Sumarkveðja ritskoðara

Vestmannsvatn03Eftir viðburðaríkan bloggvetur er ógalið að horfa aðeins aftur fyrir sig og rifja upp grundvallaratriði.

Fyrir um það bil ári tók ég upp þann sið að birta ekki athugasemdir hérna nema að hafa skoðað þær áður.

Þetta gerði ég ekki að ástæðulausu. Hingað inn sendu menn athugasemdir sem ég kærði mig ekki um að stæðu á mínu bloggi. Sumar meiðandi og aðrar undir öðrum velsæmismörkum sem ég set.

Auðvitað er mér í lófa lagið að fjarlægja héðan athugasemdir sem ég tel óæskilegar. Þar sem ég sit ekki við tölvuna daginn út og inn voru athugasemdirnar stundum búnar að standa hjá mér dágóðan tíma áður en ég sá þær.

Því fór ég þessa leið: Skoða fyrst. Birta svo.

Ég stjórna þessu bloggi. Það er minn fjölmiðill og mér er alls ekki sama um hvað birtist hér. Tel mig bera á því ábyrgð.

Þetta heitir ritstjórn.

Þessa tilhögun vilja einhverjir skilja þannig að hér sé stunduð allt að því talíbönsk ritskoðun, ég birti aðeins skoðanir mér þóknanlegar og bjóði bara viðhlæjendur mína velkomna.

Þeir sem bloggið mitt lesa sjá að hér er fjölskrúðug skoðanaflóra. Ritstjórn mín felst ekki í því að banna tilteknar skoðanir.

Síðasta mánuðinn hef ég hafnað einni athugasemd. Það gerði ég þann 6. apríl síðastliðinn. 

Lesendum til fróðleiks birti ég hana, án þeirra nafna sem nefnd voru:

"Mér finnst þessi X leiðinlegur "kommetari"

Mér finnst Y ljótur. Svo er hann líka andfúll. "

Ég geri ráð fyrir því að sendandi þessarar athugasemdar hafi ætlað að vera sniðugur en ég vildi ekki taka sénsinn á að særa lesanda minn.

Fyrstu athugasemdinni hafnaði ég 7. júní í fyrra og á síðan þá hef ég hafnað 17 athugasemdum. Þar af var ein endurtekning á fyrri athugasemd og önnur var ekki birt að ósk sendanda.

Ég læt lesendum eftir að dæma um hversu öflug þessi "ritskoðun" mín getur talist - en bið þá að láta mér eftir að stjórna blogginu mínu.

Lesendur mínir eru alls ekki allir sammála mér en langflestir þeirra eru kurteisir eins og ofangreindar tölur sýna.

Ég þakka þeim öllum ánægjuleg og væmnisrík samskipti í vetur og óska þeim gleðilegs sumars.

(Myndina tók ég við náttúruperluna Vestmannsvatn í Aðaldal, einni fegurstu sveit landsins.)


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Guðsteinn Haukur Barkarson

Gleðilegt sumar Svavar minn. 

Guðsteinn Haukur Barkarson, 24.4.2008 kl. 11:57

2 identicon

Gleðilegt sumar til ykkar hjóna héðan úr þorpinu.

Gísli Baldvinsson (IP-tala skráð) 24.4.2008 kl. 12:55

3 Smámynd: Bumba

Gleðilegt sumar Svavar minn og takk fyrir öll hin. Haltu áfram að skrifa svona góða pistla. Með beztu kveðju.

Bumba, 24.4.2008 kl. 13:43

4 Smámynd: Stefán Friðrik Stefánsson

Gleðilegt sumar!

Sammála þér í einu og öllu með kommentadæmið. Met þetta alveg eins. Langbest að skoða fyrst og birta svo. Bloggið manns á ekki að enda sóðabæli einhverra sem maður vill ekkert af vita. Þetta er rétt eins og heimili manns, sem maður vill ekki að óæskilegir taki yfir með dónaskap.

bestu kveðjur

Stefán Friðrik Stefánsson, 24.4.2008 kl. 14:30

5 identicon

Ég óska þér sömuleiðis gleðilegs sumars Svavar, ég er ekkert fúll og vona að þú sért það ekki heldur!

DoctorE (IP-tala skráð) 24.4.2008 kl. 14:41

6 Smámynd: Herbert Guðmundsson

Sæll Svavar Alfreð!

Gleðilegt sumar! Sem ritstjóri á ótal vígvöllum í meira en hálfa öld, geri ég þá einu athugasemd við pistil þinn hér að ofan, að þú ert vitanlega ritstjóri eigin bloggsíðu sem er veigameira embætti og allt annars eðlis en að vera ritskoðari. Aðfinnslur út af því að þú rækir ritstjóraembættið réttilega eru svo óttalega vanhugsaðar, að ekki ætti að eyða orðum að því.

Bestu kveðjur norður. Á mínum tíma á Akureyri voru þeir forverar þínir þar þeir Pétur og Birgir, miklir öðlingar í sínum hlutverkum. Síðan hefur margt breyst og tjáningin er meðal annars í öðrum umbúðum, í og með, og mér finnst þú eiga hrós skilið fyrir framgöngu þína á blogginu - burtséð frá því að ég hef mína eigin afstöðu til trúmála.

Herbert Guðmundsson, 24.4.2008 kl. 15:23

7 Smámynd: Svavar Alfreð Jónsson

Ég þakka þessar kveðjur. Gerist nú jásamkoman öflugri sem aldrei fyrr!

Mér þykir alveg sérstaklega vænt um kveðjuna frá þér, dokksi, að hinum öllum ólöstuðum - og ef ég má gerast pínkuponsulítið væminn. Gangi þér líka allt í haginn.

Ég er heldur ekkert fúll.

Svavar Alfreð Jónsson, 24.4.2008 kl. 15:42

8 Smámynd: Brattur

... gleðilegt sumar Svavar... alltaf gaman að kíkja hérna inn...

Brattur, 24.4.2008 kl. 20:00

9 Smámynd: Aida.

Gleðilegt sumar Svavar.

Takk fyrir skrifin þín.

Drottinn blessi þig og varðveiti í Jesú nafni. Amen,amen.

Aida., 24.4.2008 kl. 21:28

10 Smámynd: Linda

Sæll Svanur gleðilegt sumar og ég skil vel afstöðu þína.  Vona að sumarið verið sólríkt fyrir okkur öll með viðeigandi blessun og gleði sem fylgir fallegu sumri.

kv.

Linda, 25.4.2008 kl. 03:04

11 Smámynd: Ingólfur

Sæll Svavar,

Ég er sjaldan sammála en ég get staðfest það að ég hef ekki orðið var við neina ritskoðun hjá þér af mínum andsvörum.

Það er hins vegar ákveðnir gallar á þessu fyrirkomulagi. T.d. er engin leið að sjá hvort ritstjórinn sé að stunda ritskoðun. Það eru nefnilega ekki allir sem fara jafnt sparsamlega með þetta vald og þú. T.d. hafa ansi margar athugasemdir frá mér aldrei birst á síðu bloggvinar þíns Stefáns F og engar skýringar á því gefnar þó eftir því sé leitað.

En venjulegir notendur hafa enga leið til þess að sjá mun á "ritstjóranrstíl" þessara síðna.

Annar ókostur er síðan að þetta hægir töluvert á umræðunni, þar sem lesendur geta ekki skipts á skoðunum um upphafsefnið nema að þú sért staddur við tölvuna þína.

Ég skil hins vegar alveg sjónarmið þitt að þú viljir stjórna þessu að fenginni reynslu, en ég tel það æskilegra, ef það er hægt, að sleppa þessu. 

Ingólfur, 25.4.2008 kl. 09:21

12 Smámynd: Svavar Alfreð Jónsson

Ég er sammála þér, Ingólfur Harri. Erfitt getur verið að sjá hvers eðlis ritstjórn (eða ritskoðun) á sér stað.

Þess vegna byggjast samskipti okkar á trausti. Sumir myndu orða það þannig að þau byggðust ofurlítið á trú. Þeirri trú að ég sé sanngjarn.

Ég vona að ég reynist þíns trausts verður - og þakka þér fyrir öll þín málefnalegu innlegg.

Svavar Alfreð Jónsson, 25.4.2008 kl. 09:39

13 Smámynd: Svavar Alfreð Jónsson

Hérna fyrir ofan flýtti ég mér of mikið: Fyrsta setningin átti að hljóma:

"Ég er sammála þér, Ingólfur Harri. Erfitt getur verið að sjá hvers eðlis ritstjórn (eða ritskoðun) sú er sem á sér stað."

Svavar Alfreð Jónsson, 25.4.2008 kl. 09:41

14 Smámynd: Theódór Norðkvist

Ég óska Svavari, sem lesendum og bloggurum, gleðilegs sumars og þakka samskiptin á liðnum vetri.

Ég er sammála Ingólfi Harra. Mín skoðun er að við eigum að hafa þennan samskiptamáta, bloggið, sem allra frjálsast og það er erfitt að veita frelsi nema veita það líka þeim sem misnota frelsið.

Þetta svar hefur ekki verið myndað.

Theódór Norðkvist, 25.4.2008 kl. 10:54

15 Smámynd: Sigurður Þór Guðjónsson

Verður þetta komment nokkuð ritskoðað? Gleðilegt sumar!

Sigurður Þór Guðjónsson, 25.4.2008 kl. 14:58

16 Smámynd: Svavar Alfreð Jónsson

Ég lá lengi yfir þessu kommenti frá þér.

Svavar Alfreð Jónsson, 25.4.2008 kl. 15:00

17 Smámynd: Matthías Ásgeirsson

Lesendum til fróðleiks birti ég hana, án þeirra nafna sem nefnd voru:

"Mér finnst þessi X leiðinlegur "kommetari"

Mér finnst Y ljótur. Svo er hann líka andfúll. "

Ég geri ráð fyrir því að sendandi þessarar athugasemdar hafi ætlað að vera sniðugur en ég vildi ekki taka sénsinn á að særa lesanda minn.

Þú þarft ekki að hlífa mér, ég skrifaði þessa athugasemd.  Húmorsleysi hrjáir marga trúmenn, það hlýtur að blasa við að þarna er ég að gera grín að Y og dómi hans á mér sem kommentara.

En hvað ef ég hefði orðið ógurlega sár yfir þeim dómi þessa manns, tókstu bara sénsinn á því eða var þér alveg sama - hvað veist þú nema ég hafi grátið mig í svefn marga daga vegna þess að honum þykir ég leiðinlegur kommentari?  Ah, er þetta spurning um Jón og séra Jón?

Reyndar varð ég síðar nokkuð feginn þessar ritskoðun, þegar ég sá að Y stærði sig af vopnaburði í annarri athugasemd. Það þótti mér alvarlegt mál og Y var lítill greiður gerður með því að láta þau skrif hans standa.

Matthías Ásgeirsson, 25.4.2008 kl. 16:27

18 Smámynd: Svavar Alfreð Jónsson

Finnst þér enginn munur á því annars vegar að segja að einhver sé leiðinlegur kommentari - þótt það sé svo sem ekki sérlega málefnalegt - og hins vegar að hann sé ljótur og andfúll?

Mér þykir mjög leitt ef þú hefur grátið þig í svefn út af athugasemdum sem hér eru birtar og bið fólk að gæta orða sinna.

Svavar Alfreð Jónsson, 25.4.2008 kl. 18:03

19 Smámynd: Matthías Ásgeirsson

Munurinn er sá helstur að annað er augljóst grín, hitt er alvara.  Athugasemd mín, sem þú ritskoðaðir, var augljóslega sárasaklaus.   Jafn saklaus og athugasemdin um JVJ og djöfullinn sem fór svo óskaplega fyrir brjóstið á sumum trúsystkinum þínum.

Vopnaburðurinn var ekkert grín. 

Matthías Ásgeirsson, 26.4.2008 kl. 00:00

20 Smámynd: Svavar Alfreð Jónsson

Eigum við ekki að bara að fara að halla okkur og hætta þessu tuði. Það hefur ekkert upp á sig og er engum til ánægju eða gagns. Allra síst okkur sjálfum. Góða nótt. 

Svavar Alfreð Jónsson, 26.4.2008 kl. 00:18

21 Smámynd: Júdas

Það er ekki laust við gæsahúð og brosi vegna sátta DoctorE og Svavars.  Þetta endar allavega fallega og verð ég að segja að DoctorE er kannski ekkert svo slæmur heldur bara stríðinn!?

Umræðan um að henda út nafnleysingjum fór hinsvegar fyrir brjóstið á mér og minnti mig á "galdraofsóknir", því misjafn er sauðurinn í mörgu fé og alls ekki þannig að verstu commentin komi frá NL. 

Júdas, 27.4.2008 kl. 09:09

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband