Trúarflóran

secularlivesFúndamentalistar, hvar í hópi sem þeir standa, aðhyllast ósjaldan mjög einfalda heimsmynd. Hún er annað hvort eða.  Annað hvort er fólk kristið - eða ekki. Annað hvort er fólk trúað - eða ekki. Annað hvort er fólk vantrúað - eða ekki.

Trúarbragðaflóran er fjölskrúðugri en þetta. Heimur trúarinnar er ekki svarthvítur. Þar má þvert á móti finna marga liti og litbrigði.

Það kemur vel fram í lítilli bók sem ég er að lesa þessa dagana. Hún er eftir prest í ensku biskupakirkjunni, Alan Billings, og heitir Secular Lives, Sacred Hearts. The role of the Church in a time of no religion (ISBN 0-281-05704-4).

Kenning höfundar er sú að tími trúarbragðanna sé ekki liðinn, þrátt fyrir undirtitil bókarinnar. Billings bendir á að enda þótt kirkjusókn í Englandi hafi minnkað sé fólk ennþá undir áhrifum kristninnar og tilfinningalega tengt kristinni trú.

Billings segir hið menningarlega samhengi bresks samfélags kristið enda sýni kannanir að Englendingar telji sig kristna þó að þeir komi sjaldan í kirkju. Tvær tegundir af kristni séu til. Annars vegar svonefnd kirkjukristni - kristni þeirra kirkjuræknu - og hins vegar menningarkristni - kristni þeirra sem mótaðir eru af kristinni arfleifð, sögum hennar, hugtökum, ímyndum, gildum og siðferði. Menningarkristið fólk íhugi ef til vill ekki mikið trúarlegar kenningar. Kristni þess eigi meira skylt við praxís en theóríu.

Áður en lengra er haldið ber að geta þess að Billings skrifar þessa bók sem prestur í ensku kirkjunni. Hann lýsir aðstæðunum og bendir á leiðir til að bregðast við þeim.

Menningarkristnin er ekki kirkjuvæn en hún lýsir sér engu að síður í því að enn sækist fólk eftir þjónustu kirkjunnar við tímamót í lífi sínu. Billing skoðar það atferli og fjallar um ástæður þess að menningarkristið fólk lætur skíra börn sín, giftir sig í kirkju og kemur í kirkju til að kveðja ástvini sína hinstu kveðjunni. Hann segir mikilvægt að kirkjan taki þetta alvarlega og reyni að mæta fólkinu þar sem það er. Líka þótt það kjósi ekki að tilheyra kirkjunni með formlegum hætti.

Kirkjan eigi að vera andlegt forðabúr bæði þeim sem tilheyra henni og hinum sem vilja standa utan skipulagðra trúarbragða.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

og ég segi Amen við því..

Ég þakka annars fyrir oft svo mjög góðar og vel skrifaðar greinar.

kveðja frá einni í mörgum fallegum litum

Björg F (IP-tala skráð) 7.1.2008 kl. 10:14

2 Smámynd: Greta Björg Úlfsdóttir

Athyglisverð grein.

Oft er auðsætt að menn sem vilja kalla sig trúleysingja og leggja jafnvel fæð á allt sem kalla má kristið gera sér alls enga grein fyrir því hvernig kristnin hefur mótað meira að segja þeirra eigið hugarfar.

Til dæmis þegar þeir tala um kærleiksboðskapinn sem "sjálfsögð" gildi, þegar reyndin er sú að áherslan á kærleikann er fyrst og fremst að finna í kristni. Þó t.d. búddismi leggi ríka áherslu á virðingu fyrir lífi og einstaklingum, o.s.frv.

Sjá má glöggt dæmi um þetta sem ég talaði um HÉR.  

Greta Björg Úlfsdóttir, 7.1.2008 kl. 21:55

3 Smámynd: Ingólfur

Það er svo sem ekki öfundsvert að vera prestur á tímum þegar fleiri fara í IKEA á sunnudögum en mæta í kirkju, eins og er í Bretlandi, og því skiljanlegt að þeir reyni að endurskilgreina sig og hlutverk sitt.

Ég er reyndar fylgjandi því fólk fylgi ekki í blindni trúarbrögðum heldur finni frekar sína eigin trú, og auðvitað á ekki að banna neinum að kalla sig kristinn ef hann vill það, þó svo að uppfylli þannig séð ekki inntökuskilyrðin.

Á Íslandi telja 70% þjóðarinnar sig vera trúaða og af þeim játa 76% kristna trú. Það er samtals rúmlega helmingur þjóðarinnar, þegar hún er sjálf spurð.

Ef kirkjunnar menn ætla að telja restina líka vera kristna fyrir það eitt að hafa fæðst í landi þar sem kristin menning er ríkjandi að þá hlýtur hún að þurfa að breyta kennisetningum sínum.

Ef þjóðkirkjann á að vera trúfélag trúlausra kristinna Íslendinga sem kemur bara í kirkju við sérstaka viðburði sökum hefðar og menningar sinnar, að þá eru eru engar forsendur fyrir því að vera að predika um upprisuna eða meyfæðinguna fyrst enginn trúir því, eða hvað?

Það verður ekki bæði sleppt og haldið, annað hvort verðið þið að horfast í augu við það að 90% þjóðarinnar er ekki lengur kristinn, eða að það verður að breyta kristninni. Hver veit, kannski verða prestar í framtíðinni margir trúlausir á mörg aðalatriði kristninnar, eins og prestur einn í danaveldi, og starfa meira sem nokkurskonar trúarráðgjafar.

Ingólfur, 8.1.2008 kl. 01:01

4 Smámynd: Svavar Alfreð Jónsson

Kirkjan á sífellt að vera að endurskilgreina sig í síbreytilegum heimi. Hún verður að gera það til að geta sinnt köllun sinni. "Ecclesia semper reformanda" - kirkjan í stöðugri endurmótun.

"Skírn í nafni heilagrar þrenningar og skráning í þjóðskrá veitir aðild að þjóðkirkjunni," segir í fyrstu grein laga um stjórn, stöðu og starfshætti Þjóðkirkjunnar (78/1997).

Þar höfum við inntökuskilyrðin.

Að sjálfsögðu tölum við um sannindi upprisunnar við fólk sem kemur í kirkju á páskum og meyfæðinguna sem kemur í kirkju á jólum.

En ef til vill tölum við á annan hátt um þetta en menn gerðu fyrir hundrað árum. Vonandi.

Svavar Alfreð Jónsson, 8.1.2008 kl. 08:00

5 identicon

""Skírn í nafni heilagrar þrenningar og skráning í þjóðskrá veitir aðild að þjóðkirkjunni," segir í fyrstu grein laga um stjórn, stöðu og starfshætti Þjóðkirkjunnar (78/1997).

Þar höfum við inntökuskilyrðin."

Eitt varðandi þetta Svavar, er viðkomandi kristinn fyrir lífstíð ef hann er skírður þó að hann segi sig úr kirkjunni og hafni kristinni trú síðar á lífsleiðinni?  Ég hef heyrt því fleygt í umræðunni um trúboð í skólum að ekki sé um trúboð að ræða ef barnið er skírt og skiptir þá engu hvort það sé búið að skrá það úr kristnum söfnuði. Með öðrum orðum, við skírnina er búið að selja sálina kristni og kirkju fyrir lífstíð. Hver er þín skoðun á þessu?

 Mig langar að gagnrýna þig Svavar. Ég nokkuð oft lent í því að spyrja þig spurninga og þú lætur það vera að svara. Hvernig stendur á því? Ég er með tvær spurningar sem mig langar að fá svar þitt við en nenni ekki að bera þær fram aftur ef engin áhugi er á að svara þeim. Þær eru báðar afhjúpandi og óþægilegar. Þær eru báðar réttmætar og umræðunni til gagns sé þeim svarað. Ertu til?

Arnold Björnsson (IP-tala skráð) 8.1.2008 kl. 10:44

6 Smámynd: Greta Björg Úlfsdóttir

Það er merkilegt hvernig trúlausir, sem stöðugt saka kirkjuna bæði um þröngsýni og valdagræðgi, tala síðan um að hún svíki sínar eigin kennisetningar þegar hún leitast við að fylgja samtímanum og þjóna almenningi.

Það er samt nokkuð augljóst að staða kristni og kirkju er allt önnur í samtímanum en í fortíðinni, og að þörf hennar fyrir djúpvitra leiðtoga, sem leitt geta hana farsællega til framtíðar, er mikil, eigi hún að halda velli. 

Ég held, að ef að vel tekst til, eða kannski er það einungis von mín, muni,  með auknum andlegum þroska fólks, skilin á milli skipulagðra trúarbragða heimsins verða stöðugt óljósari og þau jafnvel renna saman.

Ef svo færi hins vegar að þau dæju algjörlega út held ég að tilveran í heimi efnishyggju hér á jörðinni yrði köld og nöturleg.

Greta Björg Úlfsdóttir, 8.1.2008 kl. 12:00

7 Smámynd: Ingólfur

Ég gagnrýni það þannig séð ekki þjóðkirkjan "svíki" sínar eigin kennisetningar.

Ég tel reyndar að meðan hún sé þjóðkirkja að þá beri henni skylda t.d. til að veita samkynhneigðum sömu þjónustu og öðrum og komist ekki upp með að beita fyrir sig biblíulegum afsökunum eins og t.d. frjáls trúfélög gætu komist upp með.

Einnig hlýtur þjóðkirkjan að þurfa að leggja niður flestar kennisetningar sínar ef hún ætlar að telja þá til kirkjunnar sem ekki telja sig kristna. Eða þá viðurkenna það að þjóðin í heild sinni er ekki lengur kristin.

Í raun stendur kirkjan frammi fyrir tveimur slæmum kostum:

Að kirkjan sjálf verði "trúlaus" til þess að koma á móts við þann stækkandi hóp trúlausra sem vill bara nota kirkjuna fyrir stóra viðburði í sínu lífi.
En þá munu líklega þeir  "sannkristnu" leita annað.

Eða að viðurkenna að stór hluti þjóðarinnar er trúlaus/ekki kristinn, en þar með eru forsendur fyrir ÞJÓÐkirkju brostnar.

Áður fyrr var þetta ekkert mál, kirkjan var einráð þegar kom að andlegum málum og skilgreindi það svið ansi vítt, og gat því sagt fólki hverju það átti að trúa.  En í dag hefur hún sem betur fer ekki þetta vald.

Síðan er líka annað, ég væri ekki að gagnrýna kirkjuna ef ég teldi ekki að hún væri að brjóta á trúfrelsinu. Ef hún hættir því þá mun ég ekki skipta mér af hvaða kennisetningar hún velur að halda eða sleppa.

Ingólfur, 8.1.2008 kl. 13:41

8 Smámynd: Svavar Alfreð Jónsson

Kæri Arnold, það hefur margoft komið fram hjá mér að auðvitað er enginn kristinn gegn vilja sínum.

Þjóðkirkjan er ekki að svíkja kennisetningar sínar þótt hún túlki þær. Henni ber þvert á móti skylda til að túlka arfinn.

Hvergi hefur það komið fram hjá mér að telja eigi þá til kirkjunnar sem ekki eru kristnir - eða að kirkjan þurfi að vera "trúlaus".

Á Íslandi er trúfrelsi. Með lögum er fólki tryggt frelsi til að trúa því sem þeir vilja og iðka trú sína. Trúfrelsi þýðir á hinn bóginn ekki endilega jafnvægi á milli trúabragða en því er oft ruglað saman í umræðunni.

Svavar Alfreð Jónsson, 8.1.2008 kl. 19:10

9 Smámynd: Svavar Alfreð Jónsson

Hér fyrir ofan á auðvitað að standa:

Svavar Alfreð Jónsson, 8.1.2008 kl. 19:11

10 Smámynd: Svavar Alfreð Jónsson

Hér fyrir ofan á auðvitað að standa:

Með lögum er fólki tryggt frelsi til að trúa því sem það vill...

Svavar Alfreð Jónsson, 8.1.2008 kl. 19:12

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband