13.2.2008 | 00:30
Ískirkjan
Í gær var ég á fundi með fólki í ferðaþjónustu á Akureyri.
Það á sér þá eðlilegu skýringu að Akureyrarkirkja er einn vinsælasti viðkomustaður ferðamanna í bænum. Við áætlum að 30- 40.000 túristar komi í kirkjuna á hverju ári.
Þjónusta kirkjunnar við ferðafólk er alltaf að batna. Mörg undanfarin sumur höfum við verið með manneskju í vinnu við að sýna kirkjuna.
Síðustu tvö sumur hefur ferðamannaprestur, sr. Jóna Lísa Þorsteinsdóttir, einnig verið í kirkjunni. Hún annast helgihald og ýmsa þjónustu við ferðafólk.
Akureyrarkirkja er til í myndaalbúmum fólks vítt og breitt um veröldina. Gjarnan taka ferðamenn sér stöðu neðst í kirkjutröppunum og beina myndavélum sínum upp í brekkuna.
Sumir Þjóðverjar kalla Akureyrarkirkju "Eiskathedrale" eða Ískirkjuna. Það er t. d. gert hér og því haldið fram að fólk streymi til kirkjunnar úr öllum heimshornum til að láta skíra börn sín og gifta sig.
Ekki er það nú alveg sannleikanum samkvæmt, ekki frekar en sú staðhæfing þýsku vikkípedíunnar að kirkjan sé nefnd Jóakimskirkja.
Kirkjan heitir heldur ekki Matthíasar-Jochumssonar-kirkjan.
Þessi ferðamaður sér klukkan hvað hann tók þessa mynd af kirkjunni.
Og hér er ágæt ítölsk umfjöllun um Akureyri og Akureyrarkirkju.
Ferðaskríbent stórblaðsins Times skrifar líka vel um höfuðstað Norðurlands og segir Akureyrarkirkju "fascinating Art Deco cathedral".
Þessir túrhestar náðu hefðbundinni mynd af kirkjunni en máttu ekki inn ganga vegna útfarar.
Mynda má Akureyrarkirkju frá ýmsum hliðum eins og sést hér og hér.
Að lokum er hér mynd sem vann í samkeppni Iceland Express en það ágæta flugfélag flýgur tvisvar í viku milli Akureyrar og Kaupmannahafnar sumarmánuðina.
Athugasemdir
Held að við verðum að taka okkur til minn kæri Svavar og leiðrétta þýsku Wiki-síðuna um Akureyri. Sniðugast finnst mér að þarna er að finna lýsingu á því að ein af hinum kirkjunum á Akureyri sé með mjög sérstakan turn. Og að kirkjulega lúðrasveitin taki sig til reglulega og spili þaðan lög sem heyra megi um allan norðvesturhluta Akureyrar.
Svo er náttúrulega spurningin hvort að verið sé að vísa í Jóakim aðalönd þegar kirkjan ykkar góða er nefnd Jóakimskirkja.
Reyndar er þeim nokkur vorkun því að hvorki Glerárkirkja né Akureyrarkirkja er með upplýsingar á ensku eða þýsku um kirkjurnar og starfið á heimasíðum sínum. Þarna þurfum við að taka okkur tak.
Pétur Björgvin, 13.2.2008 kl. 09:12
Leit inn. Hvenær eigum við að koma í kapp upp kirkjutröppurnar. Ég myndi hafa þig þú ert orðinn svo þéttur samkvæmt eigin lýsingum. Hvernig væri annars að hafa alvöru keppni -kirkjutröppuhlauð - sem myndi verða heimsfrægt. Er eitthvað svoleiðis til. það mætti hafa ýmsar (kirkjulegar) varíasjónir. Hlaupið með brúði! Hlaupið með brúðguma! Hlaupið með kistu (sex þáttakendur) o.s. frv.Kv. B
Baldur Kristjánsson, 13.2.2008 kl. 09:52
Mér finnst kenningin um Jóakim aðalönd mjög heillandi og er nokkuð annað en frábær hugmynd að láta lúðrasveit blasta úr turni Glerárkirkju, helst eldsnemma á sunnudagsmorgnum?
Ekki eru hugmyndir Baldurs síðri enda fer þar frjór maður. Ég sé líka fyrir mér bobsleðakeppni þar sem prestar renndu sér niður kirkjutröppustallana og nýttu til þess kisturnar úr kistuhlaupinu.
Og prósessíuboðhlaup milli prófastsdæma.
Eða pokaprestahlaup. Við' værum góðir í því.
Svavar Alfreð Jónsson, 13.2.2008 kl. 11:22
Nú er því miður ekki lengur jafn gaman að lesa kaflann á þýsku Wiki síðunni um kirkjur á Akureyri, tók tilhlaup (af því að ég á að vera gera allt annað) og gerði fyrstu breytingar á síðunni sem eru vonandi til bóta.
Pétur Björgvin, 13.2.2008 kl. 11:31
Sæll Svavar...mikið rétt hjá þér. Gaman og gott að hitta þig í gær
Júlíus Garðar Júlíusson, 13.2.2008 kl. 22:56
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.