12.1.2008 | 11:30
Trúin sér lengra
Sumir halda því fram að Guð sé ekki til vegna þess að hörgull er á því hagstæða en skammturinn óþarflega drjúgur af því slæma.
Þeir spyrja líkt og séra Matthías í kunnum sálmi: "Hvað hjálpar heilög trú?"
Ekki reiðir þeim neitt betur af sem trúa en hinum? Verða þeir ekki fyrir allskonar áföllum, þrátt fyrir trúna? Bera þeir eitthvað meira úr býtum en aðrir?
Við erum kannski alveg til í trúa á Guð sem grípur inn í framvinduna, sveigir tilveruna í rétta átt, lætur hlutina gerast og góða atburði verða.
Ef við erum að trúa á Guð á annað borð má aldrei afskrifa hann. Hann getur gert ótrúlega hluti. Við skulum aldrei missa vonina.
En trúin er samt miklu dýpri, víðari, lengri og hærri en svo að hún gangi einungis út á að hagstæðu atburðirnir verði og góðu hlutirnir gerist. Trú sem takmarkast við það er grunn, þröng, stutt og lág. Og þannig trú er í raun einskis virði. Hún kulnar um leið og okkur fer að ganga illa, hún kafnar í áföllunum og visnar í skortinum. Hún lýsir bara í ljósinu en hverfur í myrkrinu.
Á Írlandi eiga þeir margar fallegar blessunaróskir. Ein er svona:
"Morgundöggin lífgi hendur þínar og fætur,
hádegissólin vermi hjarta þitt,
að kvöldi leiði rísandi máninn þig heim."
Við skulum vera dugleg við að óska hvert öðru alls þessa.
En trúin sér enn lengra.
Þegar morgundöggin þornar áður en við fáum snert hana, hádegissólin felur sig bak við dökk ský og enginn máni sést á himni sér trúin lengra og hærra.
Hún gefur því góða og fagra enn meiri glans og fyllingu og hún ein sveipar neyðarmyrkrið vonarbirtu.
Athugasemdir
Guð er eins og stjörnurnar á himninum sem alltaf eru þarna hvort sem til þeirra sést eða ekki. Trúin er eins og veðrið sem stundum villir okkur sýn, hylur sjóndeildarhringinn og felur stjörnurnar. Þegar þokan læðist að trúnni byrgir hún sýn sálarinnar og hins góða sem í okkur býr.
Hólmgeir Karlsson, 12.1.2008 kl. 13:57
Minn guð er svo sannarlega til, en hann er ekki í kirkjum og það er eins og fæstir (ekki allir) prestar hafi ekki fundið sama guð og ég. En eftir langa leit er ég í sporum Hólmgeirs..."Guð er eins og stjörnurnar á himninum"
Anna Benkovic Mikaelsdóttir, 12.1.2008 kl. 21:40
Trúin sér ekki rassgat....amen
Jóhann H., 12.1.2008 kl. 22:36
Hæ Anna. Minn Guð er heldur ekki í kirkju, en þegar ég fer þangað, sem þó er ekki oft, þá kemur kallinn þangað líka
...
Hólmgeir Karlsson, 13.1.2008 kl. 00:00
Spurningin er varla um hvort Guð er til eða ekki. Það er engin leið að komast að niðurstöðu um það. Spurningin er hinsvegar um trúarbrögð. Hvort þau eru passív og miði að perónulegri rækt eða hvort þau eru agressív eins og Kristni og Islam, sem hafa ekkert uburðarlyndi fyrir annari afstöðu manna til andlegra mála og miða hver um sig að heimsyfirráðum, teljandi sig hina einu réttu leið. Það er grunnur allrar óeiningar í heiminum í dag. Trúarbrögð, sem hafa ekki snefil af umburðarlyndi og stefna að heimsyfirráðum. Hvað yrði sagt um pólitíska útópíu, sem hefði slíkt að grundvelli?
Jón Steinar Ragnarsson, 13.1.2008 kl. 01:53
Hólmgeir: Þakka þessar frábæru líkingar!
Anna: Það er munur að vera svona eins og þú, með Guð í rassvasanum og vitandi hvar hann sé ekki að finna.
Jón Steinar: Þegar rætt er um óeiningu í heiminum ættu þeir sem hvað harðast ganga fram í að dæma aðra ef til vill að líta í eigin barm.
Gæti verið að þú værir bæði haldinn fordómum og hroka? Mér finnst þú satt best að segja lítið annað leggja til málanna hér á þessu bloggi.
Kristni er bæði umburðarlynd trú og uppbyggileg og ég er viss um að sama máli gegnir um íslam. En trúarbrögðin má að sjálfsögðu túlka á mismunandi vegu eins og annað.
Svavar Alfreð Jónsson, 13.1.2008 kl. 12:18
Skoðaðu nú hvð orðin fordómar og hroki þýða í orðabók kæri Svavar, áður en þú útdeilir slíkum stimplum af svo miklu örlæti.
Það þarf tvo til þegar deilt er og er Kristnin grunnurinn hér. Umburðarlyndið skulu menn svo leggja mat á eftir skrifunum. Fólk hefur jafn lítið umburðarlyndi fyrir útúrsnúningum ykkar og sleggjudómum og þið fyrir gagnrýni og efasemdum yfirleitt. Maður skal ekki efast að ykkar mati og svo bendið þið í bókina ykkur til fulltyngis.
Ég tjái mig um þessa hluti við ykkur, því ég undrast alltaf jafn mikið að fullorðið og menntað fólk skuli gangast upp í slíkum þykistuleik og verja svo afstæða og abnormal hluti. Vona að mér fyrirgefist það. Kannski er fyrirgefningin eitthvað skilyrt kannski?
Vandinn er trúarbrögð. Þau eru eilíft að reyna að sætta það sem þau hafa efnt til. Án þeirra væri nokkuð mikil sátt hugsa ég. Það að í eðli sínu sé trú svo misjöfnum og túlkunum háð og heimti samt að hafa alltaf rétt fyrir sér, hafni gagnrýni, dæmi gagnrýnendur, miði að heimsyfirráðum og tengist stjórnmálum eins og bleyta vatni, þá er kannski ekki skrítið að umburðarlyndi hugsandi manna skuli á þrotum. Tilefnin eru bæði í sögu og samtíð.
Það er áskorun fyrir menntað og hugsandi fólk að taka fulltrúa Kirkjunnar trúanlega, sem halda heiminn 6-10.000 ára, viðurkenndu fyrst árið 1992 að jörðin væri ekki miðja alheimsins sem allt snerist um og um svipað leyti slepptu þeir óskýrðum börnum úr Limbó og aflögðu það. Stað á milli himins og jarðar fyrir óskýrð börn. Þetta er sannarlega massívur prófsteinn á trú.
Það er líkt með trúarbrögðum og skammbyssunni. Hún er til varnar gegn öðru, sem eiga skammbyssur. Að afleggja þær alveg væri góð byrjun í átt til friðar.
Hér er svo talandi dæmi um andúð mína á fyrirbrygðinu. Kannski getur þú réttlætt þetta fyrir mér.
Jón Steinar Ragnarsson, 13.1.2008 kl. 17:01
Fordómar felast í því að dæma eitthvað fyrirfram, án þess að kynna sér málið. Það gerir þú. Þú dregur alla kristna menn í sama dilkinn og gerir mér og minni kirkju upp skoðanir sem hún hefur ekki. Það er bæði hrokafullt og virðingarleysi.
Er ég fulltrúi kirkjunnar sem heldur heiminn 6-10.000 ára, viðurkenndi ekki fyrr en 1992 að jörðin væri miðja alheimsins og aflagði nýlega limbóið?
Stefnir íslenska Þjóðkirkjan að heimsyfirráðum?
Ég hef engan áhuga á því að réttlæta fyrir þér eð aöðrum gerðir öfgahópa, hvort sem um er að ræða öfgakristna, öfgamúslima eða öfgatrúleysingja.
Heimsmynd öfgamannsins er yfirleitt fremur einföld og svarthvít. Mér sýnist þú eiga margt sameiginlegt með öfgamönnum - telur þig sjálfsagt til þeirra hugsandi menna hverra umburðarlyndi er á þrotum. Þannig tala auðvitað fyrst og fremst öfgamenn sem reyna að réttlæta eigin umburðarleysi.
Og nú skulum við ræða efni pistilsins. Þú hlýtur að geta fundið fordómum þínum og þröngsýni annan vettvang en þennan.
Svavar Alfreð Jónsson, 13.1.2008 kl. 17:49
Þakka þér fyrir frábæran og greinargóðan pistil séra minn. Ég hef lengi lesið eftir þig og mér hefur það oftar en ekki fallið vel í geð. Það er gott að lesa eftir þig þessar uppbyggjandi greinar og það sem mér fellur bezt er að þú setur aldrei trú annara undir mæliker. Hafðu þökk fyrir. Bumba.
bumba (IP-tala skráð) 13.1.2008 kl. 21:34
Svavar, mér sýnist hafa fallið eitt "ekki" úr textanum þínum hér að ofan:
"Er ég fulltrúi kirkjunnar sem heldur heiminn 6-10.000 ára, viðurkenndi ekki fyrr en 1992 að jörðin væri miðja alheimsins og aflagði nýlega limbóið?"
Þú hlýtur að hafa ætlað að segja þarna að sú kirkja sem þú vísar þarna til hafi viðurkennt 1992 að jörðin væri ekki miðja alheimsins?
Greta Björg Úlfsdóttir, 15.1.2008 kl. 14:48
Glögg ertu, Greta!
Svavar Alfreð Jónsson, 15.1.2008 kl. 14:50
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.