8.4.2008 | 21:18
Berfættur sálnahirðir
Í hinu virðulega blaði Church Times, einu helsta málgagni anglíkana, rakst ég á frétt um prest í ensku kirkjunni sem er hættur að nota skó og fer allra sinna ferða berfættur.
Presturinn, Stephen Lowe, segist þar feta í fótspor ekki ómerkari manns en heilags Frans frá Assisi. Kveðst hann öðlast alveg sérstaka andlega innsýn við það að ganga berfættur. Hann sé næmari á það sem hann gengur á enda finni berfættur maður betur fyrir mýkt, hörku, kulda og hita gangflata en sá sem er í skóm.
Hin fjölbreytilegu áreiti á iljar prestsins minnir hann á það hlutverk hans að mæta fólki þar sem það er með sínar fjölbreytilegu þarfir.
Fyrr á árum var séra Lowe skólastjóri í Nýju-Gíneu og telur hann skó dæmi um firringu vestrænna manna frá veruleikanum.
Berfættir menn þurfi að stíga varlega niður og séu því umhverfisvænni en þeir sem þramma um þungsólaðir.
Fyrir þetta tiltæki sitt uppskar Lowe einhverjar háðsglósur frá forhertum og skilningslausum sóknarbörnum en lét þær ekki bíta á sig - ekki frekar en glerbrot, flísar, smásteina og annað sem undir hæla hans leggst.
Þó sýnir hann söfnuðinum þá tillitssemi að klæðast skóm við útfarir - og kann heldur ekki við að fara á veitingastaði á tásunum.
Fréttina má lesa á heimasíðu Church Times og þaðan er myndin fengin.
Athugasemdir
það er hollara að ganga berfættur, alla vega út í náttúrinni..fólk gerir þetta gjarna sér til heilsubótar..ábyggilega fínn kall þessi. Takk fyrir góðan pistil aað venju Svavar..
Óskar Arnórsson, 9.4.2008 kl. 08:20
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.