13.1.2008 | 20:23
Söguhroki
Ísland nútímans er Ísland genginna kynslóða, þeirra sem búa á elliheimilunum og þeirra sem hvíla í moldinni. Það Ísland sem við þekkjum varð til mann fram af manni og kynslóð eftir kynslóð.
Við erum það sem við erum vegna þess að við hættum að vera það sem við vorum, segir fólk. Það má til sanns vegar færa. Nú þekking fellir gamla úr gildi. Ný tækni gerir gamla úrelta. Ný viðhorf koma í stað fornra.
Svo hugfangin erum við stundum af okkar tímum og svo sannfærð um ágæti þeirra að rætt er um þá sem "endi sögunnar" svo notað sé orðfæri bandaríska stjórnmálafræðingsins Francis Fukuyama.
Nútíminn telur sig yfir fortíðina hafinn. Á sama hátt mun framtíðin sennilega telja sig betri og merkilegri okkar tímum. Hvaða einkunn munu þeir fá hjá þeim komandi, þegar allir flottu gemsarnir standa máðir í hillum minjasafnanna og þekking okkar er orðin aðhlátursefni í fermingarveislunum?
Við höfum engin efni á því að setja okkur á háan hest og ættum að skoða fortíð okkar sömu augum og við viljum að framtíðin sjái okkur með. Við viljum verða metin á okkar forsendum og í ljósi þeirrar þekkingar sem við búum yfir en ekki í ljósi þess sem var okkur hulið.
Við vonum að komandi kynslóðir geti fundið margt eftirbreytnivert hjá okkur og við vonum líka að afkomendur okkar láti þau mistök sem við gerum verða sér víti til varnaðar.
Við vonum að framtíðin geri sér grein fyrir því að hún er þar sem hún verður vegna þess að hún var þar sem við eitt sinn vorum.
Athugasemdir
innlitskveðja frá öddu og kristófer litla.
Adda bloggar, 14.1.2008 kl. 00:36
Púkinn er nú ekki sammála þér um allt, en þessa grein getur hann tekið undir heilshugar.
Púkinn, 14.1.2008 kl. 09:15
Ég er ósammála. Þekking sautjándu aldar manna þarf ekkert að vera aðhlátursefni í dag nema hjá þeim sem hafa engan söguskilning og líta fram hjá því að allir séu börn sinna tíma. Ég dáist að afrekum Newtons miðað við þann grunna þekkingarbrunn sem hann gat komist í, og jafnvel þó svo hann hafði mikinn áhuga á gullgerðarlist sem við gefum lítið fyrir í dag.
Við getum líka verið ánægð með stöðu okkar í dag miðað við mannkynið fyrir nokkrum öldum síðan, sérstaklega okkur Íslendinga, en líka gera ráð fyrir að sú framþróun haldi áfram og okkar hugsunarháttur, tækni o.fl. verði úrelt með tímanum.
Kristján Hrannar Pálsson, 14.1.2008 kl. 11:11
Það nýjasta þarf ekki endilega alltaf að vera best. Hvað eftir annað kemur í ljós að það sem var kallað hindurvitni genginna kynslóða var betra en hið nýjasta og vísindalega.
Í evrópskum borgum er víða verið að brjóta niður steinsteypu- og glerkassa og setja í staðinn "gamaldags" hús vegna þess að þau eru meira aðlaðandi og fólki líður betur í slíku "gamaldags" umhverfi.
Fram til 1934 þóttu kassalaga bílar með beinum línum og stórum gluggum vera bestir. Síðan urðu bílar með bogalínum og litlum gluggum frá 1935 til 1949.
Þá þótti aftur hentugra að stækka gluggana og gera línurnar beinni og kantaðri.
Á síðustur árum sækir aftur í sama horf og í kringum 1935.
Oft gengur sagan í hringi og hafa skyldi í huga að það sem er varðveitt tengir saman upplifun og lífsreynslu margra kynslóða og færir þær nær hver annarri.
Ómar Ragnarsson, 14.1.2008 kl. 11:56
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.