4.1.2008 | 09:59
Spá fyrir árið 2008
Nú horfum við inn á nýtt ár, lesum teikn garna, stjarna og talna, gerum vísindalegar áætlanir um þjóðarhag og gaumgæfum harla óvísindalegar vitranir ófreskra karla og kvenna.
Þessi spámennska er á margan hátt andstyggileg og gerir fólk að leiksoppum örlaganna.
Hvorki hagspár, stjörnuspár, hrakspár né aðrar spár mega taka af okkur ómakið við að lifa lífinu.
Þetta ár er okkur gefið og enda þótt við ráðum ekki alltaf miklu um framvindu atburðanna skiptir máli hvernig við mætum því sem á dagana drífur.
Spár þurfa ekki endilega að rætast. Spár geta verið varnaðarorð.
Við þurfum ekki að halda áfram að eyða um efni fram. Við þurfum ekki að halda áfram að vinna myrkranna á milli, vanrækja börnin okkar og taka þátt í dansinum og eltingarleiknum.
Við þurfum kannski ekki einu sinni að vera ríkasta þjóð í veröldinni, heldur ættum við frekar að reyna að skipta því af sanngirni og réttlæti sem aflast.
Lögmálin miklu í kringum okkur þurfa ekki að bera okkur ofurliði.
Árið 2008 verður fyrst og síðast það sem við leyfum því að verða og látum það verða með Guðs hjálp og góðra manna.
Þannig hljóðar spá mín fyrir nýbyrjað ár.
Athugasemdir
Ég spái miklum lúðrablæstri með dómsdegi á þessu ári!
Sigurður Þór Guðjónsson, 4.1.2008 kl. 10:16
Og þá er nú vissara fyrir lúðrasveitir landsins að fara að æfa sig!
Svavar Alfreð Jónsson, 4.1.2008 kl. 10:20
Árið 2008 mun líða dag fyrir dag, eins og öll önnur ár. Vöndum vegferðina.
Ég á ekki von á dómsdegi, eins og Sigurður.
Hann verður ekki fyrr en seinna, þegar við verðum búin að framleiða enn meira af vopnum í heiminum og menga jörðina enn rækilegar.
Ef mannskepnan, sér í lagi leiðtogar þjóðanna, og sér í lagi þeirrar ríkustu og voldugustu, sjá að sér, mun þó dómsdagsspáin ekki rætast. En til þess mun þurfa kraftaverk í hugarfari fólks.
Greta Björg Úlfsdóttir, 4.1.2008 kl. 12:43
Ég tek undir þennan fína pistil, við ráðum því nefnilega að mestu leiti sjálf, hvernig við viljum lifa og hvað það er sem við viljum eltast við.
Jónína Dúadóttir, 5.1.2008 kl. 07:13
"Lífið er gjöf og ekkert hefur eins mikil áhrif á að móta það og hugur manns og viðhorf" (hk.blog.is) ... þannig er hverjum og einum hollast að spá um sína eigin framtíð :) eiga sér draum sem unnið er að af heilindum og með þakklæti í huga. Að gera hann að okkar "framtíðarspá" í leik er allt í lagi og getur hjálpað okkur að festa hugann við það sem við viljum upplifa.
Varðandi hrakspár, fjármálaspár, stjörnuspár og allan spá pakkann þá er ég þér hjartanlega sammála Svavar að slíkt getur verið böl, ef fólk stígur til hliðar í eigin lífi og bíður eftir að öll ósköpin gangi eftir. Meira virði getur verið að sjá í slíkum spám tækifæri til vaxtar og aukinna áhrifa á eigin líf, sérstaklega með viðbrögðum við þeim ógnunum sem spáð er að steðji að.
Hólmgeir Karlsson, 5.1.2008 kl. 14:43
... auðvita ráðum við miklum um það hvernig lífi okkar er... mjög miklu, en stundum gerast óvæntir hlutir sem við ráðum engum um og setja strik í reikninginn... en það er gott að eiga drauma og vinna að því að þeir rætist... og mikið getur verið gaman þegar það gerist...
...en hvar við dönsum næstu jól er ekki alveg sjálfgefið...
Brattur, 6.1.2008 kl. 15:38
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.