Við erum öll hræsnarar

hraesniOfangreind orð eru skrifuð á austurstafn Listasafnsins á Akureyri en þar er nú sýningin Bæ bæ Ísland.

Þessi ábending er þörf nú þegar fastan er að ná hámarki sínu.

Hver manneskja á sér tvær hliðar. Dökka og bjarta. Á föstunni erum við minnt á þá dökku. Þá erum við hvött til þess að horfa í eigin myrkur, heimsku og hroka. Við eigum að kannast við það, viðurkenna það.

Hver sem ekki vill sjá dimmuna í sér er dæmdur til að vera á eilífum flótta undan henni og þar með sér.

Það er mikill en töluvert vinsæll misskilningur að kristindómurinn sé ætlaður góðu fólki og grandvöru. Hann er þvert á móti fyrir hitt fólkið.

Að vísu elskar Guð alla en góða og sterka og hrausta fyrirmyndarfólkið kemst sennilega vel af án hans.

Guð elskar syndarana. Hann elskar manneskjuna eins og hún er. Ekki eins og hún gæti orðið eða ætti að vera.

Okkur er ekki viðbjargandi. Við erum vanmáttug, viljum ekki heyra sannleikann, allra síst um okkur sjálf og þvoum hendur okkar af náunganum.

Aðeins í ljósi Guðs afberum við myrkrið í okkur sjálfum.

Einhvers staðar las ég um mann sem var mjög duglegur að mæta í messur og hafði fyrir sið að þakka presti sínum stólræðuna við kirkjudyr með þessum orðum:

"Gott hjá þér! Þú sagðir þeim heldur betur til syndanna!"

Presti leiddist þessi kveðja. "Sagðir þeim heldur betur til syndanna!" Þessi maður tók auðsýnilega aldrei neitt til sín af því sem sagt var í ræðunni. Aðrir áttu að gera það.

Einn sunnudaginn gerði ægilegan hríðarbyl rétt fyrir messu. Lengi leit út fyrir að ekki kæmi nokkur sála til kirkju vegna óveðursins, en viti menn:

Rétt áður en hringt var inn birtist umræddur maður og fékk sér sæti á sínum vanalega stað.

Það hlakkaði í presti þegar hann steig í stólinn. "Nú læt ég hann heyra það," hugsaði hann með sér og skóf ekki af því, heldur flutti þrumandi ræðu yfir manngarminum, þar sem hann útlistaði hinn efsta dóm, loga heljar og þær ótrúlegu píslir sem fordæmdra bíða.

Prestur beið spenntur eftir því hvernig maðurinn þakkaði honum ræðuna. Sá brá ekki út af vananum, þrýsti hönd prestsins við kirkjudyrnar og sagði:

"Gott hjá þér, prestur minn! Þú sagðir þeim heldur betur til syndanna! Bara að þeir hefðu mætt!"


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Brattur

... þessi er góður Svavar... maður þekkir þessa týpu... alltaf öðrum að kenna, eða aðrir verri en ég... o.s.frv.

Brattur, 17.3.2008 kl. 23:29

2 Smámynd: Aida.

Sanna iðrun , heilög tárin þess bið ég fyrir mig og okkur öll.

I Jesú nafni. Amen.

Aida., 17.3.2008 kl. 23:36

3 Smámynd: Magnús Geir Guðmundsson

Já Svavar minn góður, það er þetta með hliðarnar okkar tvær!

Í svita þíns andlits, pex og puðs,

predikun það er með sanni.

Að syndari ert og sonur guðs,

samankomin í einum manni!

Magnús Geir Guðmundsson, 18.3.2008 kl. 00:53

4 Smámynd: Ingólfur

"Það er mikill en töluvert vinsæll misskilningur að kristindómurinn sé ætlaður góðu fólki og grandvöru. Hann er þvert á móti fyrir hitt fólkið."

Það skildi ekki vera að þarna sé komin ástæða fyrir trúleysi mínu

Gott hjá þér, prestur minn! Þú sagðir þeim heldur betur til syndanna!

Ingólfur, 18.3.2008 kl. 02:35

5 Smámynd: Óskar Arnórsson

Ég setti efirfarandi blogg inn fyrir nokkru síðan og fannst þetta passa: 

Stjórnmálamenn kenna alþjóðamálum um hvernig komið er í fjárhagsmálum. Embættismenn kenna stjórnmálamönnum um hvernig komið er.

Fyrirtæki kenna skattinum um að ekki sé hægt að reka nein fyrirtæki hér að viti. Fjármálamenn kenna íslensku krónunni um allt tap sem þeir hafa orðið fyrir.

Laglaunafólk kennir verkalýðsfélögum um að vertryggja ekki launakjör. 

Lögregla kennir Birni ráðherra um niðurskurði á fjárveitingum í þeirra starfssemi, og Björn segir að Það sé Geir Harde að kenna..

Heilbrigðisstétt kennir heilbrigðisráðherra um öll vandamál á spítölum.

Dómarar kenna lögum um þá skrítnu dóma sem tröllríður landinu í augnablikinu 

Atvinnulaus kennir útlendingum um að hann hafi ekki vinnu.

Tryggingarstofnun segir að það sé Alþingi að kenna að lög sem búið er að ákveða á Alþingi sé ekki komnar til þeirra með löglegum hætti svo ekki er hægt að greiða bætur út samkv. samþykktum lögum 

Ég kenni konunni minni um að ég eigi ekki hreinar nærbuxur í fyrramálið....

Er nokkuð til sem er ekki einhverjum ÖÐRUM að kenna?

Eru þetta skilaboðin til barna framtíðarinnar? Svari hver sem betur getur.. 

Ég las krisnifræði áður en ég fermdist og ég var einn af tveimur sem fékk 10 í einkunn, svo ég held að það sem mér datt í hug og skrifaðu niður hér að ofan sé Biblíunni að kenna...

Óskar Arnórsson, 18.3.2008 kl. 09:11

6 identicon

Gaman að rekast á trúarlegt blogg. Ég er svo trúuð í dag.

Og þetta með dimmuna sem vex ef við flýjum. Takk fyrir það.

Hinsvegar fór ég að hugsa um þessa tvískiptingu, gott og vont,  ég skil hvað þú meinar en stundum virkar þessi skipting ekki.  

www.heimsveldi.blogspot.com

Elísabet Jökulsdóttir (IP-tala skráð) 18.3.2008 kl. 18:46

7 Smámynd: Óskar Arnórsson

Ath. Svavar! þetta er EKKI rétt hjá þér. ALLIR eru ekki hræsnarar. það er kallað að vera með sleggjudóma! það eru ábyggilega til fólk á Íslandi sem ekki eru hræsnarar. Ég veit 100% um eina gamla konu á Íslandi sem er það ekki. Næsta manneskja sem ég veit um er í Asíu.

Ég vona að þú heilsir ekki nýfæddu barni með orðunum: "þú ert hræsnari" það væri ekki gott. "Í UPPHAFI VAR ORÐIÐ, OG ORÐIÐ VAR GUÐ!" það væri gaman að vita hvort við legðum sama skilning í þessu djúpu orð, og að mínu viti allt sem maður þarf að vita um Guð...er ég of einfaldur? 

Óskar Arnórsson, 18.3.2008 kl. 21:16

8 Smámynd: Svavar Alfreð Jónsson

Ég er þakklátur fyrir athugasemdirnar, bæði í bundnu og óbundnu máli.

Óskar: Orðin "við erum öll hræsnarar" standa þessa dagana á Listasafninu á Akureyri. Eru sleggjudómar alltaf til bölvunar? Geta þeir ekki fengið okkur til að hugsa? Oft eru þeir líka ekki alveg út í bláinn. Listamaðurinn sem skrifaði á listasafnsvegginn að við værum öll hræsnarar er ef til vill að benda á að þjóðfélagið sé löðrandi í hræsni og hún sé á ólíklegustu stöðum? Og ef til vill hann fá okkur til að líta í eigin barm - nokkuð sem hræsnurum dettur sjaldan í hug eins og þú bendir á í þinni góðu færslu.

En heilt fólk, einlægt og sjálfu sér samkvæmt er líka til, Guði sé lof. Það er mikil gæfa að kynnast slíku fólki.

Svavar Alfreð Jónsson, 18.3.2008 kl. 22:56

9 Smámynd: Óskar Arnórsson

Ef orðið "sleggjudómar" eiga rétt á sér til að "vekja okkur upp" þá má menda á orð, eins og "við eru öll rasistar" eða við erum öll sundug" eða "hvað sem er" í sviðuðum dúr. Mér finnst þetta misnotkun á orðum, hver sem notar þau, af hvaða ástæðu sem er, eins og "Grænlendingar búa í "snjóhúsum" sem að hluta til rétt, "grænlendingar lána eiginkonur sínar" sem er líka rétt, em misskilið.

Sleggjudómar og alhæfing eru tvö orð yfir sama fyrirbærið, og bæði neikvæð. Ég hef aldrei vitað til þess að neikvæðni hafi komið nokkrum á hærra vitundarstig... 

Óskar Arnórsson, 18.3.2008 kl. 23:39

10 Smámynd: Óskar Arnórsson

...ég gleymdi einu. það gæti verið að ég væri með vinnuskaða sem lýsir sér því, að ég hef séð marga geðtruflaða reyna að fela sig í gervi listamanna...hef verið með því að afhjúpa nokkra "listamenn"....með góðum árangri og jákvæðum...

Óskar Arnórsson, 18.3.2008 kl. 23:43

11 Smámynd: Svavar Alfreð Jónsson

Og nú langar mig að koma með alhæfingu og sleggjudóm sem gæti komið okkur á hærra vitundarstig, Óskar.

Við erum öll geðtruflaðir listamenn.

Svavar Alfreð Jónsson, 18.3.2008 kl. 23:47

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband