Jólanótt

Jólalambið meig svo sannarlega í munni. Ég maríneraði það í íslenskri blóðbergsblöndu frá Sandi í Aðaldal og bláberjum. Pannakottað var líka frábært, borið fram með skógarberjablöndu. Ég gætti ekki hófs og var kærkomin hreyfing að labba sér niður í kirkju þar sem ég messaði klukkan 23:30.

Hér á Akureyri fengum við nánast hið fullkomna jólaveður, kyrrt og milt frost. Götur og garðar hjúfruðu sig undir mjallarsæng.

Sigrún Magna Þórsteinsdóttir spilaði á orgelið í miðnæturmessunni og Hymnodia, kammerkór Akureyrarkirkju, söng. Þær Valgerður Valgarðsdóttir, djákni, og Heiðdís Norðfjörð, meðhjálpari, þjónuðu líka í helgihaldinu. Mikill fjöldi var í kirkjunni og góð þátttaka í altarisgöngunni.

Hér er prédikun mín frá því í nótt.

Náð sé með yður og friður frá Guði föður vorum og Drottni Jesú Kristi.

Gleðileg jól, kæri söfnuður!

Hún er komin, jólanóttin. Leirtauið af veisluborði kvöldins stendur glansandi og heitt í uppþvottavélunum, búið er að troða út fulla ruslapoka af gjafapappír og börn landsins eru í frjálsu spennufalli.

Allt er með öðrum svip á jólanótt. Þegar við ókum til kirkju áðan var eins og jafnvel bílarnir pössuðu sig á því að fara hátíðlega um strætin. Fáir eru á ferli og hversdagsys víðs fjarri. Aldrei er flökt kertanna friðsælla en á þessari nótt. Og hvaða nótt á sætari söngva eða fallegri sögur?

Meira að segja myrkur jólanæturinnar virðist mýkra en húm annarra nátta.

Þegar diskaglamrið hefur hljóðnað og gjafirnar eru komnar á sinn stað finnum við kraft og kynngi þessarar nætur. Hún tengir okkur við eitthvað sem við ekki skiljum. Aðdragandi jólanna einkennist af veraldarvafstri en þegar jólanóttin rennur upp skynjum við að veröldin er ekki öll þar sem hún er séð. Undanfarnar vikur höfum við verið í kapphlaupi við tímann en þessi nótt hvíslar að okkur sjálfri eilífðinni. Og aldrei er meiri áhersla lögð á efnislega hluti en fyrir jólin, á það sem fer í kroppinn og á hann, en þegar friður þessarar nætur hellist yfir, munum við eftir því að maðurinn lifir ekki af brauði einu saman. Við finnum að hjartað er andlegt sem slær í öllum þessum kílóum af holdi og beinum.

II.

„Þú kemur enn þá, kyrra nótt,

og kyssir mína brá.

Í faðmi þínum fel ég mig

og finn þitt hjarta slá.

Eg hjá þér einni vaka vil,

unz vaknar dagur senn.

Því þótt ég hafi trúnni týnt,

þú töfrar hug minn enn."

 

Þannig yrkir skáldið Magnús Ásgeirsson í ljóði sínu Jólanótt. Skáldið segist vera búið að týna trúnni og ætli við getum ekki mörg tekið undir með honum.

Er ekki trú okkar veik, er hún ekki jafn flöktandi og lítið jólakerti sem slokknar á við minnsta andgust?

Og er ekki sífellt verið að þrengja að trúnni úr öllum áttum? Verður ekki stöðugt erfiðara að gangast við trú sinni?

Stuttu fyrir jólin vakti það athygli þegar Tony Blair, fyrrverandi forsætisráðherra Bretlands, sagðist vera trúaður. Hann hefði ekki þorað að gangast við því meðan hann gegndi embætti sínu af ótta við fordóma samfélagsins.

Að undanförnu hefur hart verið tekist á um trúmál í samfélaginu. Því hefur verið haldið fram að trúin sé á undanhaldi og hafi enga þýðingu lengur. Heitar umræður síðustu vikna sýna að svo er hreint ekki. Af þeim má að vísu ekki draga miklar ályktanir um trúarhita fólks, en hin mikla umræða sýnir að trúin er fólki mikið umhugsunarefni. Það ætti ekki að koma á óvart. Trúin hefur fylgt manninum frá upphafi og hún tekur á sig margvísleg form í öllum samfélögum. Trúin á sér margar birtingarmyndir. Líka trúleysið er afdráttarlaus trúarleg afstaða.

Trúarlegar spurningar leita á manninn, hann veltir fyrir sér eilífðarmálunum, hann skoðar hvaðan hann komi, hvert hann stefni og til hvers hann lifi. Sjaldan verða þessar spurningar og hugleiðingar nærgöngulli við okkur en núna. Jafnvel þeir sem hafa týnt trúnni finna að eitthvert hjarta slær í myrkri jólanæturinnar.

III.

Og hingað erum við komin, sum með veika trú og önnur með týnda trú, hingað í kirkjuna og það eru komin jól. Við syngjum gömlu jólasálmana og heyrum þessa gömlu sögu um fæðingu barnsins í Betlehem. Við heyrum hjarta jólanæturinnar slá í þessari sögu og í þessum sálmum. Við finnum í þeim eitthvað sem við ekki getum útskýrt, eitthvað sem tengist hinu andlega eðli okkar, höfðar til þess og nærir það.

„Þótt ég hafi trúnni týnt, þú töfrar hug minn enn."

Öll erum við týnd. Öll höfum við villst af leið. Öll upplifum við myrkur jólanæturinnar, ekki bara í umhverfinu, heldur líka í sálinni.

En við erum ekki ein. Við erum aldrei ein. Við erum ekki ein þótt við séum týnd, villuráfandi og sjáum hvergi ljós.

Guð er hjá okkur og hann er ekki bara hjá þeim sem trúa mest á hann, hann er líka hjá þeim sem hafa týnt trúnni.

"Yður er í dag frelsari fæddur, sem er Kristur Drottinn, í borg Davíðs."

Hann er kominn til allra manna. Og hann ryðst ekki inn, hann neyðir engan, hann kemur í kvöld til þín á sama hátt og hann fæddist.

Hann kemur blíðlega, mildilega, hann kemur eins og nýfætt barn og hann býður þér að ganga að jötunni í gripahúsinu, sömu leið og fjárhirðarnir.

Hann býður þér að ganga inn úr myrkrinu.

Ljósið hans er milt og rómur hans er svo veikur að þú þarft að kyrra hug og sál til að heyra hann.

Það er jólanótt. Í myrkri hennar kviknar ljós og í kyrrð hennar hljómar rödd þess sem er kominn til að taka þig að sér, leiða þig, næra þig og blessa þig.

„Þú kemur enn þá, kyrra nótt,

og kyssir mína brá.

Í faðmi þínum fel ég mig

og finn þitt hjarta slá."

Dýrð sé Guði, föður og syni og heilögum anda. Svo sem var í upphafi, er og verður um aldir alda.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Þetta var góð miðnæturmessa í nótt, þakka fyrir góða ræðu, hún var gott veganesti inní þessa helgu nótt. Gleðilega hátíð.

Björn Jónsson (IP-tala skráð) 25.12.2007 kl. 14:31

2 Smámynd: Heimir Lárusson Fjeldsted

"Jólalambið meig svo sannarlega í munni."

Ég ráðlegg öllum af heilum hug að reyna ekki að borða lifndi lamb

Þau eru greinilega til alls vís

Heimir Lárusson Fjeldsted, 25.12.2007 kl. 18:45

3 identicon

Gleðileg Jól Svavar.

Bjarki Þór Baldvinsson (IP-tala skráð) 26.12.2007 kl. 00:02

4 Smámynd: krossgata

Gleðileg jól.

krossgata, 27.12.2007 kl. 12:52

5 Smámynd: Freyr Hólm Ketilsson

Sæll Svavar,

Ágæt messa hjá þér... alltaf gott að fara í miðnæturmessu í heimabænum... ég hnaut samt um eitt í predikuninni hjá þér... sem mér fannst frekar lélegt...

III.

Og hingað erum við komin, sum með veika trú og önnur með týnda trú, hingað í kirkjuna og það eru komin jól.

En hvað með þá sem telja sig hafa sterka trú? Vorum við ekki í sömu messunni eða? 

Freyr Hólm Ketilsson, 27.12.2007 kl. 16:44

6 Smámynd: Svavar Alfreð Jónsson

Þakka góðar kveðjur og athugasemdir.

Freyr Hólm: Við erum öll týnd, líka þau sterktrúuðu. Eða eins og segir í sálminum:

Heilög boðin, Herra, þín
hefur brotið syndin mín.
Engin bót og engin tár
orka mín að græða sár.
Ónýt verk og ónýt trú,
enginn hjálpar nema þú.

Þeir sem hneykslast á því að það migi í munni sem er lostætt ættu að skoða orðabækurnar sínar.

Svavar Alfreð Jónsson, 27.12.2007 kl. 17:13

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband