1.3.2008 | 17:23
Djöflaspegill
Djöfullinn gleðst að sjálfsögðu aldrei innilegar en þegar djöfulskapur ríkir í mannheimum.
Einu sinni gerði hann sér spegil til að auka enn við þá illyrmislegu gleði sína. Sá var þeirrar náttúru að þar minnkaði allt gott í veröldinni en það vonda stækkaði.
Kærleiksverk og frómar hugsanir skruppu saman eins og ullarsokkar í suðuþvotti um leið og ódæði og illhugur bólgnuðu út eins og íslensk bankalán.
Spegillinn varð uppáhaldsleikfang Kölska. Þar gat hann svalað fýsn sinni í að sjá grimmd og vonsku. Góðmennsku greindi hann varla í speglinum enda á hann erfitt með að umbera allt þess háttar.
Svo var það einn daginn þegar Sá svarti var að gamna sér með spegilinn sinn að þar birtust þvílík ósköp af ólýsanlegum hrottaskap og rotnu hugarfari að hann gat ekki hamið fögnuð sinn. Hlátur hans var svo óstjórnlegur, hár og hvellur að spegillinn splundraðist.
Brot hans þeyttust í þúsundmilljónatali yfir jörðina.
Flest brotanna voru svo örsmá að þau geta auðveldlega hafnað í augum okkar mannanna án þess að við verðum þess áskynja. Sjálfur hef ég fundið fyrir flísum úr djöflaspeglinum í mínum. Þá vex mér það illa í augum en það góða og fagra verður varla sýnilegt.
Önnur brot voru myndarlegri og henta vel í gleraugu.
Enn stærri brot eru notuð í sjónvarps- og tölvuskjái.
Oft er t. d. bloggið óttalegur djöflaspegill.
Athugasemdir
Váv. Góður og sannur þessi.
Aida., 1.3.2008 kl. 18:06
Ég held að hann hafi verið að glugga í H.C. Andersen, Hallgerður.
Greta Björg Úlfsdóttir, 2.3.2008 kl. 11:58
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.