kuflum að koma til barnanna.
Segi enn og aftur að persónuleg trú utan trúfélaga er eitthvað sem ég get alveg borið virðingu fyrir en trúarvændi skipulagðra tráurbragða og yfirgangur þeirra er ekki trú, það er eins langt frá trú og hægt er að komast...

DoctorE (IP-tala skráð) 29.11.2007 kl. 10:10

24 identicon

jÁ ,ÉG SÁ ÞESSA MYND Á RÚV.  EITT ORÐ. VIÐBJÓÐUR.  JÁ,HERSHÖFÐIGINN GEKK Í GEGN UM MIKLAR RAUNIR. TRÚFESTA BELGANNA OG SÞ,VAR MIKIL? MIKIÐ VAR GÖFUGLYNDI STJÓRNENDA SÞ. TJÁI MIG SVO EKKI MEIRA.   ÞETTA RIFJAST ALLT UPP FYRIR MÉR.          DETAIL BY DETAIL!?

Þórarinn Þ Gíslason (IP-tala skráð) 29.11.2007 kl. 14:03

25 identicon

Þeir sem sáu myndina Hótel Rúanda eru ekki samir eftir! Það voru ekki bara stórveldin sem brugðust heldur allir þeir hópar sem kenna sig við mannréttindi hverju nafni sem þau nefnast. Þarna fóru fram þjóðarmorð í landi sem enginn hafði áhuga á. Það sá sér enginn hag í því að gera nokkurn skapaðan hlut. Sorglegast er þó sú staðreynd að mannréttindahópar sem alltaf eru mættir ef von er á sjónvarpsmyndavélum, veifandi spjöldum voru hvergi sjáanleg.

Jón Sigurðsson (IP-tala skráð) 29.11.2007 kl. 14:29

26 Smámynd: Soffía Sigurðardóttir

Mikið lifandi skelfing vil ég heldur rökræða við málefnalegt fólk sem ég er ósammála, en ómálefnalegt fólk sem ég er sammála!

Les oft bloggin þeirra Svavars, sr. Baldurs og Kalla Matt, af því að þetta eru hugsandi og málefnalegir menn. Það truflar mig ekki að þeir séu prestar en ég trúi ekki á guð. Tek þá framyfir suma sem leggjast alltaf í helvítisrausið þegar þeir sjá prest, jafnvel þótt hann sé ekki að fjalla um trúmál.

Þakka þér Svavar fyrir að minna okkur á það sem gerðist í Rúanda. 

Soffía Sigurðardóttir, 29.11.2007 kl. 18:15

27 Smámynd: Greta Björg Úlfsdóttir

Svavar, af því að þetta er mér ofarlega í huga þessa dagana, þá þætti mér vænt um, þó það sé utan við efni þessarar færslu, að þú færðir fram rök sem mæla með því að hafa þetta ákvæði áfram í stjórnarskrá lýðveldisins Íslands:

,,Hin evangelíska lúterska kirkja skal vera þjóðkirkja á Íslandi, og skal ríkisvaldið að því leyti styðja hana og vernda”

Ég fæ nefnilega ekki séð að það samrýmis hugsjónum um lýðræði að íslenska ríkið styðji og verndi eitt trúfélag frekar en annað, jafnvel þó það sé gert á sögulegum forsendum. ???

Greta Björg Úlfsdóttir, 30.11.2007 kl. 22:24

28 Smámynd: Greta Björg Úlfsdóttir

Æ , ég ætlaði að setja þetta aftan við nýjustu færsluna, færi það bara þangað...

Greta Björg Úlfsdóttir, 30.11.2007 kl. 22:26

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband