5.4.2008 | 21:43
Tónlistarhelgi
Tónlistin setur sterkan svip á þessa mína helgi.
Á föstudagskvöldið bauð Haukur á Græna hattinum til veglegrar tónlistarveislu.
Andrea Gylfadóttir og hennar blúsmenn fóru á kostum.
Andrea er auðvitað mín oltæmfeivorituppáhaldssöngkona en hún hafði heldur engar liðleskjur með sér að sunnan, valmenni á hverju hljóðfæri. Þetta var stórkostlegt og í kvöld ætlar söngkonan og hennar fylgisveinar að skemmta Húsvíkingum. Þeir eru öfundsverðir.
Í fyrramálið ætla ég svo að skíra barn í messu. Móðirin er húsvísk - pabbinn húnvetnskur. Hann ku vera vel liðtækur söngvari en hún er einn albesti fiðluleikari sem ég hef heyrt og ætlar að leika fyrir okkur forspilið.
Í messunni verður einnig frumfluttur sálmur eftir sómamanninn Hauk Ágústsson. Hann lét sig ekki muna um að gera bæði textann og lagið.
Klukkan fimm á morgun ætla ég síðan á tónleika í Akureyrarkirkju. Eyþór Ingi Jónsson, orgelsnillingur, efnir þá til árlegra óskalagatónleika. Þeir eru þannig framkvæmdir að fólki gefst kostur á að senda Eyþóri tillögur að lögum til flutnings.
Í fyrra spilaði hann allt mögulegt, m. a. Dallaslagið, sem var eftirminnilegt.
Ég sendi inn tvö óskalög. Annað verður flutt. Irish Boy eftir Mark Knopfler.
(Vissuð þið að risaeðlutegund er nefnd eftir honum og heitir masiakasaurus knopfleri? Steingervingafræðingarnir voru með Dire Straits á fóninum þegar þeir uppgötvuðu tegundina.)
Hitt lagið verður að bíða betri tíma. Two out of three ain´t bad með Meatloaf. Ég er viss um að það er flott á pípuorgeli.
Eyþór ætlar líka að spila lag með uppáhaldshljómsveitinni minni, Queen. Er ekki ráðist á garðinn þar sem hann er lægstur. Bohemian Rhapsody verður spilað.
(Bohemian Rhapsody hefur að geyma mörg skemmtileg orð - scaramouche, fandangos, basmala, Galileo Galilei, Beelzebub - að ógleymdu Mama mia. "Oh mama mia, mama mia, mama mia let me go..." Lagið sem velti Bohemian Rhapsody úr fyrsta sæti breska vinsældarlistans var einmitt Mama mia með Abba.)
Ég er heppinn að hafa eyru þessa helgina.
ES
Í messunni áðan tjáði meðhjálparinn minn mér að hún hefði sótt yndislega tónleika á Græna hattinum á fimmtudagskvöldinu. Þar spilaði og söng stórsjarmurinn Hörður Torfason.
Athugasemdir
Blessaður Svavar!
Skemmtileg lesning, var annars að velta fyrir mér hvort þetta væri hún Lára Sóley sem þú ættir við, unga móðirin og fiðlusnillingurinn frá Húsavík?
Og já, söngsnótin hún Andrea stendur ávallt fyrir sínu!
Tónlistarsmekkur þinn svo ekki sá allra versti haha!
Magnús Geir Guðmundsson, 5.4.2008 kl. 22:57
Rétt hjá þér, Magnús Geir, hún Lára Sóley spilar fyrir okkur í fyrramálið. Bestu kveðjur til þín!
Svavar Alfreð Jónsson, 5.4.2008 kl. 23:05
Skrifa nú á PC hallæristölvu mér til afþreyingar. Búin að pakka niður makkanum , einu tölfunni sem ég treusti. Trúi að músik hafi lækningarmátt.
Setti á bloggið mitt eina lagið sem bjargaði mínu lífi vegna óþægileg atviks sem ég er enn að berjast við.
Þú kemur manni sífellt á óvart með andlegri þekkingu sem ég væri svo sem tilbúin að vilja læra sjálfur ef ég hefði tíma.
Takk fyrir frábæra færslu að venju. Lýsi hér með yfir takmarkaðru þekkingu á músik, nema þeirri sem höfða til mín persónulega..
Óskar Arnórsson, 6.4.2008 kl. 09:20
Fyrigefðu Svavar minn, er þetta ekki stytta af mér þarna liggjandi á borðinu á myndinni hérna að ofan? Ég man ekki eftir því hvenær hún var tekin. Með beztu kveðju.
Bumba, 6.4.2008 kl. 10:25
Assgoti ertu naskur!
Svavar Alfreð Jónsson, 6.4.2008 kl. 12:33
Þú ert algjör engill Svavar!! hehe..Í alvöru trúi ég á þá. en er ekki búin að fá nein réttindi samkv. minni skoðun á sjálfum mér..þ.e. biðja um aðstoð...
Óskar Arnórsson, 6.4.2008 kl. 13:30
Texti Queen Bohemian Rhaps. hefur reyndar verið íslenskaður en það kannski ekki margir.
Ísl. þýðing hefst svona .
Annars bara takk fyrir skemmtilega síðu.
Gunnar Níelsson, 6.4.2008 kl. 17:41
Sum komment skil ég ekki...eins og Gunnars hérna?? Er ég sljór á eitthvað sem ég skil ekki?
Ég er alltaf vopnaður, frekar gamall kækur en tilefni. Eina vesenið ef lögregla fyndi vopnið. þar sem ég er búin að vera kennari í "trixum" um allt mögulegt, þá finnur engin íslensk lögregla, þó hún hefði sprengiefna, eða skotfæra hund sér til aðstoðar, þá fyndi hún ekkert hjá mér.
Að sjálfsögðu vita þeir samt að ég er alltaf með skammbyssu mér til varnar, sem er ekkert merkilegra fyrir mig en fyrir fólk sem læsir bílnum sínu og skilur EKKI lyklana eftir í honum.
Er þetta komment þitt, Gunnar ætlað mér? Svavar hefur sjálfsagt enga ástæðu að vera vopnaður, en það hef ég..
Óskar Arnórsson, 6.4.2008 kl. 19:29
Óskar, Óskar, nei, nei, ekkert skot bara saklaust grín. Þ.e Þessi texti við þetta frábæra lag er til á íslensku og er hann bara nokkuð skemmtilegur.
Biðst forláts hafi ég gengið fram af þér eða öðrum, það var svo sannarlega ekki mín hugsun.
Gunnar Níelsson, 6.4.2008 kl. 21:24
Ekki mín heldur Gunnar! sorry, slæmur dagur hjá mér bara..Bið forláts á ruddaskapnum í mér..ekkert illa meint..
Óskar Arnórsson, 7.4.2008 kl. 19:05
Ég bað organistann minn að spila veraldlegt eftirspil í fermingarmessunum. Hann valdiBohemian Rhapsody og það kom rosalega vel út. Kórinn var vinsamlegast beðinn að syngja ekki með.
Sigríður Gunnarsdóttir, 7.4.2008 kl. 21:23
Má ég spyrja Sauðárkróksprestinn, af hverju mátti kórinn ekki syngja með ? Með beztu kveðju.
Bumba, 7.4.2008 kl. 23:30
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.