Glímt við drauga

skrimsliForfeður mínir vestur á fjörðum voru alvörukarlar. Lífsbaráttan var hörð og ekki létti hana að draugar léku lausum hala á svæðinu. Víluðu menn ekki fyrir sér að ráðast gegn slíku skaðræði með berum hnefunum.

Í Hornstrendingabók Þórleifs Bjarnasonar er sagt frá því víkingslynda karlmenni og tryggðatrölli Jakobi Tómassyni (d. 1908).

Þar er meðal annars þessi saga af glímu Jakobs við drauga:

"Haust eitt, meðan Jakob bjó á Nesi í Grunnavík, kom hann kvöld eitt, er tekið var að skyggja, út á hlað. Hann var örlítið hýrgaður af víni. Á hlaðinu voru þeir fyrir, Bjarni sonur hans og mágur, er Ólafur hét. Niðri á túninu stóðu móhrip tvö (rimlakassar undir mó, innsk.), er notuð höfðu verið til þess að reiða í á völl.

Þegar Jakob kemur út á hlaðið, starir hann um stund niður á túnið, en snýr sér svo að syni sínum og mági og segir, að helzt til mikið sé gert úr vaskleika þeirra, þar eð þeir láti afskiptalaust, að draugar og forynjur umkringi bæinn.

Spurði þá Bjarni sonur hans, hvar hann sæi nú drauga.

Jakob sagði, að minna mætti nú sjá en þá djöfla tvo, er niðri á túninu stæðu, og mundi hann ekki una því, að þeir fengju óhindrað að leika sér umhverfis bæinn, og skyldi hann nú gera þeim yngri og vaskari skömm til handa.

Bjarni glotti við, en svaraði engu, þótt vel sæi hann, hverjir draugar þeir væru, er hann talaði um.

Hljóp nú Jakob niður á túnið, tók móhripin og kastaði þeim hátt í loft upp, greip þau aftur og mölvaði, og voru jafnan mörg brot að sjá á lofti. Sjálfur stökk Jakob hátt í loft upp, er hann lék sér með spelabrotin (rimlabrotin, innsk.), og hætti ekki við, fyrr en bæði hripin voru mélmölvuð.

Kom hann þá heim hélaður af svita og sagði, að vart mundu djöflar þeir, er hann hefði átt í höggi við, gera meiri óskunda.

Daginn eftir var Jakob allsgáður. Tíndi þá Bjarni saman stærstu spelabrotin og færði föður sínum með þeim ummælum, að hér væru nú leifarnar af draugum þeim, er hann hefði barizt við kvöldið áður.

Jakob horfði á brotin, glotti við og sagði:

"Einhver ráð munu verða til þess að bæta um þetta, Bési minn.""

Þessi saga er ekki bragðminni fyrir þá sök að Bési, Bjarni Jakobsson, var fyrri maður langömmu minnar, Pálínu Guðrúnar Pétursdóttur. Þau eignuðust tvær dætur, Rebekku og Kristínu. Bjarni dó ungur.

Langafi minn og seinni maður Pálínu var Guðjón Kristjánsson bóndi á Langavelli á Hesteyri. Þeirra börn voru tvíburarnir Jón Stefán og Bjarney Pálína, amma mín.

Og ætli nafnið á ömmu sé ekki komið frá Bjarna Jakobssyni?

ES

Á þessum síðustu jafnréttistímum verður auðvitað að láta þess getið að formæður mínar vestur á fjörðum kölluðu ekki allt afa sinn.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Finnur Hrafn Jónsson

Ég er ekki frá því að Jakobi hafi tekist verkið vel. Að minnsta kosti hef ég ekki orðið var við neina drauga á Nesi þau skipti sem ég komið þangað.

Þannig vill til að afi minn og amma, Kristján Jónsson og Sólveig Magnúsdóttir bjuggu allan sinn búskap á Nesi. Þau giftust 1906. Kristján lést 1934 og Sólveig 1967. Bærinn og jörðin er enn í eigu eftirlifandi afkomenda þeirra.

Sjá myndir frá Nesi og fleiri stöðum í Grunnavík hér: http://grunnavik.is/frettir.phtml?frettid=127

Sjá má meðal annars gamla steinhúsið sem var byggt 1935 á sama stað og bærinn var þegar Jakob vann sín frægðarverk. Einnig sést vörin fyrir neðan bæinn. Sjá má einnig Staðarkirkju og gömlu steinbryggjuna sem verið er að endurbyggja. Neðst má sjá Sigfús Kristjánsson sem er einn eftirlifenda af börnum Kristjáns og Sólveigar.

Síðunni grunnavik.is er haldið úti af þeim öndvegishjónum Friðriki og Sigurrósu sem reka ferðaþjónustu í Grunnavík.

Takk annars fyrir virkilega uppbyggjandi og skemmtilega pistla.

Finnur Hrafn Jónsson, 20.4.2008 kl. 19:10

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband