Tyggjó fyrir skynfærin

tyggjoReiðilestur minn um fjölmiðla fékk mikil viðbrögð. Aðsóknarmet var slegið á bloggsíðunni.

Mér leið eins og pokapresti sem messað hefur fyrir fullri kirkju.

Ekki sagði ég samt neitt nýtt í færslunni. Fyrir næstum því aldarfjórðungi skrifaði bandaríski fjölmiðla- og menningarkrítíkerinn Neil Postman þá frægu bók "Amusing Ourselves to Death: Public Discourse in the Age of Show Business". Þar heldur hann því fram að við verðum sífellt heimskari og það sé fyrst og fremst sjónvarpinu að kenna. Sá miðill breyti hvers konar samræðu í skemmtun. Alvarleg mál séu gerð að afþreyingu og almenningur sé smám saman að verða ónæmur á þau.

Margir hafa spunnið þennan þráð Postmans áfram, þar á meðal þýski blaðamaðurinn Robert Islinger í bók sinni "Vom Abendland zum Disneyland. Wohin steuern unsere Medien?" sem út kom árið 2003 (ISBN 3-7632-5393).

Islinger heldur því fram að Þjóðverjar viti sífellt minna. Hann talar um menningarlegt hrun þjóðar sinnar og telur fjölmiðlana helst bera ábyrgð á því.

Í bókinni rekur Islinger sögu þýsks sjónvarps og þau straumhvörf sem urðu með tilkomu einkarekinna sjónvarpsstöðva. Samkeppni um auglýsendur og áhorfendur varð þess valdandi að mest áhersla var lögð á ódýrt efni sem höfðaði til sem flestra.

Sú dagskrárformúla hefur haft áhrif á fréttaflutning og blaðamennsku nútímans. Þar verður afþreyingargildið sífellt mikilvægara og með hverju árinu verður erfiðara að greina á milli frétta og fræðsluefnis annars vegar og hins vegar skemmtunar og auglýsinga.

Sjónvarpið hefur umbreytt öðrum fjölmiðlum, bæði hljóðvarpi og blöðum. Dagblöð verða alltaf sjónvarpslegri með mörgum og stórum myndum á kostnað texta. Umfjöllunin verður yfirborðskennd.

Eitt sinn var menning okkar grundvölluð á orðinu og hæfileika okkar til að hugsa. Nú erum við ofurseld valdi myndanna og yfirborðsmennskunni.

Fjölmiðlar gegna ekki lengur því hlutverki fyrst og fremst að vera "gluggi út í veröldina" og stuðla að þátttöku borgaranna í samfélaginu.

Þeir eru fyrst og fremst tyggjó fyrir skynfæri okkar.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sveinn Ólafsson

Fyrsta sjónvarpsstöðin rekin af Þjóðverjum var sú sem nasistar tóku í París í júní 1940 og ráku til ágúst 1944. Í henni kom fram margt af því sem einkennir sjónvarp í dag.

Það má vel vera að þér og öðrum lítist illa á hversu forheimskandi nútíma fjölmiðlar eru. Það er þó öruggt að þessi viska sem á að hafa búið með Þjóðverjum ól af sér hræðilegustu hermdarverk Evrópu á seinni tímum.

Það er ekki alltaf spurningin um að hafa einhvern heim þar sem allt er eftir höfði velmeinandi fólks, heldur fremur þann heim þar sem fæst slæmt er gert.

Annars vil ég þakka fyrir vel skrifaða pistla, Svavar, og óska þess að þú skrifir sem mest. Þegar einhver kallar annan pokaprest þá hittir það bara þann fyrir sem velur ónefnið.

Sveinn Ólafsson, 30.1.2008 kl. 23:17

2 identicon

Bull og kjaftæði. Myndrænan er aðeins annað form tjáningar og er okkur í raun mun eðlislægra heldur en skrifmálið nokkurntímann. Menning okkar hefur nefnilega aldrei verið ,,grundvölluð á orðinu og hæfileika okkar til að hugsa". Enda væri það algjört bull að grundvalla jafn stóran, breiðan og mikilvægan hlut á jafn þröngum hlut. Hvað með þá sem geta ekki skrifað? Hvað með þá sem geta ekki hugsað? Ætti að dæma þá sem óæðri þjóðfélagsþegna? Nei, sem betur fer ekki. Menning okkar og tilgangur er hvorki annar né meiri en sá sem við, sem einstaklingur viljum að hann sé. Við sem bloggum eða skrifum orð á annarra manna kommentakerfi getum gert það - og gert það að okkar tilgangi ef við kjósum svo. En í guðanna bænum, ekki sitja alla menn undir þann hatt. Það er birtingarmynd menningarlegrar stéttskiptingar. Megi þeir horfa á sjónvarpið sem það vilja.

Kristinn (IP-tala skráð) 30.1.2008 kl. 23:36

3 Smámynd: Guðný Jóhannesdóttir

Sæll Svavar og takk fyrir góð skrif á síðu þinni.

Sjálf starfa ég sem ritstjóri landabyggðablaðs og hef stundum verið gráti nær yfir fréttamati kollega minna á höfuðborgarsvæðinu.

Kollega sem hringdi og bað mig að vera í kjördæma þætti á Akureyri og tjá mig um stjórnmálin sem ritstjóri héraðsfréttablaðs á Sauðárkróki. Ég sagði að það væri sjálfsagt en hvort hann vildi ekki heldur fá til sín ritstjóra úr kjördæminu. Fátið varð algjört ekki síst í ljósi þess að kvöldið áður var kjördæmaþáttur um Norðvestur kjördæmi.

En það sem er að gerars er það að hraðinn með tilkomu netmiðla er orðinn það mikill, starfsfólkið það fátt og kröfurnar um stanslausar fréttir það miklar að það er ekki tími til þess að sökkva sér ofan í mál, fræðast um þau og annað. Þess í stað þurfum við fjölmiðlafólk að fiska út í loftið, spyrja líkt og fimm ára og reyna að öðlast yforborðsþekkingu á flóknu máli á fimm mínútum og skila síðan góðri og raunsannri frétt um málið.

Það sér það hver maður að þetta er mjög ósanngjörn krafa á fjölmiðlafólk sem þó reynir sitt besta en hættir til að festast í að skrifa eingöngu fréttir um sitt nánasta umhverfi einfaldlega vegna þess að það hefur ekki tíma til þess að líta upp og horfa í kringum sig.

Sjálf bloggaði ég í gær um svæðisútvarp Akureyrar og nágrennis sem þó á að þjóna Norðurlandi öllu.

En þú ert flottur og þessi skrif eiga vel rétt á sér en skýringarnar eru margar og flóknar.

Guðný Jóhannesdóttir, 31.1.2008 kl. 11:26

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband