28.2.2008 | 08:50
Kirkjuvika
Kirkjuvikur hafa verið haldnar í Akureyrarkirkju allt frá árinu 1959. Þær hafa alltaf byrjað fyrsta sunnudag í mars, á æskulýðsdegi Þjóðkirkjunnar. Jón Kristinsson, fyrrum formaður sóknarnefndar Akureyrarsóknar, sagði í ávarpi við setningu 16. kirkjuvikunnar árið 1990 að hún hefði þann tilgang að "auka fjölbreytni í safnaðarlífinu og kalla söfnuðinn til virkara liðsinnis í kirkjunni".
Nú er 25. kirkjuvikan að hefjast. Dagskráin er fjölbreytt. Nokkur dæmi:
Mánudaginn næsta, 3. mars, verða tónleikar Ragnheiðar Gröndal í Akureyrarkirkju.
Hefð er komin á tónleika í kirkjunni í tengslum við æskulýðsdaginn. Andrea Gylfadóttir reið á vaðið fyrir mörgum árum ásamt Kjartani Valdimarssyni en síðan hafa margir þjóðkunnir listamenn komið fram á þessum samkomum.
Tónleikar Ragnheiðar hefjast kl. 21 og undirleikari er Ómar Guðjónsson.
Stúlknakór Akureyrarkirkju hefur oftast lagt sitt af mörkum til æskulýðsdagstónleikanna og verður væntanlega ekki breyting á því að þessu sinni.
Laugardaginn 8. mars er blásið til heilmikils málþings í Safnaðarheimili Akureyrarkirkju undir yfirskriftinni "Kirkja og skóli", en töluverð umræða hefur verið í þjóðfélaginu um samvinnu þessara stofnana.
Framsögumennirnir fjórir hafa allir kynnt sér málið, hver með sínum hætti.
Dr. Svanur Kristjánsson, prófessor við Háskóla Íslands, fer í saumana á grundvallaratriðum í erindi sem hann nefnir "Lýðræði, kristni og íslenska þjóðkirkjan".
Sr. Þórhallur Heimisson, prestur í Hafnarfjarðarkirkju, skoðar efnið í sögulegu samhengi eins og heiti hans innleggs gefur til kynna, "Kirkja og skóli í sögu og samtíð".
Kristín Dýrfjörð, lektor við Háskólann á Akureyri, spyr í sínu erindi hvort það sé forsjárhyggja leikskólakennara að vilja eða vilja ekki sunnudagaskólann inn í leikskólann.
Karl Frímannsson, skólastjóri Hrafnagilsskóla, veltir því fyrir sér hvort gildi skólastarfs þurfi að vera kristileg. Hrafnagilsskóli fékk íslensku menntaverðlaunin í fyrra.
Að íslenskum kirkjusið verður boðið upp á kaffi og með því á málþinginu og til að gera það enn safaríkara ætla hjónin frá Tjörn í Svarfaðardal, þau Kristjana Arngrímsdóttir og Kristján Eldjárn Hjartarson, að flytja gestum tónlist á milli erinda.
Umræður um erindin verða eftir kaffihlé og framsögumenn svara fyrirspurnum. Fundarstjóri er Bergþóra Þórhallsdóttir, aðstoðarskólastjóri Brekkuskóla á Akureyri.
Athugasemdir
Ósköp er herra doktor prófessor Svanur vinur minn dapur á myndinni sem fylgir færslunni. Þú sérð nú til þess séra minn að hann brosi út í bæði þegar hann kemur í heimsókn.
Þorsteinn G. Gunnarsson (IP-tala skráð) 29.2.2008 kl. 13:28
Ég ætla allavega að gera það sem í mínu valdi stendur til að hann fari brosandi suður aftur.
Svavar Alfreð Jónsson, 29.2.2008 kl. 14:44
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.