Vel sóttar kirkjur

akirkjaÍ rógsherferð síðustu mánaða gegn kirkju og kristni er því stundum haldið fram að kirkjur landsins standi meira og minna tómar.

Auðvitað á það ekki við rök að styðjast fremur en margt annað í þeim áróðri.

Á nýársdag sýndi Sveinn kirkjuvörður mér tölur um aðsókn að Akureyrarkirkju síðasta mánuð.

Hvorki fleiri né færri en sexþúsund manns komu í kirkjuna í desember.

Eru þá ekki taldar með æfingar kóra eða aðrar smærri samkomur.

Þessi desembermánuður í Akureyrarkirkju er sennilega sá albesti hvað aðsókn varðar síðan "mælingar hófust".

Skýringarnar á því geta verið margar. Ein er sú að aðförin að Þjóðkirkjunni hefur vakið fólk til vitundar um mikilvægi hennar.

Önnur er sú að starfið í kirkjunni verður sífellt fjölbreyttara og höfðar til fleiri en áður.

Ég leyfi mér að tilgreina þetta hér þó að það verði sjálfsagt ekki vel séð af mörgum.

Umræðan er orðin þannig að fólk leyfir sér flest í gagnrýni sinni á kirkjuna og trúna en séu veitt andsvör upphefst gjarnan mikill grátkór þar sem kvartað er undan "árásum á trúleysingja".


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Matthías Ásgeirsson

Í rógsherferð síðustu mánaða gegn kirkju og kristni

Þetta kemur úr hörðustu átt.

Sástu annars frá nýársprédikun biskups í Dómkirkjunni?  Kirkjan var hálf tóm og samt var biskup þjóðarinnar að prédikun.

En örlítið varðandi kirkjusókn.

Hversu margir mættu ekki í kirkju í desember.  Akkúrat ekki neitt?

Ég þori að fullyrða að sá hópur er töluvert stærri en hinn sem mætti, þó það væri ekki nema á eina tónleika.

Hvað segir það okkur um þjóðina?  Segir það okkur eithvað 

Umræðan er orðin þannig að fólk leyfir sér flest í gagnrýni sinni á kirkjuna og trúna en séu veitt andsvör upphefst gjarnan mikill grátkór þar sem kvartað er undan "árásum á trúleysingja".

Ég veit að þú trúir þessu sjálfur Svavar, enda ertu þjálfaður í trúfræðum og kannt að trúa ólíklegustu fullyrðingum - en þetta er ósköp einfaldlega ósatt.

Það eina sem við förum fram á er að fólk reyni að segja satt en ljúgi ekki og sé með stöðugar dylgjur eins og þú og margir kollegar þínir hafa gert síðustu misseri.  Það eina sem við biðjum ykkur að gera er að virða þetta bévítans áttunda boðorð sem þið virðist hafa kastað á ruslahaugana líkt og hjónabandi gagnkynhneigðra, svo ég vitni í æðsta yfirmann þinn (fyrir utan Jesús). 

Matthías Ásgeirsson, 2.1.2008 kl. 13:22

2 Smámynd: Svavar Alfreð Jónsson

Það er rétt hjá Matthíasi að töluvert margir komu ekki í kirkju í desember þannig að við eigum töluvert verk óunnið.

En þetta er allt í áttina - og öllum ljóst að hinar tómu kirkjur eru þjóðsaga.

Hafi Dómkirkjan verið hálftóm þegar biskup flutti sína nýársprédikun þýðir það að hún hefur líka verið hálffull. Sínum augum lítur hver silfrið.

Þú segir mig og kollega mína hafa verið ljúgandi síðustu misserin ef ég skil þig rétt.

Fróðlegt væri að fá skýringar á þeim dylgjum.

Svavar Alfreð Jónsson, 2.1.2008 kl. 13:50

3 Smámynd: Matthías Ásgeirsson

"Fróðlegt væri að fá skýringar á þeim dylgjum."

Fjöldi starfsmanna kirkjunnar hefur haldið því fram að hópur fólks, þ.m.t. Vantrú og Siðmennt, vilji kristinfræði úr skólum og sé á móti litlu jólunum.

Þetta er lygi.

Þarftu nánari skýringar?  Neitar þú því að þessu hafi verið haldið fram?

Matthías Ásgeirsson, 2.1.2008 kl. 14:22

4 Smámynd: Svavar Alfreð Jónsson

Matthías sakar mig og kollega mína um að hafa verið ljúgandi síðustu misserin.

Þegar hann er beðinn um skýringar á því bendir hann á að "fjöldi starfsmanna kirkjunnar" haldi því fram að Vantrú og Siðmennt vilji kristinfræði úr skólunum og sé á móti litlu jólunum.

Þessu hafa nú ekki bara starfsmenn kirkjunnar haldið fram eins og Matthías veit sjálfur.

Og ef menn skoða hvers konar kristinfræði og hvers konar litlu jól Matthíasi og félögum hans eru þóknanleg eru þessar ásakanir ef til vill ekki jafn mikil "lygi" og fram er haldið. 

Svavar Alfreð Jónsson, 2.1.2008 kl. 14:36

5 Smámynd: Jón Stefánsson

Já þessir gæjar eru hryllilega hatrammir öfgamenn! Þeir vilja "hlutlausa" kennslu í trúabragðafræði án sérinnrætingar kristnidóms. Þeir vilja "hlutlaus" litlujól með jólasveinum, jólatrjám, smápökkum, piparkökum, söng og gleði - en án presta! Þetta er ferlegt alveg og það er augljóslega ekki "lygi" sem haldið hefur verið fram um þessa öfga.

Og því styð ég það heils hugar að menn skoði málflutning Siðmenntar og Vantrúar í þessu. Verst að flestir munu ekki gefa sér tíma til þess, heldur einungis álykta að prestar og biskup geti ekki, vilji ekki og muni ekki segja ósatt. 

Jón Stefánsson, 2.1.2008 kl. 15:21

6 Smámynd: Matthías Ásgeirsson

Út á hvað snýst síðasta athugasemd þín Svavar?

Ég kem með nánari útlistun á því hvað ég á við með tali míni um lygar.  Ég ræddi ekkert um dylgjuásökunina, en hún beinist gegn þér.  Þú ert afskaplega duglegur að skrifa dylgjur um trúleysingja.

 Og ef menn skoða hvers konar kristinfræði og hvers konar litlu jól Matthíasi og félögum hans eru þóknanleg eru þessar ásakanir ef til vill ekki jafn mikil "lygi" og fram er haldið.

Þetta er hægt að endurorða svona: "Ef við snúum út úr því sem Matthías og félagar hans hafa sagt og rangtúlkum það eins og okkur hentar, þá erum við í raun ekki að ljúga".  Víst er þetta lygi séra Svavar Alfreð.  Þetta er meira að segja haugalygi sem leiðrétt hefur verið ótal sinnum, meðal annars í blaðagreinum, löngu áður en biskupinn þinn laug þessu aftur nú fyrir jólin.

Hvenær farið þið að tala um boðorðin níu?

Matthías Ásgeirsson, 2.1.2008 kl. 15:31

7 Smámynd: Matthías Ásgeirsson

Þessu hafa nú ekki bara starfsmenn kirkjunnar haldið fram eins og Matthías veit sjálfur.
Það veit ég vel.  En það voru "starfsmenn kirkjunnar" sem byrjuðu að ljúga og aðrir (m.a. Menntamálaráðherra, Dóms og kirkjumálaráðherra, ritstjóri 24 stunda (prestsonur) og fleiri) endurtóku ósannindin.  Á þetta að réttlæta lygarnar? 

Matthías Ásgeirsson, 2.1.2008 kl. 15:33

8 Smámynd: Ingólfur

Skárra væri það nú ef ykkur tækist ekki að fylla kirkjuna nokkru sinnum yfir aðventuna.

En segðu mér, svona til þess að maður geti betur gert sér grein fyrir þessum tölum? Hve margir voru viðburðirnir í desember, og hve marga tekur ykkar fallage kirkja á Ákureyri?

Og kannski þú dragir líka frá skyldumætingu fermingarbarnanna úr tölunum?

Svo get ég ekki skilið upphafssetningu pistils þíns öðru vísi en að skipulega hafi rógur verið borinn á kirkjunna og kristni undanfarið.

Hvað áttu við þar? 

Ingólfur, 2.1.2008 kl. 15:34

9 Smámynd: Svavar Alfreð Jónsson

Litlu jól þar sem búið er að reka Jesúbarnið á dyr og hvorki má sýna helgileik né syngja Heims um ból eru að margra mati engin litlu jól.

Það er svona svipað og að segja: Jú, við erum ekkert á móti fótbolta, en það má bara ekki hafa bolta og mörk í leiknum. Og ekki nota fæturna.

Svipaða sögu er að segja um kristinfræðina sem margir talsmenn Siðmenntar og Vantrúar segjast hlynntir.

Mega börnin til dæmis að þeirra mati lita myndir í þeirri námsgrein? Eða læra Faðirvorið?

Ég held að eina lygin í þessu sé sú að halda því fram að kirkjan sé andvíg faglegri fræðslu um kristindóm.

Og Ingólfur Harri: Akureyrarkirkja iðar af lífi allt árið um kring.

Svavar Alfreð Jónsson, 2.1.2008 kl. 16:10

10 Smámynd: Ingólfur

Það er nú gott að heyra að það sé líf hjá ykkur fyrir norðan. Ég sé samt ekki hvernig þetta svarar spurningum mínum.

Mér finnst alveg sjálfsagt að flytja eitthverjar jólasögur á litlu jólunum, jafnvel söguna um Jesú en samt finnst mér aðrar sögur flytja betur boðskap jólanna.

Jólin eru hjá flestum ekki hátíð þar sem fæðingu Jesú er fagnað, heldur hátíð þar sem boðskapurinn er að gleðja fólkið í kring um okkur. Gefa þeim sem eiga undir högg að sækja.

Ég sé ekki neitt að því að Heims um ból sé eitt af jólalögunum sem sungin eru á litlu jólunum.

Í kristinfræðslu er sjálfsagt að segja frá Faðirvorinu, hvaða stöðu það hefur meðal kristinna o.s.frv. Það á hins vegar ekki að gera kröfu um að börn læri það utanbókar. Það er fagleg kristinfræðsla. 

Ingólfur, 2.1.2008 kl. 16:39

11 Smámynd: Svavar Alfreð Jónsson

Ingólfur Harri: Það er ekkert ófaglegt við utanbókarlærdóm og ekki nema sjálfsagt að börn sem eru að læra um kristni kunni Faðirvorið eða að börn sem læra um múhameðstrú kunni trúarjátningu þeirra.

Matthías Ásgeirsson herðir heldur á ásökunum sínum í minn garð og kollega minna um lygar. Segir okkur útbreiða þá haugalygi að hann sé á móti kristinfræðikennslu.

Í athugasemd á bloggsíðu kollega míns, Baldurs Kristjánssonar, segir Matthías:

"Ég er ekki að stinga upp á að kennsla í trúarbragðafræði verði eintóm gagnrýni að hætti Vantrúar.  Ég sting hér upp á að fyrstu fimm ár grunnskóla verði engin kennsla í trúarbragðafræðum.  Ekki nokkur.  Í staðin verði rætt við börn um siðferði og samfélag á veraldlegum nótum.  Að sjálfsögðu er minnst á trúarbrögð í slíkum kúrsum, en þau er ekki kennd."

Svavar Alfreð Jónsson, 2.1.2008 kl. 16:51

12 Smámynd: Ingólfur

Svavar, hver er tilgangurinn með því að krefjast þess að nemendur læri Faðirvorið utanbókar og fari með það upphátt yfir bekkinn? Ég tel það að sérhver íslendingur ætti að kannast við það þegar hann sér það eða heyrir en að láta þá fara með það hefur engan tilgang annan en að innræta þeim trú.

Og af hverju telurðu að Mattías sé á móti kristinfræðslukennslu þó hann leggji til að á yngstu stigunum sé siðfræði kennd í stað trúarbragðafræðslu. Ég hef séð marga, báðu megin borðs, tala um að börn í yngstu bekkjunum hafi ekki þroska til að taka afstöðu til trúarbragða.

Ingólfur, 2.1.2008 kl. 17:23

13 Smámynd: Svavar Alfreð Jónsson

Kæri Ingólfur Harri! Ég er ekki að krefjast þess að börn verði látin læra Faðirvorið utan að í skólanum eða trúarjátningu múhameðstrúarfólks. Ég er bara að benda á að slíkur utanbókarlærdómur geti haft kennslufræðilegan tilgang og því sé óskynsamlegt að leggjast gegn því. Auðvitað skiptir meginmáli hvernig kennarinn hugsar slíkar kennsluaðferðir. Eða til hvers hann lætur börnin lita myndir.

Sé Matthías hlynntur því að engin trúarbragðafræðsla sé hálfan grunnskólann með þeim rökum að börnin hafi ekki þroska til að taka afstöðu til trúarbragða sé ég ekki betur en að hann sé kominn í mótsögn við sig sjálfan.

Kennsla um trúarbrögð á ekki að hafa þann tilgang að láta börnin velja á milli trúarbragða.

Við erum held ég sammála því að tilgangur trúarbragðafræðslu eigi ekki að vera innræting.

Börnin eiga að læra um trúarbrögð til að skilja veröldina betur. Sig og aðra.

Og vegna þess hversu kristni er fyrirferðarmikil í okkar þjóðfélagi og menningu er sérstök þörf á því að þau læri um kristna trú.

Svavar Alfreð Jónsson, 2.1.2008 kl. 17:37

14 Smámynd: Ingólfur

Við erum held ég sammála því að tilgangur trúarbragðafræðslu eigi ekki að vera innræting.

Þetta er einmitt það sem trúlausir vilja tryggja. Hví ekki að taka undir þessa kröfu og vinna saman að því að þetta sé tryggt, í stað þess að koma með ásakanir um rógsherferð og hatrammar árásir?

Ingólfur, 2.1.2008 kl. 17:56

15 Smámynd: Matthías Ásgeirsson

Litlu jól þar sem búið er að reka Jesúbarnið á dyr og hvorki má sýna helgileik né syngja Heims um ból eru að margra mati engin litlu jól.

Jól þar sem ekki er borinn fram kalkúni eru að margra mati engin jól.  Af hverju ertu á móti jólunum Svavar? 

 
"Í rógsherferð síðustu mánaða".  Þannig hefur Svavar þessa bloggfærslu sína.

Lesið svo athugasemdir hans og þá blasir við hver er rógberinn.  Svavar stundar enn og aftur þá aðferð að dylgja og snúa út úr.  Það blasir við öllum sem lesa yfir þessa umræðu.

Túlkun Svavars á athugasemd minni hjá Baldri er annað hvort dæmi um lélega greind hans eða takmarkað siðferði.

Athugasemd mín í umræðum hjá Baldri er einföld og skýr og ég lendi þar ekki í nokkurri mótsögn.

Hefur séra Svavar skoðað kennsluefni í kristnifræði?  Hefur hann séð það sem börn læra um þau mál í fyrstu bekkjum grunnskóla?   Það námsefni er satt best að segja skelfilegt á köflum.

Þau rök sem ég hef séð fyrir kennslu í trúarbragðafræði get ég ekki með nokkrum móti séð að hægt sé að heimfæra upp á sex ára börn. 

Matthías Ásgeirsson, 2.1.2008 kl. 19:37

16 Smámynd: Jón Steinar Ragnarsson

Voru þetta sexþúsund manns, sem mættu eða voru þetta 300 manns, sem mættu mörgum sinnum Svavar?  Þú svaraðir svo ekki spurningunni um skyldumætingarnar hjá fermingarbörnum.  Voru kórmeðlimir og flytjendur taldir með?   Annað:  Hver var mætingin í Júlí og Október?

Hversu mikil er aukningin miðað við desember í fyrra? Hvað voru margir tónlistarviðburðir og fríir tónleikar þessa mánuði bæði árin?  Var ekki bætt soldið í viðburðina, til að kalla fram einhverja sýnilega aukningu?  Finnurðu virkilega meðbyr með kirkjunni í samfélaginu? 

Er stigsmunur á því að segja ósatt og að hagræða sannleikanum?

Jón Steinar Ragnarsson, 2.1.2008 kl. 20:53

17 Smámynd: Svavar Alfreð Jónsson

Færslan mín var skrifuð til að andmæla þeim rógi að kirkjur landsins standi meira og minna tómar.

Auðvitað fer fleira fram í kirkjum landsins en messur - ekki síst á aðventunni. Skólaheimsóknum hefur til dæmis verið að fjölga og starf kirkjunnar verður sífellt fjölbreyttara.

Í Akureyrarkirkju eru fermingarbörn hvött til þess að mæta að minnsta kosti þrisvar í kirkju fyrir jól og þrisvar eftir jól. Við merkjum ekki við þær mætingar - enda viljum við að börnin sæki helgihald kirkjunnar af fúsum og frjálsum vilja.

Af hverju heldur þú að ég sé að "hagræða sannleikanum"?

Svavar Alfreð Jónsson, 2.1.2008 kl. 21:53

18 Smámynd: Bryndís Böðvarsdóttir

Ég hef nú ekki lesið allt sem hér fer fram en rak augun í að umræðan miðast öll við kirkjusókn um jólin.

En hvað um okkur hin sem vildum frekar sitja heima og hlusta á jólamessuna í útvarpinu. Þeir eru sko fjölmargir sem gera það, enda oft svo stappað í kirkjunum að maður vill kannski fremur sitja bara heima í rólegheitum við kertaljós og ljósin frá jólatrénu. Það jafnast fátt á við það að heyra kirkjuklukkurnar og kórsönginn streyma inn í manns eigin stofu.

Annars segi ég bara Gleðilegt nýtt ár! 

Bryndís Böðvarsdóttir, 2.1.2008 kl. 21:55

19 Smámynd: Theódór Norðkvist

Mér finnst mjög endurlífgandi að fara í messu á jóladag. Annars finnst mér átakanlegt að sjá trúleysingjana ráðast eins og hrægammar að síðuhöfundi.

Hvað veldur hatri þeirra á kristilegum gildum? Það er verðugt rannsóknarefni.

Ég var að hlera það að Siðmennt hygðist fara að selja jólakort. Er eitthvað til í því? Sjá hér.

Theódór Norðkvist, 2.1.2008 kl. 22:05

20 Smámynd: Hólmgeir Karlsson

Sæll Svavar,... ég ætlaði nú svosem bara að koma hérna inn til að óska þér gleðilegs árs og þakka fyrir gömul og góð kynni. Gat þó ekki annað en rennt í gegnum þessa umræðu hér, sem mér finns á nokkuð lágu plani, þó ekki af þinni hálfu. Án þess að blanda mér í þetta þá get ég tekið undir með síðasta ræðumanni (Bryndísi) og bæti mér á lista þeirra fjölmörgu sem völdu að hlusta á messuna heima í notarlegheitunum.

Bestu kveðjur

Hólmgeir Karlsson, 2.1.2008 kl. 22:18

21 Smámynd: Ingólfur

Já slæmur þessi rógburður um litla kirkjusókn.

Mér skilst að hann sé kominn frá Gallúp sem segir að 43% þjóðarinnar fari aldrei í almenna guðþjónustu og að önnur 33% fari 3 eða sjaldnar á ári.

Auðvitað eru kirkjurnar ekki galtómar, sérstaklega ekki á aðventunni þegar öll grunnskólabörn eru dregin þangað, en hins vegar er það augljóst að kirkjusókn íslendinga væri til skammar ef satt væri að 90% þjóðarinnar væru kristinn.

Því ætti það í sjálfu sér að vera léttir fyrir preststéttina að aðeins um helmingur þjóðarinnar er kristinn. 

Ingólfur, 2.1.2008 kl. 22:39

22 Smámynd: Svavar Alfreð Jónsson

Auðvitað fer þessi færsla mín í taugarnar á sumum og kannski þá helst þeim sem duglegastir hafa verið við rógburðinn um allar tómu kirkjuhallirnar.

Það er hins vegar rétt hjá Ingólfi Harra að Íslendingar mættu vera duglegri við að sækja messur á öðrum tímum en í kringum stórhátíðir.

Þó fer fleira fram í kirkjunum en messurnar og þær eru langt frá því eini mælikvarðinn á starf kirkjunnar.

Grunnskólabörnin eru svo ekki dregin í kirkjuna - svo ég leiðrétti þann misskilning. Frumkvæðið að heimsóknunum kemur frá skólunum.

Annar misskilningur: Um 90% íslensku þjóðarinnar er kristinn, tilheyrir kristnu trúfélagi, nýtir sér þjónustu síns trúfélags og telur sig eiga þar heima.

Svavar Alfreð Jónsson, 2.1.2008 kl. 22:50

23 Smámynd: Jón Steinar Ragnarsson

Þú fullyrðir í greininni Svavar að einhver ímynduð aðför að Þjóðkirkjunni, hafi vakið fólk til vitundar. Þú segir raunar að skýringarnar geti verið margar en velur þessa heimatilbúnu skýringu.  Það eina, sem ég var að benda á að athuga hinar skýringarnar og set því fram nokkrar spurningar, sem mér finnst eðlilegar.  Þú telur það kannski aðför líka? 

Auðvitað ertu að hagræða staðreyndum, þegar þú tiltekur eina hentuga ástæðu umfram aðrar.  Með fyllstu virðingu Svavar, er það rógur að segja að kirkjur landsins séu meira eða minna tómar?  Þú tiltekur óútskýrðar aðsóknartölur í annasamasta mánuði ársins og dregur þá ályktun að það sé vísir um  trúarlega vakningu.  Finnst þér þetta ekki bera neinn keim af hlutdrægni?  Það er ekki meiningin að særa sómatilfinningu þína, en mér þó ekki sæma manni í þinni stöðu að vera ekki nákvæmari með staðreyndirnar.

Það er einmitt svona málflutningur, sem og viðbrögð þín við andmælum, sem eru að grafa undan trúverðugleika ykkar.  Sparaðu stóru orðin minn kæri og sýndu smá staðfestu og jafnvægi, svo ég ráði þér heilt.

Jón Steinar Ragnarsson, 2.1.2008 kl. 22:54

24 Smámynd: Svavar Alfreð Jónsson

Aðförin að Þjóðkirkjunni er engin ímyndun, Jón Steinar.

Lastu ekki blöðin síðustu mánuðina? Eða bloggið?

Eða þínar svívirðingar, m. a. hér á þessu bloggi, í minn garð og trúsystkina minna, þar sem þú meðal annars sakar mig um mannát?

Svo þykist þú vera í einhverri aðstöðu til að ráða mér heilt um varfærni í orðalagi!

Ég hef ekki verið með nein stór orð hér og er í ágætu jafnvægi.

Eins og ég segi í færslunni eru margar skýringar á góðri aðsókn að kirkjunni minni í desember.

Ein er held ég mikil umræða, óvægin, jafnvel hatrömm, um kirkju og kristni.

Ég tók ekkert eina skýringu umfram aðra, heldur valdi að benda á hana sérstaklega - og þá að starf kirkjunnar verður sífellt fjölbreyttara og höfðar til fleiri.

Já, það er rógur að segja að kirkjur landsins séu meira og minna tómar.

Og hvergi talaði ég um trúarlega vakningu í þessari færslu.

Svavar Alfreð Jónsson, 2.1.2008 kl. 23:10

25 Smámynd: Ingólfur

Svarar, þú lokar pistli þínum á orðunum: "en séu veitt andsvör upphefst gjarnan mikill grátkór þar sem kvartað er undan "árásum á trúleysingja"."

En hver er sífellt að kvarta undan meintum árásum, rógsherferð og aðförum?

Ingólfur, 2.1.2008 kl. 23:26

26 Smámynd: Jón Steinar Ragnarsson

Ertu nú ekki að dramatísera soldið. Það eina sem ég talaði um í þeirri athugasemd var að það er margt í þessu ritúali ykkar, sem er algerlega ofviða skilningi fólks, hvað þá unglinga og barna og þar tók ég til t.d. át á Blóði og líkama Krists, sem aldrei hefur verið útlistað fullnægjandi fyrir mér, né nokkrum sem ég þekki. Sama gildir um þríeinan Guð og hvað annað, sem er haft um hönd í þessu skikki.  Ég var hreinlega að játa fáfræði mína um þessi efni, þó svo að ég sé ágætlega lesinn í Biblíunni.

 Hvernig dettur þér í hug að segja að ég hafi sakað þig persónulega um mannát?  Ertu virkilega í jafn miklu jafnvægi og þú villt vera láta?  Eru það árásir að setja spurningamerki við ákefð ykkar að innræta óvitum um allskyns óstaðfestar og jafnvel afsannaðar fabúlur?  T.d. Jólaguðspjallið sjálft, sem Kaþólskan hefur meira að segja játað að haldi ekki vatni.

Þú segir í færslunni:...aðförin að Þjóðkirkjunni hefur vakið fólk til vitundar um mikilvægi hennar.  Hverskonar vakningu er þá um að ræða, ef ekki trúarlega? Hvað annað felst í svokölluðu mikilvægi Þjóðkirkjunnar?

Ég er ekki að ráðast á þig, en ég er sannarlega þeirrar skoðunnar að fólk er orðið uggandi um stefnu trúarstofnana í heimi hér og afskiptum þeirra að stjórnmálum, sem í gegnum tíðina hefur aldrei sýnt sig annað en að vekja harma, stríð og úlfúð.  Ertu viljandi að miskilja málflutninginn?  Ertu kannski bara hræddur um djobbið þitt?  Finnst þér virkilega óeðlilegt að aðskilja trúarbrögð og stjórnsýslu?  Hefur mannskepnan sýnt það traust af sér að geta höndlað það samkrull í gegnum tíðina.

Ég vil svo þakka þér fyrir að birta athugasemdir mínar. Það er meira en flestir af þínum trúbræðrum leyfa hér.  Þú þekkir skrif mín eitthvað og það eina sem ég geri í þeim er að spyrja spurninga um ýmislegt, sem fólki hefur fundist sjálfgefið og ekki hugsað frekar um.  Ég leitast við að skilja umheiminn fyrir mig og viðurkenni að ég er algerlega blankur, þegar kemur að réttlætingum kirkjunnar.  Fyrir það er ég kallaður, rógberi, umsátursmaður og árásarmaður, trúleysingi og jafnvel föðurlandsvikari.  Hvar er umburðarlyndið í því?  Ég tel mig ekki vera neitt af þessu. 

Það hefur lítið breyst frá því að mér var hent út úr Ísafjarðakirkju, sem barni fyrir að krefjast fullnægjandi svara um þríeinan Guð, Lífsins Kórónu og eilíft líf.

Jón Steinar Ragnarsson, 2.1.2008 kl. 23:35

27 Smámynd: Svavar Alfreð Jónsson

Það sem þú sagðir í athugasemd hér á blogginu fyrir stuttu var eftirfarandi:

"Þið þurfið að fara að setjast niður og hætta þessum þykistuleik og fara að segja sannleikann en ekki boða það sannleika, sem þið haldið eða trúið. Farið bara að segja satt.

Skoðið bara bullið um þríeinan guð og lífsins kórónu, blóð og líkama krists og allt það mannát."

Varstu kannski ekki að tala til mín í þessum orðum? Finnst þér þetta málefnalegt? Finnst þér eðlilegt að tala svona um það sem öðrum er heilagt -finnst þér þú hafa til þess rétt vegna þess að þú skilur það ekki?

Telurðu þér trú um að þessi setning þín hér að ofan "ákefð ykkar að innræta óvitum um allskyns óstaðfestar og jafnvel afsannaðar fabúlur" sé engin árás? Heldur einungis saklaus spurning?

Mikilvægi Þjóðkirkjunnar liggur ekki einungis á hinu trúarlega sviði. Íslenska Þjóðkirkjan hefur líka menningarlegt gildi og "umræðan" síðustu vikurnar hefur kannski ekki síst gert fólki það ljóst. Hún er mikilvægari hluti þjóðlífsins en margir halda.

Og Ingólfur Harri: Ekki kannast ég við það að vera sífellt kvartandi undan árásum ykkar, þrátt fyrir að hafa verið sakaður um greindarskort, takmarkað siðferði, lygar, að blekkja óvita - og jafnvel að éta menn - en einhverjum kynni nú að svelgjast á slíkum trakteringum.

Svavar Alfreð Jónsson, 3.1.2008 kl. 00:04

28 Smámynd: Jón Steinar Ragnarsson

Við skulum bara leyfa þessu að standa sem vitnisburð um argumentið.  Ykkur er of gjartn á að snúa ykkur frá spurningum og rökræðum, með að draga fram móðgunarspilið.  Leyfum fólki bara að dæma. 

Ég er ekki að reyna að taka frá þér trú þína, en þar sem þú vinnur við að boða þetta orð, þá ættir þú að geta útskýrt það kristaltært fyrir óvitunum. Ég hef hinsvegar aldrei séð það gert. Menn hafa bara móðgast...end of story. Guð hefur aldrei talað við mig eða þig, né staðfest tilvist sína fyrir nokkrum manni, svo snnanlegt sé. Ef ég hef rangt fyrir mér með því og þú hefur breiðbandið þarna upp, þá biddu hann að slá á þráðinn til mín, því ég á ýmislegt vantalað við hann varðandi fulltrúa hans hér á jörð.

Jón Steinar Ragnarsson, 3.1.2008 kl. 00:24

29 Smámynd: Ingólfur

Mér fannst við vera á réttri leið hérna fyrr í kvöld þegar við vorum sammála um að trúarbragðafræði eigi ekki að vera innræting.

Þetta er hellsta krafa trúleysingja.

Hvers vegna ekki að taka undir hana og leggja því lið að þetta verði tryggt? Það eru fjölmörg dæmi um beina innrætingu í skólunum en þeir sem gagnrýna það eru sakaðir um hatrammar árásir á kristni.

Já við sleppum nú uppnefnin og ásakanirnar og jafnvel dómsmálaráðherrann telur trúleysingja minni íslendinga en þá sem eru kristnir.

Ég hefði talið það eftir merki um "kristið siðgæði" að leitast við að laga órétti hver sem fyrir því verður, jafnvel þó maður hafi fengið eitthver ónot frá þeim, enda á maður að elska óvin sinn eins og sjálfan sig.

Ingólfur, 3.1.2008 kl. 00:39

30 Smámynd: Svavar Alfreð Jónsson

Ég skal glaður rökræða við þig, Jón Steinar - en sé nú ekki mikinn rökræðusvip á mörgu á því sem hér birtist - meðal annars frá þér.

Ég er alls ekki móðgaður - nema þá kannski fyrir hönd rökræðunnar - fyrir að orða svona málflutning við hana.

Svavar Alfreð Jónsson, 3.1.2008 kl. 00:41

31 Smámynd: Svavar Alfreð Jónsson

Ég skal glaður leggja þér lið, Ingólfur Harri, við að rétta hlut þeirra sem ranglæti þola.

Hvorki trúarbragðafræði né kristinfræði eiga að vera innræting. Ekki einungis við erum sammála um það. Það er eindregin stefna skólans og ég sé ekki betur en að það sé einnig stefna Þjóðkirkjunnar því þar á bæ hefur margoft komið fram að allt starf í skólum landsins eigi að vera á þeirra forsendum.

Það sem við eigum eftir að gera, Ingólfur Harri, er að finna út muninn á innrætingu eða boðun annars vegar og fræðslu hins vegar.

Svoleiðis hugleiðingar gætu hugsanlega orðið einhvers konar rökræða eða samræða. Og spennandi verkefni.

Og efni í nýjan þráð.

Svavar Alfreð Jónsson, 3.1.2008 kl. 00:52

32 identicon

Voðalegt þetta fólk sem segir að það séu fáir í kirkjum. Til dæmis þessi Karl:

Oft hlýtur presturinn að spyrja sig: "Til hvers? Hér er ég að semja prédikun, velja sálma, standa í ströngu að koma á messu, og svo mæta aðeins nokkrar manneskjur. Til hvers er ég að leggja þetta á mig?

Óli Gneisti (IP-tala skráð) 3.1.2008 kl. 06:17

33 Smámynd: Svavar Alfreð Jónsson

Ég þakka Óla Gneista fyrir að vísa í þetta ágæta erindi Karls. Þó að ég sé ánægður með aðsókn að helgihaldi núna í desember þekki ég líka þá tilfinningu sem biskup lýsir hér að ofan.

Reyndar segir Karl líka í þessu erindi (sem Óli Gneisti kýs síður að birta):

"Ég veit vel að víða eru messur helgidagsins vel sóttar, messur, helgihald sem borið er uppi af prestum sem vita hvað þeir eru að gera og til hvers, og hrífa með sér til samstarfs og þátttöku. "

Svavar Alfreð Jónsson, 3.1.2008 kl. 09:06

34 Smámynd: Jón Steinar Ragnarsson

Rökræður gætu t.d. byrjað með því að þú svaraðir fjölmörgum spurningum, sem ég hef sett fram hér. Rökræður gætu einnig falist í því að hrekja fullyrðingar, sem ég hef hér um að þið sælist eftir óvitum og að margt í efni ykkar eru fabúlur, eins og ég segi.  Þetta kallar þú hinsvegar árásir og móðgast og þar við hefur setið. Lestu í gegnum kommentin og hvernig þú svarar ölliu í þóttafullum skætingi.  Rökræður gætiu einnig falist í að skýra þessi hugtök, sem ég nefni og segist ekki skilja.

Innræting og boðun er að halda fram einhverju, sem algildum sannleika, sem í besta falli er óstaðfestanlet og afstætt.  Fræðsla er kennsla á efni, sem byggja á staðreyndum og praktískum reglum S.S. landafrði, stærðfræði, tungumál, etc.  Innræting og óttaprang á ekki heima í skólum og ég er viss um að þú myndir líta það hornauga ef sumir "Kristnir" hópar fengju að boða sinn skilning á bókinni miklu.  Hópar, sem jafnvel eru meðmæltir aðskilnaði ríkis og kirkju og hópar, sem telja Páfann sjálfann vera Antikrist. (7.dags aðv. t.d.)

Ruglandi og afstæð innræting um rök lífsins er ekki námsefni. Enginn sér þetta sömu augum hér í heimi.  Það yrði samt verðugt kennsluefni að segja sögu trúarbragða í heiminum og draga ekkert undan.  Slíkt efni væri þó tæplega hæfandi börnum og viðkvæmum sálum hugsa ég.

Jón Steinar Ragnarsson, 3.1.2008 kl. 09:12

35 Smámynd: Jón Steinar Ragnarsson

Annars er þessi umræða komin talsvert út fyrir efni greinarinnar, eins og oft vill verða´, þegar fátt er um svör.  Við getum allavega verið sammála um það að kenna beri börnum, siðgæði, framkomu og hegðun, sem menn aru sammála um að hafi reynst einstaklingum og samfélögum vel.  Hvort þessi innræting er óaðskiljanleg frá Kristnu dogma, er hinsvegar hrópandi álitamál og tel ég það vera kjarna þessarar umræðu.  Þar komast þó engir lönd né strönd með ykkur prestana. 

Jón Steinar Ragnarsson, 3.1.2008 kl. 09:23

36 Smámynd: Svavar Alfreð Jónsson

Ef til vill eru það rökræður að þínu mati að svara skætingi þínum-  eins og þeim að ég sé sólginn í óvita - en þá skaltu standa í slíkum rökræðum við einhvern annan en mig.

Teljir þú svör mín bera vott um að ég hafi móðgast verður bara svo að vera. Ég vitna í þig: "Enginn sér þetta sömu augum hér í heimi."

Reyndar tel ég ýmislegt benda til þess að þú lesir ekki einu sinni það sem ég skrifa. Það er erfitt að standa í rökræðum við svoleiðis menn. Hér hefur til dæmis margoft komið fram sú skoðun mín að starf skólans eigi ekki að hafa innrætingu að markmiði.

Svavar Alfreð Jónsson, 3.1.2008 kl. 09:27

37 Smámynd: Svavar Alfreð Jónsson

Hér að ofan á að standa: "Hér hefur til dæmis margoft komið fram sú skoðun mín að fræðslustarf skólans eigi ekki að hafa innrætingu að markmiði."

Skólar landsins gegna uppeldishlutverki og eiga að innræta börnunum ákveðin gildi, . t. d. virðingu  og umburðarlyndi.

Rannsóknir hafa sýnt að því skýrari sem uppeldisleg markmið skólanna eru því betri eru skólarnir og ná meiri árangri.

Svavar Alfreð Jónsson, 3.1.2008 kl. 09:41

38 Smámynd: Matthías Ásgeirsson

"Hér hefur til dæmis margoft komið fram sú skoðun mín að starf skólans eigi ekki að hafa innrætingu að markmiði."

Hvernig útskýrir þú þá þessa endalausur dylgjur þínar gegn þeim sem berjast gegn því að í skólum landsins sé verið að innræta kristni?

Af hverju tekur þú ekki bara undir með okkur þegar við förum fram á að prestar hætti að stunda kristniboð í leikskólum?

Af hverju skrifar þú ekki blaðagrein og ferð fram á að Vinaleið Þjóðkirkjunnar fari úr grunnskólunum?

Af hverju prédikar þú ekki dylgjur um þá sem standa fyrir þessu trúboði í stað þess að prédika dylgjur um þá sem mótmæla því?

Svo reynir séra Svavar að halda því fram að ég sé í mótsögn við sjálfan mig.  Þetta væri hlægilegt ef þetta væri ekki svona fjandi sorglegt.

Matthías Ásgeirsson, 3.1.2008 kl. 12:50

39 Smámynd: Guðmundur Örn Jónsson

Langar bara að benda reiknimeistaranum Jóni Frímanni á að á Akureyri eru tvær stórar kirkjur, Akureyrarkirkja og Glerárkirkja. Ég geri fastlega ráð fyrir því að Svavar sé bara að tala um "sína" kirkju, þ.e. Akureyrarkirkju.

Guðmundur Örn Jónsson, 4.1.2008 kl. 00:26

40 Smámynd: Greta Björg Úlfsdóttir

Svavar, ég skil ekkert í þér að nenna að þrasa endalaust við þessa menn.

Kannski er þar náungakærleikurinn að verki, að vilja leiða þá í allan sannleikann um mikilvægi kristinna gilda?

Það held ég að þér takist seint, í það minnsta ekki hér á moggablogginu. Ég held að þetta sé því miður sóun á tíma og orku hjá þér.

Þú ræður hvort þú birtir þetta.  

Greta Björg Úlfsdóttir, 4.1.2008 kl. 00:38

41 Smámynd: Svavar Alfreð Jónsson

Greta: Það er ábyggilega mikið til í þessu hjá þér, Greta, að tíma manns væri betur varið í annað en þetta þras.

Blogginu mínu er nú samt ekki ætlað að leiða fólk í "allan sannleika um mikilvægi kristinna gilda". 

Hér tjái ég skoðanir mínar og hugsanir um hitt og þetta. Mér finnst ekki nema gott að fólk bregðist við því á málefnalegan hátt, hvort sem menn taka undir það sem ég segi eða ekki.

Sjái ég ástæðu til að leiðrétta rangfærslur á skrifum mínum geri ég það og einnig finnst mér sjálfsagt að skýra mál mitt betur þegar tilefni gefast eða svara spurningum sem málinu tengjast og til mín er beint.

Stundum ber það örlítinn árangur. Ég sé til dæmis ekki betur en við Ingólfur Harri höfum nálgast hvor annan pínulítið hér þótt ekki séum við beinlínis skoðanabræður. Það er hið besta mál.

Svavar Alfreð Jónsson, 4.1.2008 kl. 08:35

42 identicon

Sæll Svavar. Ég rakst óvart inn á síðuna þína og haf lesið með athygli og undrun á "ovenstående". Og skrifa under orð Hólmgeirs Karlssonar. Mig langaði bara að óska þér og fjölskyldu gæfuríks árs og þakka gömul og góð kynni. Ég vona að þið hafið það gott.

Sigga (Ellusystir)

Sigga Hauks (IP-tala skráð) 4.1.2008 kl. 08:56

43 Smámynd: Jóhanna Magnúsar- og Völudóttir

Varðandi athugasemd Grétu: Getur ekki verið að Svavar sé að sinna ,,hinum týndu sauðum" ..   .. ekki koma þeir að hlusta í kirkjunni! Voðalega væri nú annars gott ef öll dýrin í skóginum gætu verið vinir, en það gengur víst seint upp.

Jóhanna Magnúsar- og Völudóttir , 4.1.2008 kl. 10:21

44 identicon

Svavar Alfreð skrifar:
 

"Annar misskilningur: Um 90% íslensku þjóðarinnar er kristinn, tilheyrir kristnu trúfélagi, nýtir sér þjónustu síns trúfélags og telur sig eiga þar heima."

Þú ert sem sagt á þeirri skoðun Svavar að ekki þurfi að trúa því að Jesú sé sonur Guðs og frelsari mannkyns til að teljast kristin einstaklingur?

Arnold Björnsson (IP-tala skráð) 4.1.2008 kl. 10:24

45 Smámynd: Svavar Alfreð Jónsson

Fyrirgefðu, Arnold, þú varst búinn að bera fram þessa spurningu áður en ég gleymdi að svara.

Ég tel að fólk geti haft ýmsar ástæður fyrir því að kalla sig kristið.

M. a. menningarlegar (cultural christianity). Er reyndar að lesa örlitla bók um það fyrirbæri og skal blogga um hana þegar ég lýk lestrinum.

Svavar Alfreð Jónsson, 4.1.2008 kl. 10:29

46 Smámynd: Greta Björg Úlfsdóttir

Svavar, eftir því sem ég hef kynnst Ingólfs Harra af skrifum hans, þá er hann hófsamur í skoðunum og setur þær yfirleitt fram á mjög málefnalegan hátt. Því miður er ekki hægt að segja það sama um marga aðra sem skrifa um þessi mál.

Það er auðvitað alveg sjálfsagt að reyna að leiðrétta fólk sem misskilur það sem maður segir. En stundum veltir maður fyrir sér hvort maður sé ekki hreinlega viljandi misskilinn, það er að segja að "andstæðingurinn" lokið augunum hreinlega fyrir þeim mótbárum sem maður kemur með, vegna þess að það hentar hans skoðun betur að sjá ekki hvað maður á við. Svo fastir eru sumir á sínu. Halldór Laxness kallaði þetta að ganga með steinbarn í maganum. Þá er auðvitað þakkarvert ef einhver vill taka að sér ljósmóðurstörf, skyldi einhvern tíma koma að fæðingu. 

Mig langar að benda þér á grein sem ég skrifaði í bloggið mitt um húmanisma og trú. (Hún lendir að vísu í bloggflokkum sem grein um vísindi og fræði, sem ég merkti við sem aukaflokk, en ekki trúarbrögð. Í trúarbragðaflokkinum lendir færsla um lendingu flugvéla í hliðarvindi! )

Ég vil taka það fram að síst er ég andsnúin kristinni trú, þó svo sumir sem telja sig sannkristna, og einnig, svo merkilegt sem það er, einn og einn trúleysingi, hafi sagt mér að ég sé alls ekki kristin, það er að segja samkvæmt þeirra skilningi. Enda tel ég mig, eins og oft hefur komið fram í skrifum mínum, trúaða, en samt ekki hallari undir ein trúarbrögð en önnur. Eins og ein góð vinkona mín minnti á í athugasemd við færslu hjá mér, þá er þetta tvennt trauðla það sama, og í sumum tilvikum alls ekki það sama.

Ég leyfi mér að gagnrýna ýmislegt varðandi þjóðkirkju landsins, þar sem mér þykir staða hennar að ýmsu leyti of/alltof óljós, sérstaklega þegar kemur að því hvort hún sé/eigi að vera ríkiskirkja eða ekki. Bendi í þessu sambandi á færsluna mína sem ég nefndi "Esaú" og stöðu sem mér finnst að hljóti að vera prestum hennar erfið á stundum.

Greta Björg Úlfsdóttir, 4.1.2008 kl. 12:22

47 Smámynd: Greta Björg Úlfsdóttir

Þetta sem ég sagði í fyrri athugasemd minni er skýringin, þyki þér og einhverjum þeirra sem andmæla þér hér þykja ég beggja blands og snúast eftir því sem vindurinn blæs. Það er alls ekki mitt eigið álit að svo sé, heldur er mér gjarnara að fylgja sannfæringu minni heldur ern að samsama mig einum hópi frekar en öðrum. Það er skýringin, ekki flóknara en það.

Langaði að koma þessum skýringum hér að, sem ég vona þó að það leiði ekki til þess að menn taki til við að diskútera mína persónu, heldur haldi sér áfram við málefnið. 

Greta Björg Úlfsdóttir, 4.1.2008 kl. 12:34

48 Smámynd: Greta Björg Úlfsdóttir

Biðst velvirðingar á villum í texta mínum, sem ég hef greinilega ekki vandað nóg til hvað varðar yfirlestur eftir breytingar á honum. Vona að hann skiljist samt sem áður.

Greta Björg Úlfsdóttir, 4.1.2008 kl. 12:47

49 Smámynd: Matthías Ásgeirsson

Gréta skrifar:

Það er auðvitað alveg sjálfsagt að reyna að leiðrétta fólk sem misskilur það sem maður segir. En stundum veltir maður fyrir sér hvort maður sé ekki hreinlega viljandi misskilinn, það er að segja að "andstæðingurinn" lokið augunum hreinlega fyrir þeim mótbárum sem maður kemur með, vegna þess að það hentar hans skoðun betur að sjá ekki hvað maður á við.

Gréta, gerir þú þér grein fyrir því að þetta á við skrif Svavars um okkur trúleysingja?  Það er nákvæmlega þetta sem við erum að mótmæla hér á síðu hans, þessi endalausa þráhyggja hans sem birtist í því að hann mistúlkar allt viljandi til að mála upp villandi mynd af málstað okkar - eins og dæmið með kristnifræðikennslu og litlu jólin sýnir aftur og aftur. 

Matthías Ásgeirsson, 4.1.2008 kl. 16:13

50 Smámynd: Svavar Alfreð Jónsson

Arngrímur: Athugasemd þinni var ekki eytt - ég átti bara eftir að samþykkja hana.

Ég held að menn geti haft ýmsar ástæður til að telja sig kristna - svo ég endurtaki það.

Menn geta líka talið sig trúaða með margvíslegum rökum.

Ég held að börn geti verið alveg þokkalega kristin án þess að gera sér grein fyrir guðfræðilegum útlistunum á því hugtaki.

Svavar Alfreð Jónsson, 4.1.2008 kl. 17:00

51 Smámynd: Svavar Alfreð Jónsson

Hins vegar var ég rétt í þessu að hafna athugasemd.

Ég sá ekki að hún kæmi því við sem hér er verið að ræða. Auk þess tók höfundur fram að hún hefði þegar birst á annarri bloggsíðu.

Ég held að hún sé best geymd þar.

Svavar Alfreð Jónsson, 4.1.2008 kl. 17:04

52 Smámynd: Greta Björg Úlfsdóttir

Matti, sjálfsagt á þessi málsgrein mín við á báða bóga, enda hef ég lent í því að verða að hálfgerðum stuðpúða hér umræðunni, sbr. umræðu á bloggi Sigurðar Þ. Guðjónssonar um kristin gildi, þó trúleysingjar hafi þar frekar borið blak af mér en hitt!

Greta Björg Úlfsdóttir, 4.1.2008 kl. 17:15

53 Smámynd: Matthías Ásgeirsson

"Menningarlega kristinn" er marklaust í þessari umræðu allri og það veit Svavar vel.

Hver er eiginlega tilgangurinn með því að flækja umræðunni með því að draga inn í hugtakið "kristinn" fólk sem ekki trúir á nokkuð af því sem fellur undir trúarkenningar kristinnar kirkju?

Ég skal svara spurningunni sjálfur.

Tilgangurinn er sá að þurfa ekki að játa að maður hafi rangt fyrir sér.  Í staðin er farið í það að endurtúlka hugtök (kristinn/trúboð/ábyrgð) á þann máta að maður hafi áfram rétt fyrir sér.  Þannig er trúboð ekki lengur trúboð því börnin eru kristin og því í raun um að ræða "fræðslu".  Börnin eru kristin vegna þess að þau eru skírð.  Ábyrgð á trúboð í skólum liggur ekki hjá kirkjunni sem sækist hart eftir að komast inn í skólana, heldur hjá skólunum sem gefa eftir og hleypa kirkjunni inn.

Hver er eiginlega tilgangur umræðu á þessu stigi?

Við sjáum þetta líka í öðrum þræði hér hjá Svavari þar sem kollegi hans rembist eins og rjúpan við staurinn við það að skilgreina trúleysi sem bókstafstrú (og gefa því þar með neikvæðan stimpil).  

Matthías Ásgeirsson, 4.1.2008 kl. 17:51

54 identicon

Svavar Alfreð skrifar: 

"Ég tel að fólk geti haft ýmsar ástæður fyrir því að kalla sig kristið.

M. a. menningarlegar (cultural christianity). Er reyndar að lesa örlitla bók um það fyrirbæri og skal blogga um hana þegar ég lýk lestrinum."

Svavar, hér er einn sem er cultural christian. Þú hlýtur að taka honum fagnandi í þinn hóp

Svavar, það þarf sem sagt ekki að trúa því að Jesú sé sonur guðs... til að teljast kristin einstaklingur ef ég skil þig rétt.

Arnold Björnsson (IP-tala skráð) 4.1.2008 kl. 18:05

55 Smámynd: Svavar Alfreð Jónsson

Matthías, ekki er nóg með að þú vitir alla skapaða hluti betur en aðrir, þú veist hvað aðrir vita!

Hugtakið "kristin menning" er svo sannarlega ekki merkingarlaust hugtak í þessari umræðu. Heldur ekki það að telja sig kristinn af því að maður tilheyrir slíkri menningu.

Og séra Þórhalli gengur sýnist mér bara vel að sýna fram á að trúleysi geti verið ákveðin tegund bókstafstrúar.

Umræður hans og Teits Atlasonar eru í athugasemdum við pistilinn minn um Jesú og Hórus.

Af umræðunum hér sé ég ekki betur en að trúleysi taki stundum á sig form þráhyggjuofsatrúar.

Svavar Alfreð Jónsson, 4.1.2008 kl. 18:05

56 Smámynd: Svavar Alfreð Jónsson

Arnold, við skálum fyrir Ríkharði í kvöld!

Svavar Alfreð Jónsson, 4.1.2008 kl. 18:14

57 Smámynd: Greta Björg Úlfsdóttir

Segi það nú, gaman að lesa að Ríkharður er ekki fanatískur varðandi jólahald og finnst gaman að syngja jólalög!

Greta Björg Úlfsdóttir, 4.1.2008 kl. 19:07

58 Smámynd: Greta Björg Úlfsdóttir

En mikið eigum við gott að geta haldið upp á "JÓL", sem allir eiga að geta sameinast um sem miðsvetrarhátíð, en ekki "Kristsmessu", sem óneitanlega hlýtur vera kristinnar hátíð, að minnsta kosti að nafninu til.

Greta Björg Úlfsdóttir, 4.1.2008 kl. 19:13

59 Smámynd: Matthías Ásgeirsson

Matthías, ekki er nóg með að þú vitir alla skapaða hluti betur en aðrir, þú veist hvað aðrir vita!

Þetta er þín taktík, það eru allir farnir að sjá.

Hugtakið "kristin menning" er svo sannarlega ekki merkingarlaust hugtak í þessari umræðu. Heldur ekki það að telja sig kristinn af því að maður tilheyrir slíkri menningu.

 Jú, það er algjörlega merkingarlaust kjaftæði.  Það er á engan hátt gagnlegt, nema fyrir þá sem vilja blekkja fólk og reyna á einhvern hátt að réttlæta sérstöðu sína með vísun í að fleiri séu kristnir en eru það í raun.

Þetta snýst nefnilega allt saman um gullpeninga þegar allt kemur til alls. 

Matthías Ásgeirsson, 4.1.2008 kl. 20:46

60 Smámynd: Ingólfur

Svavar, ertu til í að útskýra þessi orð þín:

"Annar misskilningur: Um 90% íslensku þjóðarinnar er kristinn, tilheyrir kristnu trúfélagi, nýtir sér þjónustu síns trúfélags og telur sig eiga þar heima."

Ég skildi þetta þannig að þú værir að segja að það væri misskilningur að 90% íslensku þjóðarinnar væri kristin en ég er ekki lengur viss, sérstaklega þegar þú segir að eitthver sé kristinn við það eitt að telja sig tilheyra "kristinni" menningu.

Mér finnst þetta satt að segja farið að minna svolítið á skoðun Dóms- og kirkjumálaráðherra um að þeir sem ekki eru kristnir séu minni íslendingar en hinir kristnu.

Að vera kristinn hélt ég að vera frekar vel skilgreint en miðað við þá skilgreiningu sem ég þekki passar hún ekki við 90% íslendinga.

Ég tel t.d. að ansi margir íslendingar séu sporum Grétu vinkonu okkar, að trúa því sem þeir sjálfir kjósa og finnst sennilegt og rétt en taka ekki trúarbrögð upp hrá. Margir þeirra hafna grundvallar kennisetningum kristninnar og þó þeir telji sig sumir kristna að þá geta þeir ekki verið það samkvæmt skilgreiningu kristninnar.

Vil samt taka það fram Gréta að ég virði slíka trú miklu meira en trú þeirra sem aðhyllast fyrirfram skilgreind trúarbrögð.

En endilega komdu afstöðu þinni á hreint fyrir mig Svavar.

Ingólfur, 4.1.2008 kl. 23:53

61 identicon

Svavar, af því að þú vilt ekki svara spurningunni afdráttarlaust að þá spyr ég þig, hvernig heldur þú að Jesú hefði svarað henni? Hefði hann sætt sig við að fólk teldi sig kristið fólk ef það teldi hann ekki vera son guðs og frelsara mannkyns?

Mig er farið að gruna að þú sért þeirra skoðunar að það eitt að fæðast í landi þar sem kristni er ríkistrú með kristna ríkiskirkju að þá sé viðkomandi kristinn einstaklingur. Ég er því kristinn þó ég sé ekki skráður í ríkiskirkjuna og tek ekki undir kennisetningar þessarar sömu kirkju.

Dawkins myndi t.d. teljast til kristinna einstaklinga hefði hann fæðst á Íslandi. Skoðanir hans á trúarbrögðum hefðu engin áhrif þar á.

"Cultural christianity" eins og ég hef kynnt mér  felur að einhverju leiti í sér guðstrú, ég og Dawkins föllum því varla inna þeirrar skilgreiningar, ég gæti þó haf rangt fyrir mér.

Annar finnst mér þetta komið út í tóma vitleysu þegar hægt er að hafna því sem Jesú boðaði en teljast samt kristinn.

Arnold Björnsson (IP-tala skráð) 5.1.2008 kl. 12:30

62 Smámynd: Ingólfur

Svavar, ertu til í að svara þettu fyrir mig?

(Þú mátt sleppa að birta þessa athugasemd) 

Ingólfur, 5.1.2008 kl. 16:17

63 Smámynd: Ingólfur

Ertu ekki í það minnsta til í að segja okkur hvort von sé á svari frá þér?

Ingólfur, 5.1.2008 kl. 23:34

64 Smámynd: Svavar Alfreð Jónsson

Fyrirgefið drátt á svörum. Ég hef svo sem ekki miklu að bæta við fyrri.

Tel að fólk geti haft ýmsar ástæður fyrir því að telja sig kristið - en auðvitað verður enginn talinn kristinn gegn vilja sínum við það eitt að búa í landi þar sem kristin menning er ríkjandi.

Þegar ég stend andspænis skapara mínum á ég síður von á því að hann dragi fram próf í trúfræði og leggi fyrir mig.

Fólk er á ýmsum stöðum í sínum trúarlega þroska og leit. Ekkert er óeðlilegt við það.

Þeir sem telja sig hafa fundið öll svör og sannleikann í eitt skipti fyrir öll hætta að leita og þroskast. Það er finnst mér ekki góður kristindómur.

Guð fer ýmsar leiðir og kristinn maður er ævina alla að verða kristinn.

Svo skal ég blogga um bókina sem ég nefndi þegar ég er búinn að lesa hana.

Svavar Alfreð Jónsson, 6.1.2008 kl. 00:21

65 Smámynd: Ingólfur

Afsakaðu þrjóskast við í sambandi við þetta en ég er bara að reyna að koma þessu á hreint:

Telurðu að eftirfarandi sé misskilningur (ekki rétt) eða að það sé leiðrétting á eitthverjum misskilingi (semsagt hið rétta):

"Um 90% íslensku þjóðarinnar er kristinn, tilheyrir kristnu trúfélagi, nýtir sér þjónustu síns trúfélags og telur sig eiga þar heima."

Ingólfur, 6.1.2008 kl. 00:40

66 Smámynd: Svavar Alfreð Jónsson

Ég hef enga ástæðu til að ætla annað en að allur þorri þeirra sem tilheyra kristnum trúfélögum - um 90% þjóðarinnar - vilji vera þar.

Þeir geta svo haft ýmsar ástæður fyrir því að vilja vera þar.

Svo er alls ekki loku fyrir það skotið að ýmsir þeirra sem ekki tilheyra kristnum trúfélögum telji sig samt kristna.

Ég veit reyndar um nokkra þannig.

Svavar Alfreð Jónsson, 6.1.2008 kl. 00:48

67 Smámynd: Ingólfur

Ok þá er þetta á hreinu. Ég hafna hins vegar þessari kenningu alfarið. Bæði vegna þess að flestir trúleysingjar sem ég þekki eru enn skráðir í Þjóðkirkjuna og vegna þess að trúarlífskönnun þjóðkirkjunnar segir aðra sögu.

Ingólfur, 6.1.2008 kl. 01:08

68 Smámynd: Svavar Alfreð Jónsson

Hin trúarlega flóra er nú býsna fjölskrúðug og sá jurtagarður er langt frá því að vera svarthvítur. Skilin á milli trúar og trúleysis eru kannski ekki jafn skörp og margir halda. Mér kemur þess vegna ekki á óvart að margir trúleysingjar séu í Þjóðkirkjunni þrátt fyrir að vasklega hafi verið gengið fram í því af þeim sem telja sig tala fyrir þeirra munn að fá þá og aðra til að segja sig úr henni.

Mér finnst ekkert að því að kalla þá kristna sem tilheyra kristnu trúfélagi af fúsum og frjálsum vilja.

Og ef til vill er í einhverjum tilfellum um kristna trúleysingja að ræða?

Svo er líka til kristið fólk utan trúfélaga. Ég þekki einn ágætan mann sem telur sig kristinn anarkista.

Þetta gætu orðið hinar skemmtilegustu pælingar, Ingólfur, en nú verð ég held ég að bjóða þér góða nótt og mun engu svara fyrr en ég er úr rekkju risinn.

Svavar Alfreð Jónsson, 6.1.2008 kl. 01:31

69 Smámynd: Ingólfur

Kristnir trúleysingjar

Skilgreiningin er semsagt að allir þeir sem skráðir eru í kristinn söfnuð teljast kristnir óháð trúarskoðunum.

Ég er reyndar sammála því að, sé til skapari, að þá mun hann tæpast hleypa okkur inn í himnaríki á grundvelli trúfræðiprófs. En enn síður held ég að hann fari eftir skráningu í þjóðskrá Íslands.

Þegar hlutfall kristinna er notað sem rök t.d. fyrir stafi presta í skólum, að þá geri ég þá kröfu að það sé betur skilgreint hvað það er að vera kristinn.

Ég læt þetta nægja í kvöld og býð góða nótt. 

Ingólfur, 6.1.2008 kl. 02:34

70 Smámynd: Matthías Ásgeirsson

þrátt fyrir að vasklega hafi verið gengið fram í því af þeim sem telja sig tala fyrir þeirra munn að fá þá og aðra til að segja sig úr henni.

lol - þetta er stórfyndið.

Sárafáir sjálfboðaliðar hafa í frímtíma sínum boðið fólki aðstoð við að leiðrétta trúfélagaskráningu.  Með þessu og kynningu á vefsíðu hefur tekist aðstoða rúmlega 500 einstaklinga við þetta.

Séra Svavar beitir hér sömu taktík og áður, reynir að mála þá mynd að varla fáist friður fyrir fólki sem rembist við að skrá fólk úr Ríkiskirkjunni.

Dropinn holar steininn. 

Matthías Ásgeirsson, 7.1.2008 kl. 00:59

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband