Homo oeconomicus

homo-oeconomicusÉg hef verið að lesa Bréf til Maríu, prófetíska bók þess fróða og vel skrifandi miðaldasagnfræðings, Einars Más Jónssonar.

Þar kemur við sögu rit frá árinu 1978, Demain le Capitalisme (Á morgun, kapítalisminn) eftir franska frjálshyggjuhagspekinginnn Henri Lepage. Sá heldur úti bloggi með því skemmtilega nafni La page lepage.

Ekki hef ég lesið neitt eftir Lepage, en samkvæmt Einari heldur hann fram einhvers konar alræðiskapítalisma. Kapítalisminn er í raun eina alvöru stjórnmálastefnan, því hann er í samræmi við eðli mannsins, segir Lepage.

Manneskjan er með þeim ósköpum gerð að hún hugsar bara um eigin hag. Maðurinn er homo oeconomicus og hægt er að gera grein fyrir allri hegðun hans með hagfræðilegum aðferðum.

Markaðslögmálin eru í raun hið eina lögmál í veröld þar sem allt er vara. Meira að segja börnin. Þau kosta peninga. Sá sem eignast barn er að fjárfesta í ákveðnum gæðum.

Finnist einhverjum ógeðfellt að líta á barn sem neysluvarning ætti hann að lesa bókina The Economic Approach to Human Behavior eftir bandaríska hagfræðinginn Gary Stanley Becker, sem út kom um svipað leyti og Demain le Capitalisme.

Þar heldur Becker því fram að hagfræðileg lögmál ráði nánast öllu í mannheimum, allt frá þróun tungumálsins til messusóknar, svo dæmi séu tekin.

Meira að segja hin hinstu rök mannlegrar tilveru, dauðinn, er hagfræðilegt fyrirbæri. Becker segir flest ef ekki öll dauðsföll sjálfsvíg, því hægt hefði verið að slá dauðanum á frest ef fjárfest hefði verið meira í einhverju af því sem lengir lífið.

Becker lætur ekki nægja að útskýra ýmsa þætti mannlegrar hegðunar með hagfræðirökum. Hann býr til formúlur um þá.

Um börn segir hann að þau sé yfirleitt ekki hægt að nálgast á frjálsum markaði heldur verði fólk að framleiða börnin sjálft. Fjölskyldur nútímans séu hættar hvers konar sjálfsþurftarbúskap nema að þessu leyti. Þær framleiði sjálfar börnin.

Becker heldur því líka fram að þar eð dýrara sé fyrir ríkt fólk að skilja en annað slíti það síður samvistir en fátækara fólk.

Hann hefur einnig tjáð þá skoðun sína að versla ætti með líffæri fólks á frjálsum markaði og fann út viðmiðunarverð á nýrum og lifrum.

Sanngjarnt verð fyrir nýru er 15.000 dollarar en fyrir lifur þarf maður að punga út heilum 32.000 bandaríkjadölum.

Gary Becker fékk nóbelsverðlaunin í hagfræði árið 1992.

Hann gerir líka út bloggsíðu.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: halkatla

það hljómar einsog þessir gaurar lifi dáldið í sínum eigin heimi, það væri hægt að yfirfæra þessar alræðiskenningar á allskonar aðra hluti, t.d halda því fram að maðurinn sé fyrst og fremst tilfinningavera og að tilfinningaformúlur sem byggjast á samskiptum við aðra og ýmis fyrirbæri séu útreiknanlegar og fyrirsjáanlegar. Og ábyggilega má finna fleiri dæmi.

Varðandi það að ríkt fólk skilji síður þá væri gaman að fá alvöru tölfræði, er ekki ríka fólkið alltaf að skilja? mér hefur skilist það

halkatla, 14.2.2008 kl. 10:02

2 Smámynd: Brjánn Guðjónsson

þetta er að vissu leiti rétt. maðurinn hugsar að mestu leiti um eigið rassgat. þó er undantekning þar á. þegar kemur að afkvæmunum erum við, flest, tilbúin að fórna sjálfum okkur og öllu öðru sem okkur finnst alla jafna skipta máli.

ég myndi fórna öllu. gersamlega öllu. væri það spurningin um að bjarga börnum mínum frá háska.

Brjánn Guðjónsson, 14.2.2008 kl. 21:23

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband