6.12.2007 | 21:55
Ritstjórn - ritskoðun
Ítrekað var kvartað yfir útlitinu á gamla blogginu. Mörgum fannst erfitt að lesa hvítu stafina á rauða grunninum.
Ég hef því breytt um útlit eins og sjá má og vona að það nýja sé læsilegt.
Einnig hef ég ákveðið að birta ekki athugasemdir hér nema að hafa lesið þær yfir áður.
Ekki á ég von á að öllum finnist það góð tilhögun. Eflaust fæ ég skammir fyrir hugleysi og að vilja hefta tjáningarfrelsið. Og ábyggilega verð ég sakaður um ritskoðun.
Ég mun skoða það sem hér er ritað í athugasemdum og birti það sem ég tel við hæfi.
Sú tilhögun er líka nefnd ritstjórn. Þetta er mitt blogg.
Ég vona að mér auðnist að vera sanngjarn ritstjóri. Eða ritskoðari ef þið viljið frekar nota þann titil.
Ef ekki bið ég ykkur að kvarta.
Athugasemdir
Mér finnst þetta ekkert óeðlilegt. Eina sem er vont er að stundum er búið að pósta mörgum færslum inn sem maður hefur ekki séð og umræður eiga því til að verða sundurslitnar og undarlegar.
Þótt við séum ekki sammála um andans mál þekki ég þig aðeins af góðu. Ég yrði nú hissa ef þú færir að ritskoða menn hægri vinstri bara vegna þess að þú værir ósammála skoðunum þeirra.
Jón Stefánsson, 6.12.2007 kl. 21:59
Það er rétt að hugsanlega verða umræðurnar sundurslitnar - en á móti kemur að ef til vill verða þær markvissari. Mér er illa við að hleypa í gegn athugasemdum sem ekki eru um efni viðkomandi færslu.
Kosturinn við þetta fyrirkomulag er sá að nú er engin þörf að setja menn á bannlista í athugasemdum.
Nú ef þetta gefst illa má alltaf taka upp gamla systemið.
Svavar Alfreð Jónsson, 6.12.2007 kl. 22:06
Sammála um læsileika bloggsins, þó hið fyrra væri fallegra.
Virði rétt þinn sem ritstjóri og ritskoðari eigin bloggsíðu.
Minni á að viðbrögð manna við pistlum ráðast af umfjöllunarefni þeirra og efnistökum. Oft hef ég lesið hér fróðlega, uppbyggilega og skemmtilega pistla. Efni nokkurra þeirra síðustu býður því miður ekki upp á slíkt. Það er vandasamt að ætla sér að fjalla af yfirvegun um mál í miðli sem þessum. Virði tilraun þína til þess, þó ég viðurkenni að misjafnlega hefur mér þótt takast til.
Virðingarfyllst, Greta Björg
Greta Björg Úlfsdóttir, 6.12.2007 kl. 22:31
Kæra Greta. Oft leggur þú gott til málanna. Ég þakka þér innilega fyrir það. Mér þykir leitt að heyra ef þér finnast síðustu pistlarnir mínir ekki fróðlegir, uppbyggilegir eða skemmtilegir.
Ég bendi þér samt á að þú hefur gert um 70 athugasemdir við tvo síðustu pistla mína. Það er vel af sér vikið. Á þremur dögum.
Svavar Alfreð Jónsson, 6.12.2007 kl. 22:46
Svavar minn! þú átt að hafa þessa hluti eins og þú sjálfur vilt, þetta er þitt blogg, þinn heimur og þarfnast engra afsökunar. Haltu ótrauður áfram.
Páll Jóhannesson, 6.12.2007 kl. 23:30
Kæri Svavar.
Pistlana Siðmennt, Varúð! Prestur! og Kirkjan og skólarnir tel ég frekar til þess fallna að vekja upp heitar umræður, heldur en að þeir séu fróðlegir, uppbyggilegir eða skemmtilegir, svo sem 70 innlegg mín (sé að þú hefur talið þau saman, gaman að fá að vita töluna!) á þremur dögum bera vott um.
Af fjölda athugasemda minni má marka að í það minnsta hjá mér hefur þér með pistlum þínum tekist að vekja löngun til rökræðna, við aðra lesendur og þig sjálfan, um efni þeirra og annað er borið hefur á góma í framhaldinu. Taka ber þó tillit til þess hvað varðar töluna 70, að vegna þess að ég er smámunasamur nöldrari, haldinn fullkomnunaráráttu, stafar hluti (margar) þessara athugsemda af því að ég hef talið nauðsynlegt að leiðrétta fyrri færslu með annarri styttri. - Bið að menn sýni slíkri manneskju umburðarlyndi í anda kristilegs kærleika.
Ég skal gera hér betri gein fyrir ástæðum fyrir fjölda athugsemda við eina af þessum færslum, það er að segja Varúð! Prestur!:
Sá sem telja mál mitt blaður vinsamlegast hættu að lesa HÉR - Þú þarft ekki að lesa þetta!
Ég viðurkenni að segja megi að ég hafi farið offari á stundum í áhuga mínum á að fræða fólk (DoctorE sér í lagi) um hluti er ekki komu upphaflega umræðuefninu beinlínis við. Aðdáun mín á flestu því sem haft er eftir Albert Einstein er einfaldlega slík, að mér virtist á stundu skriftanna brýnt að koma spaklegum orðum hans að, þar sem mér þóttu þau fullkomið andsvar við margt af því sem ég hef heyrt trúleysingja setja fram, þar á meðal manninn innan svigans. Þetta segi ég vegna þess að Einstein var bæði heimsfrægur og virtur vísindamaður og trúaður, þó ekki væri það í hefðbundnum, kirkjulegum skilningi. Sennilega var þó ekki viðeigandi á annars manns bloggsíðu að svala slíkri trúboðsþörf, því ég hafði þó sjálf gert færslu um svipað efni á minni eigin síðu, sem ég set hér tengil á, skyldi þér eða öðrum (ef þú birtir athugasemdina) hugnast að lesa: Mannsheilinn - meistaraverk
Auk þessa taldi ég við hæfi að svara manninum (Arnari) sem benti mér á fróðlega (gyðinglega) síðu um jólahald, - varð sú þakkar-athugsemd langorðari en efni stóð til (og er ég þó síst þekkt að slíku - augliti til auglitis), - og það með myndskreytingum í anda komandi jóla, sem betur hefðu verið við hæfi á minni eigin bloggsíðu (eins og ég segi nú einhvers staðar neðanmáls, þó ég hafi látið myndir og hugleiðingar vaða).
Ef þú vilt mun ég framvegis spara fingraslátt minn á lyklaborðið mitt er kemur að þínu athugasemdakerfi. Sýnist hálft í hvoru að þú sért í þinni síðustu athugasemd að fara fram á það. Biðst afsökunar ef ég hef leyft hýperaktíviteti mínu við skriftir (auk anga af skáldagáfu), sem virðist fylgifiskur skammdegisins hjá mér síðan ég eignaðist tölvu, að angra sjónir þínar og huga.
Í Guðs friði
Greta Björg
Greta Björg Úlfsdóttir, 7.12.2007 kl. 00:00
Kæra Greta! Þú ert gáfuð gæðakona og ég vil endilega að þú haldir áfram að senda mér athugasemdir. Þú hefur oft bent mér á ýmislegt sem betur mætti fara hjá mér auk þess að hvetja mig og uppörva. Fyrir hvort tveggja er ég innilega þakklátur.
Hóf er samt best í öllu hver sem í hlut á og þegar athugasemdirnar verða of margar við eina færslu missir fólk yfirsýn og tapar áttum.
Ekki er það samt þér að kenna hafi umræðan við síðustu færslur farið út um víðan völl. Þar er fyrst og fremst við mig sjálfan að sakast.
Guð blessi þig,
Svavar Alfreð
Svavar Alfreð Jónsson, 7.12.2007 kl. 00:15
Þetta er svolítið sviplaus bloggsíða, en það er þitt mál og val. Í rauninni er innihald bloggsins sem skiptir máli. En varðandi ritskoðun, þá er það að sjálfsögðu val okkar bloggaranna hvaða athugasemdir við viljum birta og hvað ekki. Stundum kemur algjört bull sem ekki mark er takandi á.
Steinunn Þórisdóttir, 7.12.2007 kl. 00:18
Hallelúja! Þetta er allt annað líf minn kæri prestur. Nú get ég loksins almennilega meðtekið þinn mjög svo mikilvæga boðskap.
Baldur Fjölnisson, 7.12.2007 kl. 00:40
Best er að fólk setji fram mál sitt í sem stystu máli, án þess að merkingin fari fyrir ofan garð og neðan.
Annars verður mjög erfitt að átta sig á aðalatriðunum.
Theódór Norðkvist, 7.12.2007 kl. 01:16
Bestu þakkir fyrir þetta nýja flotta bloggútlit og allar skremmtilegu færslurnar.
Ásta.
Ásta Einarsdóttir (IP-tala skráð) 7.12.2007 kl. 09:22
Jón Frímann, ég vil benda þér á að kirkjunnar þjónar hafa, eins og annað fólk, frítt val um það hvort þeir blogga eða ekki. Sem prestum ber þeim engin skylda til að halda úti bloggsíðu. Þar af leiðandi hafa þeir líka frítt val um það hvað þeir birta á sinni síðu, eða ekki.
Vegna orða þinna um að Svavar sé opinber starfsmaður þá er það einnig misskilningur. Það hafa prestar ekki verið frá 1997, þegar þetta breyttist vegna samninga milli ríkis og kirkju, þó ríkisféhirðir sjái enn um að greiða peningana út.
Af síðu Biskupsstofu:
"Í janúar 1997 er fest í samkomulagi milli Þjóðkirkjunnar og íslenska ríkisins að kirkjan afhendi jarðirnar gegn greiðslum frá ríkinu vegna launa 138 presta og prófasta, tveggja vígslubiskupa og biskupsembættisins."
Vonandi leiðréttir Svavar mig ef ég fer hér með rangt mál.
Greta Björg Úlfsdóttir, 7.12.2007 kl. 11:16
Það er þitt mál að vera með síu, fyrir mig þá er það rangt & því verður þetta síðasta athugasemd mín á þessu bloggi, ég enda þetta með að segja að sú ritskoðun sem trúaðir eru svo gjarnir að nota er ekki málstað þeirra til framdráttar
DoctorE (IP-tala skráð) 7.12.2007 kl. 12:55
Blessaður og sæll Svavar. Ég þakka þér kjarnyrta og kröftuga pistla að undanförnu. Þeir hafa verið málefnalegir og hafa í engu gengið of langt. Þá finnst mér gott að þú skulir fara yfir þær athugasemdir sem þér berast, áður en þær birtast, enda er munnsöfnuðurinn oft á tíðum með þeim hætti að hann á ekkert erindi inn á alnetið. Í þessu sambandi bendi ég á ágæta grein Katrínar Jakobsdóttur í 24stundum í dag. Það eru orð í tíma töluð.
Ég tel að Árni Guðmundsson fari villur vega í athugasemdum sínum hér að ofan. Ef ég legg réttan skilning í ákvörðun þína þá snýr hún ekki að því að birta aðeins þær athugasemdir sem þér líkar við eða ert sammála, heldur aðeins þær sem ekki ganga gegn velsæmi og kurteisi. Fólk getur verið á öndverðum meiði án þess að velja hugsunum sínum orð sem eru særandi og meiðandi.
Stefán Einar Stefánsson (IP-tala skráð) 7.12.2007 kl. 13:00
Mér fannst fyrra útlit hlýlegra, en það verður aldrei hægt að gera öllum til hæfis þannig að ég held að hver eigi að hafa það útlit á síðunum sínum sem honum/henni finnst best.
Sama finnst mér varðandi athugasemdir, það verður hver að hafa með sínum hætti. Persónulega finnst mér blogg þar sem lokað er alveg fyrir athugasemdir frekar dauð, eins og það vanti eitthvað. En mér finnst líka sjálfsagt mál að geta síað frá innlegg sem særa velsæmiskennd manns og verði maður fyrir slíku oft er ekkert eðlilegra en fara yfir þær athugasemdir sem koma.
krossgata, 7.12.2007 kl. 16:36
Jón Frímann. Ekki skal ég munnhöggvast við þig um það, ef þú vísar mér á þann stað í hæstarétti þar sem það stendur. Vert er að geta heimilda þegar þú leiðréttir fólk. Gleymdu því ekki.
Greta Björg Úlfsdóttir, 7.12.2007 kl. 20:07
Elskurnar mínar, Jón Frímann og Greta Björg!
Þetta er nú ekki það merkileg bloggsíða að leggjast þurfi í túlkanir á hæstaréttardómum í tilefni breytinga á stillingum á henni - en um þær fjallaði pistillinn.
Ég skrifa hér af fúsum og frjálsum vilja eins og Greta bendir á.
Höldum Hæstarétti Íslands utan við þessa umræðu.
Svavar Alfreð Jónsson, 7.12.2007 kl. 20:19
Fyrri síðan var óneitanlega hlýlegri, eins og kvöldroði. Kunni þó aldrei við myndina á toppi síðunnar.
Hvítur grunnur er tómur, striginn sem listmálarinn vill fylla af litum og formum. Hvítur er líka ljós en svart er myrkur. Á kannski vel við?
Ransu, 8.12.2007 kl. 00:30
Þaetta er rétt, séra minn.
Best er yfirleit að sleppa efum og efa.
Mennirnir byggja múra
múra sér jafnvel klefa
með veggi úr eldföstum efa
Gluggi er ýmist enginn
ellegar hálflokuð rifa
-Svo dúsa menn þarna dauðir
daga sem eins mætti lifa
Úlfur Ragnarsson
Greta Björg Úlfsdóttir, 8.12.2007 kl. 02:02
Komdu sæll séra Svavar.
Ég skoða heimasíðuna þína daglega. Les pistlana mér til ánægju. Hætti fljótlega að lesa athugasemdir sem þér bárust. Ekki væri söknuður þótt þú lokaðir alveg á þær. Kveðja.
Óli Ágústsson (IP-tala skráð) 8.12.2007 kl. 11:19
Ég hef stundum velt fyrir mér að nota þennan möguleika, að sjá athugasemdir sjálf áður en þær birtast. Það er ekki vegna þess að ég hræðist skoðanir ólíkar mínum eigin, heldur einfaldlega vegna þess að prentfrelsinu fylgir sú ábyrgð að vera ekki með meiðandi ummæli í garð annars fólks. Sem "ritstjóri" míns bloggs, hlýt ég að bera ákveðna ábyrgð í þessum efnum.
Hef ekki enn farið þessa leið, mest vegna þess að ég hef ekki kosið að skrifa mikið um umdeild mál, og því oftast tiltölulega rólegt í athugasemdakerfinu. Hinsvegar hefur komið tvisvar sinnum fyrir að ég hef eytt úr athugasemd því hef hef talið hana meiðandi eða særandi. Í a.m.k. öðru tilvikinu sá ég ekki athugasemdina fyrr en eftir að sú manneskja sem hún beindist að var búin að lesa hana.
Ég skil vel ákvörðun síðueigenda hér, í ljósi viðbragða við sumum pistlum.
Auður H Ingólfsdóttir (IP-tala skráð) 9.12.2007 kl. 19:19
Þakka viðbrögðin. Hef ekki þurft að hafna nema tveimur athugasemdum síðan nýjar stillingar voru gerðar og finnst það harla vel sloppið.
Svavar Alfreð Jónsson, 9.12.2007 kl. 21:52
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.