9.1.2008 | 22:00
Af jörðu erum við
Undanfarna vetur hef ég kennt örlítið í háskólanum á Akureyri og reynt að fræða nema í kennaradeild um kristna siðfræði.
Eitt sinn urðu þar miklar umræður um sköpunarsöguna í fyrstu Mósebók. Sumir nemenda minna vildu endilega bera hana saman við þróunarkenninguna. Ég benti þeim á að textinn væri ekki náttúruvísindalegur. Það skemmdi hann bara að lesa hann með slíkum gleraugum. Sköpunarsagan ætti við okkur annað erindi.
Eftir kennslu mætti ég Haraldi Bessasyni, þáverandi rektor, í anddyri skólans. Hann spurði mig frétta og ég sagði honum frá hinum fjörlegu diskúsjónum um sköpunarsöguna.
Haraldur sagðist einmitt hafa verið í svipuðum umræðum. Hann hefði verið að fjalla um norrænar sköpunarsögur og hefði leyft sér að fullyrða að þær væru dagsannar.
Í Vafþrúðnismálum er þetta erindi:
- Úr Ymis holdi
- var jörð um sköpuð,
- en úr beinum björg,
- himinn úr hausi
- ins hrímkalda jötuns,
- en úr sveita sjór.
Sköpunarsögur norrænna manna sögðu þeim að jörðin væri lifandi vera. Hún væri sömu náttúru og manneskjurnar, fæddi þær af sér og eignaðist þær að lokum.
Tilvera manns og jarðar er samtvinnuð.
Mér finnst þetta ekki bara dagsatt.
Ég held að það sé lífsspursmál fyrir nútímamanninn að eignast þessa gömlu sköpunarvitund.
Athugasemdir
Þetta er einmitt ástæða þess að ég er skráður í ásavinafélagið; tengslin við náttúruna í spekinni og virðing til hennar.
Guðirnir finnst mér líka standa fyrir náttúruna og náttúruöflin.
Ingólfur, 9.1.2008 kl. 23:38
Gott innlegg til verðugrar umhugsunar.
Sköpunarsögur trúarbragðanna eru ekki vísindi. En viska felst í fleiru en vísindum. Í kennisetnignum trúarbragða og heimspeki felst hellingur af verðugum umhugsunarefnum. Ég kýs sjálf að nota þau einmitt á þann hátt, en ekki til átrúnaðar.
Fæ alltaf vægt þunglyndiskast þegar ég les eða heyri í þröngsýnum mönnum, þar á meðal þröngsýnum trúmönnum.
Verð svo aftur glöð í hjarta mínu þegar ég heyri í jafn frábærum og víðsýnum mannúðarsinnum og Desmond Tutu biskupi í S-Afríku. Náði því miður bara restinni af þættinum Spekingar spjalla í sjónvarpinu í gærkvöldi. Þar var Desmond Tutu að gagnrýna þá sem slá eign sinni á Guð og vilja gera óvini sína að óvinum Guðs. Hann sagði m.a.: "Guð er ekki Kristinn"!
Fékk innblástur og bloggaði...
Soffía.
Soffía Sigurðardóttir, 10.1.2008 kl. 10:00
Púkinn er einn þeirra sem afneitar Biblíunni og öllu sem hún stendur fyrir - en samt er Púkinn í sjálfu sér sáttur við að sögur eins og þessi séu kenndar sem slíkar - það er nauðsynlegt að þekkja þessar sögur til að skilja þjóðfélag fyrri alda - skilja hugsanagang forfeðra okkar.
Vandamálið er þegar menn vilja líta á þetta sem bókstaflegan sannleik - hafna öllu því sem vísindin segja efþað er í andstöðu við texta Biblíunnar, trúa því statt og stöðugt að jörðin sé rétt um 6000 ára gömul og krefjast þess að trú þeirra sé metinn sem valkostur við vísindi - jafn rétthár.
Púkinn, 10.1.2008 kl. 10:43
,,Tilvera manns og jarðar er samtvinnuð."
Vissulega er það rétt, nema að tímabil það sem maðurinn hefur gengið hér á Jörðu er ekki nema brotabrot af tíma Jarðarinnar sjálfrar. Ef jarðarsagan er einn sólarhringur, er tilvist mannsins ekki nema ein sekúnda og varla það.
Við mannfólkið höfum engan heilagan rétt til tilvistar eða stjórnunar á Jörðinni. Hún fæddist án mannsins og hún mun enda líf sitt (eftir u.þ.b. 4,5 milljarða ára) án hans líka...
Sigurjón, 10.1.2008 kl. 12:39
En var ekki lengst af einmitt litið svo á að sköpunarsaga Mósebókar væri bókstaflegur sannleikur? Var kirkjan nokkuð á móti því? Hvað hefur svo breyst?
Sigurður Þór Guðjónsson, 10.1.2008 kl. 16:42
Langt er síðan kirkjan fór að nota bókmennta- og sagnfræði við túlkun á textum Biblíunnar.
"Bókstaflegan" skilning á Biblíunni er erfitt að aðhyllast - af ástæðum sem ættu að vera augljósar sé málið skoðað.
Kirkjan hefur alla tíð túlkað rit heilagrar ritningar. Hin allegóríska túlkun er sennilega sú elsta.
Svavar Alfreð Jónsson, 10.1.2008 kl. 20:59
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.