2.4.2008 | 13:23
Blessaður svefninn
Þegar þú sofnar hefur þú ekki lengur stjórn á þér. Þú andar og hjartað slær í brjósti þínu án þess að þú gerir þér grein fyrir því. Þú ert ekki lengur við stjórnvölinn. Það ómeðvitaða ræður. Þú ferð inn í land draumanna þar sem allt getur gerst.
Nútímamaðurinn sefur helst ekki. Hann er vakandi. Ræður sér sjálfum. Mótar líf sitt sjálfur. Er alltaf á vaktinni. Hefur augun opin fyrir tækifærunum. Missir ekki af tilboðum tilverunnar.
Hræddur maður sefur illa. Óttinn er versti óvinur svefnsins.
Sumir hræðast ekkert.
Nema svefninn, það að afhenda honum völdin.
Það kostar kjark að sofna.
Svefninn er þjóðhagslega óhagkvæmur. Ef allir væru sísofandi þyrfti enginn neitt og þar af leiðandi keypti enginn neitt.
Þess vegna eru auglýsendurnir alltaf að hvetja okkur til að vakna. Sífellt er verið að reka okkur á lappir.
Hjól hagkerfisins fara ekki að snúast fyrr en neytendurnir fara fram úr, knúnir af óttanum við að vera að missa af deginum.
Það er útbreiddur misskilningur að dagurinn byrji með geislum morgunsólarinnar. Nýr dagur hefst á miðnætti. Þegar allt er dimmt og í fastasvefni og enginn veit af sér.
Þegar þú vaknar færðu nýjan dag að gjöf. Hann varð til meðan þú svafst án þess að þú hefðir nokkur fyrir því.
Blessaður sé svefninn.
(Myndin með færslunni er úr Tacuinum Sanitatis, handbók frá miðöldum um heilsu og hreysti, sem byggð er á arabískri læknisfræði. Þar er meðal annars fjallað um blessun svefnsins.)
Athugasemdir
Ég er nú bara sofandi sauður og hef ekkert um þetta meira að segja.
Sigurður Þór Guðjónsson, 4.4.2008 kl. 21:50
Æi, þakka þér Nimbus (geislabaugur) minn, fyrir að kommentera á þessa snilldarfærslu mína sem enginn hefur haft neitt að segja um.
Svavar Alfreð Jónsson, 5.4.2008 kl. 01:49
Mörg sannleikskorn þarna Svavar og "vekja" mann til umhugsunar. Takk.
Júdas, 5.4.2008 kl. 07:07
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.