Um fjölmiðlafrumvarpsdrauginn

Ítrekað hef ég reynt að vekja upp fjölmiðlafrumvarpsdrauginn - en þau drög liggja líklega einhvers staðar falin í skúffu.

Eitt af því sem hvað sárast var undan kvartað þegar hið alræmda fjölmiðlafrumvarp var lagt fram (sem var víst ekki annað en breyting á gildandi útvarpslögum) var að engin umræða hefði verið um málið.

Það var held ég alveg rétt. Og umræðan sem auglýst var eftir hefur varla farið fram síðan - allra síst af þeim sem mest söknuðu hennar.

Lýðræðisleg menning er meðal annars í því fólgin að ólík viðhorf fá að takast á. Fjölmiðlar eru helsti vettvangur þeirra átaka. Þess vegna skiptir máli hverjir eiga fjölmiðlana.

20. október árið 2005 birtist leiðari í Fréttablaðinu. Þar segir:

"Þeir miðlar sem standa sig ekki, þykja óspennandi, óvandaðir eða ótrúverðugir, tapa kaupendum og auglýsendum og lúta í lægra haldi fyrir vandaðri eða vinsælli miðlum. Um þetta eru nokkur nýleg dæmi á okkar litla fjölmiðlamarkaði, bæði hvað varðar dagblöð og ljósvakamiðla. Þetta hlutverk markaðarins eiga stjórnmálamenn ekki að taka að sér, enda stríðir það gegn grundvallarreglum lýðræðisins."

Vinstri menn á Íslandi hafa helst gerst talsmenn þessara frjálshyggjuviðhorfa til fjölmiðla. Markaðurinn á að ráða. Ríkið á ekki að vera með puttana í þessu.

Árið 1997 sendu kaþólsku og evangelísku kirkjurnar í Þýskalandi frá sér sameiginlega yfirlýsingu um fjölmiðla.

Þar er því haldið fram að mælikvarðinn á góða fjölmiðlun sé ekki sá hvort takist að selja hana neytendum heldur hvort hún þjóni manneskjunni og möguleikum hennar til góðs lífs.

Þeirri grundvallarþörf mannsins að hafa samskipti sé í síauknum mæli sinnt af fjölmiðlum. Þeir verða því alltaf meiri áhrifavaldar á einstaklinga og samfélög. Fjölmiðlar hafa þróast bæði til góðs og ills en ekki er allt í mannsins þágu sem er efnhagslega og tæknilega mögulegt.

Í yfirlýsingunni er sérstaklega vikið að því þeirri þróun í veröldinni að fjölmiðlavaldið færist sífellt á færri hendur. Hún leiðir til minnkandi fjölbreytni og jafnvel skoðanaeinræðis. Það er ógnun við lýðræðið.

"Fjölmiðlar og opinber samskipti þjóna manninum ekki lengur þegar sérhagsmunir ráða ferðinni og fyrirtæki komast í markaðsráðandi stöðu. Andspænis slíku verður að tryggja gagnsæi og takmörkun fjölmiðlavalds, afnema forréttindi og skapa réttlátar aðgangsleiðir. Fjölmiðla- og samskiptakerfið verður að vera þannig að það hvetji ekki til samþjöppunar valds, hvorki á sviði stjórnmála né viðskipta, upplýsinga eða tækni," segir í yfirlýsingunni sem má lesa í heild sinni hér.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Sæll Svavar!

Umræðuefnið þarft.

En alhæfing þín um að vinstri-menn hafi gerst talsmenn frjálshyggjuviðhorfa gagnvart fjölmiðlum.  Markaðurinn eigi að ráða og ríkisvaldið eigi ekki að vera með afskipti!

Hvenær hafa þær yfirlýsingar komið frá frá ,,vinstri-mönnum"?  Hvaða stjórnmálaöfl breyttu rekstri Ríkisútvarpsins í hlutafélagið Ríkisútvarpið ohf.?

Voru það ,,vinstri-menn" sem mest gagnrýndu kostun stórfyrirtækja sbr. nýjan samstarfssamning RÚV og Björgólfs Guðmundssonar?

Eru stærstu hluthafar í útgáfum prentmiðlanna ,,vinstri-menn"?  Eða helstu stuðningsmenn þessa eignarhalds?

Vinkill sem ég hefi ekki séð áður og langar í meiri upplýsingar. 

Eru þessar röksemdir þínar vegna umfjöllunar um fjölmiðlafrumvarp Forsætisráðherra 2005?

Voru Sjálfstæðismenn almennt að fylgja pólitískri sannfæringu sinni á því að takmarka frelsi markaðar á fjölmiðlum?  Eða fylgdu þeir leiðtoga sínum gagnrýnislaust í gegnum þá umræðu?  Hvað með 52% eignarhald Björgólfs Guðmundssonar á Árvakri?  Hafa þeir kvartað yfir því?  Hvar er þá samræmið? 

Er það sem var forboðið í gær, leyfilegt í dag?

Eða erum við að ræða um persónuleg pólitísk viðhorf?

Fæ vonandi röksemdir.

 Að örðu leyti hafðu þúsund þakkir fyrir frábær pistlaskrif í gegnum tíðina.

Alma Gudmundsdottir (IP-tala skráð) 1.2.2008 kl. 14:45

2 Smámynd: Svavar Alfreð Jónsson

Frjálshyggjuviðhorfin sem ég sagði að íslenskir vinstri menn hafi tekið upp á sína arma voru þau að ekki ætti að setja nein sérstök lög um eignarhald á fjölmiðlum. Ég heyrði marga vinsti menn halda því fram í þeirri takmörkuðu "umræðu" sem fram hefur farið um þessi mál hér á landi.

Ég sakna ekki umræðu um fjölmiðlafrumvarp forsætisráðherra. Ég sakna umræðu um eignarhald á fjölmiðlum. Tilvalið hefði verið að taka hana í tilefni af títtnefndu fjölmiðlafrumvarpi. Það gerðist því miður ekki.

Svavar Alfreð Jónsson, 2.2.2008 kl. 00:02

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband