31.3.2008 | 22:34
Opnar kirkjur og efaþor
Ég skrifaði pistil dagsins á tru.is. Þar fjalla ég um þær vanmetnu gersemar sem kirkjur landsins eru. Sumar þeirra eru alltof lítið opnar - jafnvel þótt þær séu á vinsælum ferðamannastöðum. Engin þörf er fyrir stanslausa dagskrá í kirkjunum. Aðeins að fólk geti litið þangað inn, skoðað sig um og átt hljóða stund.
Íslenskar kirkjur gætu verið miklu túrhestavænni en þær eru.
Og fyrst ég er farinn að vísa á tru.is verð ég að benda á frábæra prédikun eftir dr. Sigurð Árna Þórðarson sem líka birtist þar í dag. Hún heitir Þorðu að efast.
Ég mæli með þessari ræðu.
Athugasemdir
Af hverju byggði Jésu Kristur enga kirkju??
Óskar Arnórsson, 31.3.2008 kl. 22:49
Takk fyrir það Svavar. 'Eg er svo sammála með það að kyrkja Guðs sem eru allir þeir er elska hann og tilbiðja koma sér of sjaldan saman í bæn, hugleiðslu og lofgjörð.
Eg fyrir mitt leyti bý á Vestfjörðum og er ekki nema annaðhvorn Sunnudag sem ég get farið í söfnuð minn hér.
Svo eru sungið fáein lög úr sálmabókinni en tek það fram að prestur okkar hér er mjög einlægur og flytur ágætis ræðu í 10 mín.
Ef ekki væri fyrir bók bókanna og bloggið mitt,þá væri ég andlega dauð.
Það er hægt að vera mjög einmanna í trúnni.
Og væri ég það ef ekki fyrir besta vin minn Jesú Krist,þá væri ég andlega dauð.
Drottinn blessi þig Svavar í Jesú nafni.Amen.
Aida., 1.4.2008 kl. 08:18
Af því að Óskar spyr hér að ofan að þá sagði Jésú þetta t.d.
Það má því ljóst vera að Jésú væri ekkert sérstaklega sæll með að byggðar séu kirkjur fyrir milljarða til bænahalds. En kannski var Jésú ekkert að meina það sem hann sagði þarna eins og stundum þar sem hann talar í biblíunni.
Arnold (IP-tala skráð) 1.4.2008 kl. 10:28
41Foreldrar Jesú ferðuðust ár hvert til Jerúsalem á páskahátíðinni. 42Þegar hann var tólf ára fóru þau upp þangað eins og þau voru vön og tóku Jesú með sér. 43Þau voru þar út hátíðisdagana. En þegar þau sneru heimleiðis varð sveinninn Jesús eftir í Jerúsalem og vissu foreldrar hans það eigi. 44Þau hugðu að hann væri með samferðafólkinu og fóru eina dagleið og leituðu hans meðal frænda og kunningja. 45En þau fundu hann ekki og sneru þá aftur til Jerúsalem og leituðu hans.
46Eftir þrjá daga fundu þau hann í helgidóminum. Þar sat hann mitt á meðal lærifeðranna, hlýddi á þá og spurði þá. 47En alla, sem heyrðu til hans, furðaði stórum á skilningi hans og andsvörum. 48Og er þau sáu hann þar brá þeim mjög og móðir hans sagði við hann: „Barn, hví gerðir þú okkur þetta? Við faðir þinn höfum leitað þín harmþrungin.“
49Og hann sagði við þau: „Hvers vegna voruð þið að leita að mér? Vissuð þið ekki að mér ber að vera í húsi föður míns?
(Lúkas 2, 41 - 49)
Svavar Alfreð Jónsson, 1.4.2008 kl. 10:47
Atyglisvert að Jesú er þarna í mótsögn við sjálfan sig. Eða þá að hann hafi skipt um skoðun síðar á ævinni, hann er jú orðinn fullorðin þegar hann segir það sem ég vitna í
Arnold (IP-tala skráð) 1.4.2008 kl. 11:53
í húsi föðurs míns, give me a break
DoctorE (IP-tala skráð) 1.4.2008 kl. 12:13
Hvað sem Jesú fannst um kirkjur er staðreynd að hér á landi er heill hellingur af þeim. Ég er að benda á að upplagt sé að hafa þær meira opnar. Og dokksi fær allt það breik sem hann vill.
Svavar Alfreð Jónsson, 1.4.2008 kl. 12:45
Þetta er áhugaverð predikun að heyra frá presti. Sérstaklega þessar línur:
"Biblíuna eigum við ekki að gleypa alla í einu eins sagði í gömlum húsgangi. Nei, við eigum að taka Biblíuna alvarlega en ekki bókstaflega. Við eigum að lesa hana með gagnrýni og heilbrigðum efa. Hið sama gildir um trúarkenningarnar. Trú getur ekki lifað þar sem nauðung og skyldutrú ríkja."
Það er kannski ósanngjarnt af mér að spyrja þig úr í orð einhvers annars, jafnvel þó hann sé kollegi þinn. En er þetta ekki nákvæmlega það sem þið eruð gagnrýndir fyrir? Þorið þið t.d. ekki að efast um tilvist Guðs, eða t.d. upprisu Krists, eins margsinnis og hún hefur staðfastlega verið hrakin? Það er einmitt þetta með að efast um orð Biblíunnar - það ætti að lesa hana eins og Hómerskviður. Hún verður ekki verri fyrir það.
Kristján Hrannar Pálsson, 1.4.2008 kl. 14:05
Já, íslenskir prestar eru nefnilega svo afskaplega jákvæðir þegar kemur að efasemdum varðandi kenningar kirkjunnar.
Annars er afskaplega fyndið að hugsa út í það að höfundur þessarar "frábæru" predikunar flokkast að öllum líkindum sem villutrúarmaður.
Hjalti Rúnar Ómarsson, 1.4.2008 kl. 17:28
Jú að hafa kirkjur alla daga, þó að þar sé enginn prestur eða aðrir til að taka á móti manni er alveg sjálfsagt. Labba stundum inn í kirkjur hérna úti í hvaða landi sem ég nú staddur í. En það vantar stundum að láta vita að ekki sé læst eins og heima. Sigurður Pálsson á Selfossi var og er minn prestur, þótt flestar stundirnar hafi ég haft með Garðari Svavars í Lauganeskirkju með starti í kjallaranum og bara plötuna ofaná. Góðar voru þær stundir með Sigurbjörgu systir minni og seinna líka Sólvegu í kapellunni við Sjómannaskólann á sunnudagsmorgnum þar sem seinna varð Vélstjóraskólinn.
Wolfang
Eyjólfur Jónsson, 1.4.2008 kl. 18:38
Kristján Hrannar: Prestar eins og annað fólk efast um allt mögulegt- en það er sjálfsagt að gagnrýna okkur prestana. Haltu því endilega áfram. Sjálfur efast ég um allt mögulegt, m. a. þá staðhæfingu þína að upprisa Jesú Krists hafi verið hrakin hafi margsinnis og staðfastlega.
Hjalti Rúnar: Íslenskir prestar - alla vega þeir sem ég þekki - hafa gaman af að velta fyrir sér kenningum kirkjunnar enda er það hlutverk þeirra að koma þeim til skila og túlka þær í nútímanum. Fróðlegt að heyra það álit þitt að dr. Sigurður Árni sé að öllum líkindum villutrúarmaður! Ertu farinn að safna í bálið?
Svavar Alfreð Jónsson, 1.4.2008 kl. 21:04
Þú gætir losnað við þessar efasemdir ef þú kynntir þér eitthvað skrif manna um upprisuna. Það er ekki beint mikið mál að hrekja ævintýralegar fullyrðingar sem fyrirfinnast í ritum sem eru fullar af ævintýralegum frásögnum.
Villutrú er nú hugtak sem er komið frá kirkjunnar mönnum. Sömu menn hafa líka staðið að því í gegnum tíðina að brenna villutrúarmenn. Síðast í dag birtist grein í Morgunblaðinu þar sem þjóðkirkjuprestur minnti á að prestar ættu að fylgja hinum svokallaða rétttrúnaði.
Ég sé ekkert athugavert að kalla hlutina sína réttu nöfnum, Sigurður Árni getur ekki einu sinni klárað fyrstu setninguna í Postullegu trúarjátningunni.
Hjalti Rúnar Ómarsson, 1.4.2008 kl. 22:57
"Þú gætir losnað við þessar efasemdir ef þú kynntir þér eitthvað skrif manna um upprisuna," segir Hjalti Ómar.
Hann er einn þeirra Vantrúarmanna sem áfellast aðra fyrir bókstafstrú, en þegar grannt er skoðað er hann sjálfur haldinn stækri bókstafstrú. Hjá honum er ekkert pláss fyrir efann og hann virðist vera í herferð gegn þeim sem hafa hann - að maður tali nú ekki um hrokann sem í því er fólginn að gefa í skyn að ég hafi ekkert kynnt mér skrif manna um upprisuna.
Vel má vera að villutrú sé hugtak sem ekki er komið frá Hjalta sjálfum en engu að síður er það hann sem klínir þeim merkimiða á fólk hér í þessari umræðu.
Hjalti virðist nefnilega hafa allt aðrar hugmyndir um það hvernig kristnir menn eiga að vera, hverju þeir eiga að trúa og um hvað þeir megi efast en þeir sjálfir.
Hann veit það allt saman líka miklu betur en þeir sjálfir og þeir sem ekki passa inn í hans mót af því hvernir kristnir menn eiga að vera innréttaðir eru villitrúarmenn.
Ósköp er þetta nú aumkunarverður málflutningur.
Svavar Alfreð Jónsson, 2.4.2008 kl. 08:50
Sæll Svavar
Þessi umræða fer vonandi ekki að snúast um upprisuna eða einfaldar staðreyndir í eðlis- og líffræði. En finnst þér ekki ankannalegt að efast frekar um gagnrýni á upprisuna heldur en upprisuna sjálfa? Hvað með alla þá aðra guði sem áttu að hafa risið upp frá dauðum mun fyrr, s.s. Dýonísos, Míthra, Bel o.fl.? Kristið fólk les gríska goðafræði eins og hlutlausir aðilar (ef þú lest um t.d. Dýonísos á wikipedia er fróðlegt að bera hann saman við Jesú), en þegar kemur að Biblíunni kemur annað og trúgjarnara hljóð í strokkinn. Það hef ég aldrei skilið.
Ef þið ætlið að efast skal efinn ganga jafnt yfir allt.
Kristján Hrannar Pálsson, 2.4.2008 kl. 11:33
"Biblíuna eigum við ekki að gleypa alla í einu eins sagði í gömlum húsgangi. Nei, við eigum að taka Biblíuna alvarlega en ekki bókstaflega. Við eigum að lesa hana með gagnrýni og heilbrigðum efa," segir dr. Sigurður Árni í ræðunni sem er kveikja þessara umræðna.
Ef til vill ættir þú að lesa hana aftur.
Svavar Alfreð Jónsson, 2.4.2008 kl. 12:40
"Við eigum að lesa hana með gagnrýni og heilbrigðum efa," segir dr. Sigurður Árni í ræðunni sem er kveikja þessara umræðna."
Hvað er heilbrigður efi? Halti nálgast biblíuna með gagnrýni. Ég geri það líka. Mér finnst biblían svo fráleit að ég einfaldlega hafna henni. Aðrir kjósa að túlka hana svo hún verði bærilegri og er þá fátt orðið sameiginlegt með þeim túlkunum og texta biblíunnar. Mér og fleirrum finnst það undarleg nálgun. Fyrir það erum við oft kölluð bókstafstrúar
Arnold (IP-tala skráð) 2.4.2008 kl. 13:10
"Mér finnst biblían svo fráleit að ég einfaldlega hafna henni," segir Arnold.
Bókstafstrúarmaðurinn trúir "einfaldlega" Biblíunni.
Þeir sem "einfaldlega" hafna henni eiga þennan "einfaldleika" sameiginlegan með bókstafstrúarmönnunum.
Svavar Alfreð Jónsson, 2.4.2008 kl. 13:31
Svavar: Var hann e.t.v. að meina að hann hafni henni sem trúarriti en samþykki hana sem bókmenntarit? Ég geri það a.m.k.
Varstu síðan að svara mér fyrir ofan athugasemd Arnolds?
Kristján Hrannar Pálsson, 2.4.2008 kl. 13:57
Nei. Þeir sem lesa Biblíuna með gagnrýni og heilbrigðum efa eru alls ekki að hafna henni sem trúarriti.
Og já, ég var að svara þér hér ofar.
Svavar Alfreð Jónsson, 2.4.2008 kl. 14:04
Sæll Svavar
Ég las predikunina aftur. Og já, ég tel mig lesa Biblíuna (eða þá hluta sem ég hef lesið) með gagnrýnum huga - einfaldlega sem góða bók! Sem nemi í sagnfræði ber mér að greina trúverðugleika Biblíunnar út frá ritunartíma, fjölda mögulegra höfunda, tímasetningar á handritum, siðmenningu þeirra sem skrifuðu hana, hvaðan helgisögurnar í henni eru fengnar að láni og þannig má endalaust telja. Ég tæpti líka á því í athugasemd minni fyrir ofan.
Þú svaraðir hins vegar ekki spurningu minni hvers vegna þú lest grískar goðsögur eða Snorra-Eddu með (að mínu mati) heilbrigðum efa, á meðan þú trúir á upprisu Jesú Krists, þegar þú sem guðfræðingur hlýtur að hafa lesið um hvaðan sú helgisaga er komin. Það finnst mér óskiljanlegt.
Kristján Hrannar Pálsson, 2.4.2008 kl. 14:14
Og í sambandi við "höfnun" á Biblíunni þá átti ég við að Arnold hugsanlega hafnaði Biblíunni sem trúarriti rétt eins og ég og þú höfnum Kóraninum eða vísindaskáldsögum L. Ron Hubbard sem trúarritum, þó þær séu áhugaverðar bókmenntir. Að sjálfsögðu er hægt að gera það á hinn veginn, þó það sé spurning hversu mikið maður þarf að "trúa" í ritinu til að það flokkist undir manns eigið trúarrit.
Kristján Hrannar Pálsson, 2.4.2008 kl. 14:22
Kristján Hrannar: Sem nemi í sagnfræði ættir þú að vita að nemar í guðfræði læra ritskýringu Biblíunnar þar sem fengist er við spurningarnar um ritunartíma, mögulega höfunda, handrit og svo framvegis. Slík skoðun þarf alls ekki að rýra trúarlegt gildi bókarinnar. Í mínu tilfelli dýpkaði hún þvert á móti hið trúarlega gildi hennar.
Orðalagið "hvaðan helgisögurnar eru fengnar að láni" er nú reyndar ekki mjög sagnfræðilegt og að minni hyggju ekki heppilegt til að lýsa samspili ólíkra trúarhugmynda í sögu trúarbragðanna.
Vel má lesa grískar goðsögur með heilbrigðum efa og trúa á upprisu Jesú Krists. Það er meira að segja hægt að lesa sögurnar af upprisu Jesú Krists með heilbrigðum efa og trúa um leið á hinn upprisna Jesú Krist.
Sá upprisni er ekki það sama og sögurnar af hinum upprisna.
Sá sem segir Biblíuna hafa trúarlegt gildi fyrir sig er ekki að halda því fram að Biblían sé hárnákvæmt sagnfræðirit. Hún er það reyndar alls ekki og var ekki einu sinni skrifuð í þeim tilgangi, eins og þú sjálfsagt veist.
Svavar Alfreð Jónsson, 2.4.2008 kl. 14:58
Svavar Alfreð, þú hafnar væntanlega kóraninum og þeirri trú sem hann boðar? Eigum við það þá ekki sameiginlegt? Getur þú þá sýnt mér skilning þegar ég hafna biblíunni og þeim skýringum á veröldinni sem þar koma fram "einfaldlega" vegna þess að mér finnst hún fráleit?
Að ég sé bókstafstrúar af því ég trúi ekki því sem stendur í biblíunni er auðvitað bara broslegt
Arnold (IP-tala skráð) 2.4.2008 kl. 15:31
Mér finnst alltaf jafn fyndið að heyra það að ég sé haldinn bókstafstrú, hvað þá stækri. Raunin er nefnilega sú að þegar ég bið um útskýringar er fátt um svör. Að hvaða leyti er ég haldinn "stækri bókstafstrú"?
Rangt. Hjá mér er alveg nóg pláss fyrir efa og ég er alls ekki í herferð gegn þeim sem hafa efa, það mætti frekar segja að ég væri í herferð gegn skort á efa.
Ef þú veist ekki að upprisa Jesú hefur verið hrakin "margsinnis og staðfastlega", þá er afar eðlileg ályktun að þú hafir einfaldlega ekki kynnt þér skrif manna um hana. Nema auðvitað að þú hafir gert það, en skortir efa.
Nei, þetta er alrangt. Þegar ég segi að Sigurður sé að öllum líkindum villutrúarmaður, þá er ég einfaldlega að notast við orðfæri og mælikvarða kirkjunnar manna, sem finnast meðal annars í játningunum þínum.
Hjalti Rúnar Ómarsson, 2.4.2008 kl. 16:42
Sæll Svavar
Það sem okkur greinir á hér sýnist mér vera mismunandi skilgreining okkar á "heilbrigðum efa". Hinn nafnlausi Arnold hittir naglann á höfuðið þegar við báðir "höfnum" öðrum trúarritum á nákvæmlega sama hátt og ég "hafna" Biblíunni í þeim skilningi að ég les hana sem venjulega bók. Hver er ástæðan?
Þú segist gera greinarmun á þeim upprisna og sögunum af honum. Hvað áttu við nákvæmlega? Varla sögurnar í Biblíunni?
Síðan er það önnur umræða, þó skyld þessari, um hvaðan hitt og þetta í Biblíunni er fengið. Það er alveg ljóst að stór hluti ævistarfs Jesú er ekki frá honum upprunninn - og það segi ég án þess vonandi að hljóma menntahrokafullur. Enda er sagnfræðilegt gildi Biblíunnar, eins og þú segir, oft misjafnt.
Kristján Hrannar Pálsson, 2.4.2008 kl. 18:44
Kristján: Það er held ég rétt athugað hjá þér að við notum hugtökin ekki alltaf í sömu merkingu og það kemur niður á umræðunni. Ég get til dæmis ómögulega samþykkt að heilbrigður efi felist í því að hafna einhverju algjörlega eða samþykkja það algjörlega. Þess vegna talaði ég um að sá sem afneitar gæti verið verið í sömu sporum og hinn sem trúir bókstaflega.
Sá sem efast þarf ekki að vera skoðanalaus. Hann getur haft hugsjónir og verið trúaður - en engu að síður efast. Efast um sig. Þótt hann haldi ekki öllu opnu er hann alla vega tilbúinn að opna sé bankað. Líta út - og sýna öðrum inn. Til að læra af öðrum og miðla öðrum af sínu. Til þess þarf að þora að efast - eins og dr. Sigurður orðar það svo vel.
Ekki ætla ég samt að syngja efanum endalaust lof - ekki frekar en Sigurður gerir í prédikuninni. Það sýnir líka hugrekki að hafa skoðanir og sannfæringu - hvort sem um er að ræða trú eða trúleysi.
Greinarmunurinn á þeim upprisna og sögunum af þeim upprisna er ef til vill sá sami og munurinn á trúarlegri hughyggju annars vegar og trúarlegri hluthyggju hins vegar. Mig minnir að Páll Skúla hafi skrifað um þetta í fyrri Pælingabókinni en hef ekki tök á að fletta því upp núna.
Svo þakka ég ykkur áhugann, viðmælendur góðir.
Svavar Alfreð Jónsson, 2.4.2008 kl. 21:06
Sá áhugi fer nú reyndar að dvína þegar þú skorast sífellt undan að nefna ástæðu þess að þú efast um Biblíuna rétt eins og við báðir efumst (eða höfnum, ef við viljum nota það orð) um Kóraninn.
Kristján Hrannar Pálsson, 3.4.2008 kl. 14:53
Svavar, ég sé að þú vilt ekki breyta hefðinni og útskýrir ekki að hvaða leyti ég á að vera "haldinn stækri bókstafstrú".
Hjalti Rúnar Ómarsson, 3.4.2008 kl. 17:43
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.