Fimm mínútur

fimmÞað má gera alveg óskaplega margt og mikið á fimm mínútum.

Svo er hægt að klúðra öllu saman á jafnvel enn styttri tíma.

Það er t. d. hægt að yrkja prýðilegt ljóð á fimm mínútum.

Fimm mínútur eru yfirleitt kappnóg til að lesa íslenskt dagblað eða til að vera kominn með veðrið næstu dagana á hreint - hér og í öðrum heimshlutum.

Ég hef útbúið dýrlegar máltíðir á fimm mínútum (þótt ég verði að viðurkenna að mér hefur aldrei tekist að ljúka sómasamlegri máltíð á þeim tíma).

Fimm mínútna ástaratlot geta verið hreinn unaður og bjargað hvort heldur sem er deginum eða nóttinni.

Fimm mínútur nægja fyllilega til að fá eitursnjalla hugmynd sem gæti leyst hlýnunarvandann í eitt skipti fyrir öll.

Og eftir aðrar fimm mínútur er maður svo búinn að gleyma lausninni sem hefði getað bjargað veröldinni.

Vel er hægt að eignast góðan vin fyrir lífstíð á fimm mínútum. Og hver hefur ekki tapað vini á innan við fimm mínútum?

Fimm mínútur eru góður tími til að mala baunir og sjóða þykkt og freyðandi espressó.

Fimm mínúturnar eru sennilega málið.

Ég er með flotta bók í höndunum. Fimm mínútna Biblían heitir hún og er að koma út þessa dagana.

Á hverjum degi lest þú stuttan kafla úr Biblíunni og færð útskýringar á því sem þú last á mannamáli. Hver lesning er skemmtilega uppsett með örlitlum pælingum til að koma þér af stað.

Þú þarft ekki nema fimm mínútur á degi hverjum til að kynnast bók bókanna og sjá "eilífðina á líðandi stund" eins og það er orðað á bókarkápu.

Bókin er þýdd úr norsku af sr. Hreini Hákonarsyni og það er ávísun á gott og vandað mál.

Það á svo ekki að taka nema í mesta lagi fimm mínútur að kaupa þessa bók.

Mínúturnar fimm gera gæfumuninn.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Óskar Arnórsson

hmm...og hvar kaupir maður þessa bók?

Óskar Arnórsson, 19.3.2008 kl. 00:28

2 Smámynd: Svavar Alfreð Jónsson

Bókina færðu í öllum betri bókabúðum - hún er gefin út af Skálholtsútgáfunni. Góða nótt, Óskar minn!

Svavar Alfreð Jónsson, 19.3.2008 kl. 00:31

3 Smámynd: Óskar Arnórsson

Góða nótt..góði maður..

Óskar Arnórsson, 19.3.2008 kl. 00:34

4 Smámynd: Magnús Geir Guðmundsson

Ég segi nú bara góðan dag Svavar minn, þú lest þetta nú ekki fyrr en dagur hefur risið að nýju!

Mér var nú snemma uppálagt að borða ekki matin of hratt, þó það hafi nú gengið svona og svona, þarft því ekkert að hafa miklar áhyggjur af að hafa ekki hesthúsað máltíðirnar á fimm mínútum eða skemmri tíma.

En mikið rétt, þegar andin kemur yfir þá þarf maður ekki einu sinni tvær mínútur að berja saman stökukorni eins og því sem ég laumaði að þér hér að neðan!

Magnús Geir Guðmundsson, 19.3.2008 kl. 00:50

5 Smámynd: Magnús Geir Guðmundsson

Tek undir með Hallgerði, 11 míunútur fín bók um fegurð og ást sem jafnvel getur leynst í ólíklegustu afkimum.Bersögul, en ekkert klám!

Magnús Geir Guðmundsson, 20.3.2008 kl. 01:37

6 identicon

Snilld. Keypti mér einmitt Biblían á 100 mínútum um daginn. Er samt ekki byrjaður. Þarf að finna réttu 100 mínúturnar í þetta.

Darri (IP-tala skráð) 30.3.2008 kl. 13:37

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband