Bænakransinn

Erfiður dagur er liðinn.

Blessun hans var að sjá hlýjuna og elskuna sem sorgin laðar fram í manneskjunum.

Við erum oft upptekin af því neikvæða.

Á svona degi sést hvað við getum verið góð hvert við annað.

Ég gerði þetta ljóð fyrir vinkonu mína sem söng það inn á disk fyrir síðustu jól.

 

Sé sál mín þreytt og þjáð

og þessi veröld grá,

ef engin á ég ráð,

sé engin svör að fá,

engin gefast grið,

glötun blasir við,

ljósið finnur leið,

líknin mína neyð.

Bænin vekur von og frið.

 

Sú bæn sem borin er

frá brjósti þjakaðs manns

til himinhæða fer

og hnýtt er þar í krans.

Öll þau óskablóm

áttu hvert sinn róm,

hrópið hjarta frá,

heit og einlæg þrá.

Bæn er ekki orðin tóm.

 

Þótt myrkrið mitt sé kalt

og margt sem ég ei skil,

er einn sem heyrir allt,

með öllum finnur til.

Upp í  dimmum dal

dagur renna skal,

sálin þreytt og þjáð

þiggur ást og náð.

Bæn er aldrei eins manns tal.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Kolbrún Stefánsdóttir

Sæll Svavar. Þetta er yndislegt ljóð og mikið í því .

,,Bæn er ekki orðin tóm.

Bæn er aldrei eins manns tal."

Bæn sem stígur frá brjósti manns er það sem ég trúi á fyrst og fremst.

Það er kraftur ástar og kærleika til einhvers annars en sjálfs sín. Hvað við köllum svo þann eða það sem framkvæmir bænina eða henni er beint til er svo hvers og eins að ákveða. En takk fyrir að deila þessu fallega ljóði og guð geymi þig ( :) ) kveðja Kolla.

Kolbrún Stefánsdóttir, 23.2.2008 kl. 09:07

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband