Höfuðborgarharmagrátur

flateyjjardalurAlltaf er vinsælt að tala um svokölluð byggðamál og hafa allt á hornum sér um þau.

Einu sinni var talað um landsbyggðarvæl.

Nú sýnist mér ekki síður ástæða til að tala um höfuðborgarharmagrátinn.

Hann lýsir sér í því að Reykvíkingar harma hina misheppnuðu höfuðborg og gráta sárt undan öllum frekjuhundunum úti á landi sem eru búnir að eyðileggja borgina fyrir borgarbúum.

Einu sinni var talað um að íbúar í þröngum fjörðum eða einangruðum afdölum væru ekki mjög víðsýnir. Sæu helst ekki lengra en að turninum á litlu sætu sóknarkirkjunni og hugsanlega til baka. Heimaþúfan væri nafli alheimsins.

Nú sýnist mér þessi þröngsýni herja á stóran hluta íbúa Reykjavíkur. Þeir sjá helst ekki lengra en upp á Grundartanga.

Þar hefst sá hluti veraldar sem á máli margra borgarbúa nefnist "landsbyggð".´

Í Reykjavík er rætt um landsbyggðina eins og þar sé um eitthvert eitt afmarkað svæði að ræða og um landsbyggðarfólk eins og eina sérstaka þjóð. Eins konar hobbíta.

Á Landsbyggð eru ekki súlustaðir, fáar hamborgarabúllur og menningin snauð enda eiga íbúarnir þá ósk æðsta að geta selt húsin sín til að komast suður í borgina - sem þeir eru reyndar búnir að stórskemma með heimtufrekju og tilætlunarsemi.

Borgarbúar sjá margir hverjir ofsjónum yfir hvers konar framkvæmdum úti á landi. Nú nöldra þeir út af jarðgöngum og kenna þeim um sitt Sundabrautarleysi.

Mér finnst höfuðborgarharmagráturinn enn leiðinlegri en landsbyggðarvælið. Þó er það slæmt.

Ég er að lesa hið mikla rit Sléttuhreppur fyrrum Aðalvíkursveit. Byggð og búendur eftir þá Kristinn Kristmundsson og Þórleif Bjarnason sem út kom árið 1971.

Í lok bókarinnar er kaflinn Hvers vegna eyddist Sléttuhreppur?

Hér er eitt svar höfunda við spurningunni:

"Skortur samtaka til verklegra framkvæmda var aðalástæða þess, að ungt fólk leitaði úr hreppnum til staða, sem höfðu upp á betri vinnubrögð og öruggari atvinnu að bjóða. Samstaða náðist aldrei innan hreppsins um uppbyggingu atvinnulífs við sjóinn. Staðhættir skipta hreppnum í smærri heildir, og samkomulag varð ekki um framkvæmdir á einum stað, nema allir fengju eitthvað."

Ég held að Slétturhreppur geti verið dálítið Ísland í hnotskurn hvað þetta varðar.

(Myndina hér að ofan tók ég sumarið 2005 af þeim dýrðarfallega unaðsreit Flateyjardal. Hann fór í eyði á síðustu öld og fást þar ekki hamborgarar síðan.)


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Bumba

Mikið þakka ég þér þennan pistil Svavar minn. Orð í tíma töluð. Með beztu kveðju.

Bumba, 18.4.2008 kl. 10:01

2 Smámynd: Óskar Aðalgeir Óskarsson

Þörf ábending Svavar.En hvað skyldu nú margir íbúar höfuðborgarinnar vera af landsbyggðinni,eða utan af landi eins og það er kallað.Svona fyrir utan alla þá sem eiga ættir sínar að rekja út á land.Samt sem áður erum við sem búum úti á landi eins og útlendingar í augum þessa fólks,sem hefur "höndlað hamingjuna í hinni yndislegu Reykjavík".En líf þeirra yrði efalaust fullkomið ef við "útlendingarnir" værum ekki að þvælast fyrir þeim.

Óskar Aðalgeir Óskarsson, 18.4.2008 kl. 10:31

3 Smámynd: Svavar Alfreð Jónsson

Sammála, Guðlaug Helga, samstöðuleysið er þeim að kenna sem samstöðuna eiga að sýna.

Svavar Alfreð Jónsson, 18.4.2008 kl. 12:00

4 Smámynd: Ingólfur

Svavar, ég er sammáli því að Íslendingar láta ansi oft eins og Kristinn lýsir íbúum Sléttuhrepps þarna, en annað get ég ekki tekið undir hjá þér.

Í fyrsta lagi átta ég mig ekki á því hvernig fólk utan af landi á að hafa farið af því að eyðileggja borgina. Reykjavík er vel heppnuð borg, ekki of stór en samt er þar flest að finna sem mann lystir. Þú ert velkominn suður hvenær sem er.

En auðvitað er það margt sem maður vildi hafa betra og mörg slæm mistök hafa verið gerð, en þau eru á ábyrgð borgarbúa sjálfra á þeirra fulltrúa sem þeir hafa kosið á þing og í borgarstjórn. Þær hafa verið margar þarfar stórframkvæmdirnar á landsbyggðinni, en er bannað að setja spurningamerki við það þegar rándýr kosningaloforð eru sett í forgang framfyrir framkvæmdir sem eru langt um hagkvæmari? Þarna er þó aðallega um að kenna að samgönguframkvæmdir eru of neðarlega á lista þingmanna höfuðborgarsvæðisins miðað við þingmenn landsbyggðarinnar.

En þrátt fyrir þetta eru enn margir staðir á landsbyggðinni þar sem þarf nauðsynlega að bæta vegi. Suma staði væri nánast hægt að flokka sem hættusvæði og þeir eiga að sjálfsögðu að hafa forgang. Aðrir vegir fara létt með að hrista ódýrari bíla í sundur eða skafa púströrin undan þeim og það er auðvitað ekki ásættanlegt ef slíkur vegur er eina tenging svæðis við restina af landinu.

En þegar um er að ræða framkvæmdir sem meginhlutverk er bara að stytta ferðatíma að þá ætti hagkvæmni framkvæmdar að ráða mestu um röð framkvæmda.

Og þá skulum við kíkja á Sundabraut. Á fyrri stigum var ein tillaga um legu brautarinnar (fyrsta tillaga með göngum) þannig metin að hún mundi stytta vegalengdir hvað mest innan höfuðborgarsvæðisins. Hún var hins vegar undir því hún var mun dýrari, þó hagkvæmnin væri kannski meiri.
Tillögurnar sem nú koma til greina munu ósköp lítið stytta vegalengdir innan höfuðborgarsvæðisins. Þær munu hins vegar stytta leiðina til landsbyggðarinnar, fyrir höfuðborgarbúa, eða leiðina til höfuðborgarinnar, fyrir landsbyggðarfólkið. En einnig mun brautin bæta við leið út úr borginni ef til þess kæmi einhverntíman að það þyrfti að rýma borgina.

Þessi tiltölulega litla stytting út úr bænum er hins vegar mjög hagkvæm vegna þess að við höfuðborgarbúar förum nefnilega margir út á land við hvert tækifæri. (Þetta væri hins vegar bara fyrir okkur því landsbyggðarfólkið nennir auðvitað ekki að púkka upp á Reykjavík og kemur auðvitað aldrei þangað.) 

Og eins og þið sjáið að þá er ég einn af þessum vöndu Reykvíkingum sem talar um landsbyggðina. Það er hins vegar fáránlegt að taka þessu sem einhverju skammaryrði.

Ég hef lítið kíkt eftir súlustöðum á landsbyggðinni en held að fáir telji það til ókosta landsbyggðarinnar ef þá vantar. Hamborgarabúllurnar eru fjölmargar, líka margir góðir veitingastaðir og fullt af menningu ef maður veit hvar maður á að leita en það sem er ekki síðra, mikið af skemmtilegri sögu.

Víða á Landsbyggðinni er þjónusta lítil, léleg eða dýr og minna um fjölbreytt starfsumhverfi. En það er einmitt ástæða þess að ég mun kjósa að búa á höfuðborgarsvæðinu þegar ég klára námið mitt.

En auðvitað er landsbyggðin ekki öll eins og ég veit það t.d. vel að Sundabrautin mun ekki stytta leiðina til Hveragerðis þó ég hafi sagt að hún mundi  "stytta leiðina til landsbyggðarinnar".
Það er hins vegar bara einfaldara að nota orðið landsbyggðin í stað þess að segja til Vesturlands, Vestfjarða,  Norðurlands og stórs hluta Austfjarða.

Þetta er bara eins og maður segir oft að einhver sé í útlöndum án þess að tilgreina í hvaða landi hann sé.  Og nei, ég er ekki að segja að landsbyggðin séu útlönd.

Og þó að ég noti orðið landsbyggð að þá hafna ég alfarið að þegar höfðuborgarbúar voga sér að tala um landsbyggðina að það sé einhver höfuðborgarharmgrátur. Ég er hins vegar orðinn leiður á væli landsbyggðarinnar um hvað höfðuborgarbúar eiga að vera vondir við hana. 

Ingólfur, 18.4.2008 kl. 14:17

5 identicon

Ég geri ráð fyrir því að Svavar sé að vísa í þessa grein hér http://eoe.is/gamalt/2008/04/14/11.03.04/ sem Egill Helgason hefur keppst við að hrósa.

Fínt innlegg Svavar. 

Kári (IP-tala skráð) 18.4.2008 kl. 14:38

6 Smámynd: Óskar Arnórsson

Takk fyrir frábæran pistil Svavar!

Og takk fyrir kennsluna. Er að hreinsa fordómageymsluna mína og ætla að reyna að biðja í þriðja skiptið þegar ég fæ hugrekki til þess aftur. Þú átt nú smá þátt í því að vinda ofan af ranghugmyndum mínum um presta. Þar ertu búin að gera mér alla vega góðverk Svavar!

Takk fyrir það.

Kveðja, 

Óskar Arnórsson, 18.4.2008 kl. 19:02

7 Smámynd: Svavar Alfreð Jónsson

Við erum ekkert nema fordómarnir, Óskar minn, og aðeins þeim er viðbjargandi sem viðurkenna það.

Svavar Alfreð Jónsson, 18.4.2008 kl. 21:32

8 Smámynd: Óskar Arnórsson

Ég held þú hafir rétt fyrir þér í þessu. Fordómar eru eins og gamli bílskúrinn minn. Fullur af ónothæfu drasli. þarf að þrífa þetta.  Farin að líta á fordóma sem sóðaskap hjá mér sjálfum. Langar ekki að vera sóði á neinu sviði.

Takk fyrir svarið Svavar!

Kannski ég verði einhverntíma betri en mér finnst sjálfum.. 

Óskar Arnórsson, 18.4.2008 kl. 22:04

9 Smámynd: Anna Karlsdóttir

Takk fyrir skemmtilegan pistil.

Ísland er örugglega eina landið sem tvískiptir svæðum á þennan veg, höfuðborg og landsbyggð (við og hinir og öfugt).  Það helgast væntanlega af því að 70% íbúa landsins búa á einu landshorni sem er jú talsvert sérstakt og kannski ekki til fyrirmyndar. Ef að Ísland yrði sett á vog væri það þrælskakkt.

Í flestum öðrum löndum, jafnt fámennum sem fjölmennum er skipt eftir fylkjum, amstmörkum eða svæðum, t.d Norður Noregur, Vestur Noregur, firðirnir, osfrv. Mér hefur löngum fundist þessi skipting leiðigjörn, hún er til þess fallin að tengslasjálfsmynd borgarana spegli sig í við og hinir og þar með er komin upp staða þar sem samborgarar aðgreina sig, ekki þó eftir fjölbreytileika búsetu og bjarga. Ég sé að þú tekur fullan þátt í því. Íslendingar eru ekki andstæðingar innbyrðis en það er hægt að setja mál fram þannig að þeir séu það. 

Anna Karlsdóttir, 19.4.2008 kl. 08:19

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband