Vann í lottói - orðinn auðmaður!

hjolborupeningarRétt í þessu var fröken Sandra Hans hjá Sponsor Loterij International að senda mér tölvupóst þess efnis að ég hefði unnið í lottóinu hennar, hvorki meira né minna en

"Award Sum of One Million Euro" segi ég og skrifa, á lukkunúmerið 2311111.

Nú sé ég öll mín fjárhagsvandræði leysast.

Frá og með deginum í dag telst ég auðmaður. 

Fer vel á því að það gerist á baráttudegi verkalýðsins því nú kveð ég brauðstritið. Þar að auki er uppstigningardagur og ég er auðvitað í sjöunda himni út af þessu. Ennfremur mun vera dagur eldri borgara. Þetta óvænta happ gerir það að verkum að allur kvíði fyrir elliárunum hverfur eins og dögg fyrir sólu.

Fyrir nokkrum árum keyptum við okkur íslenskan lottómiða, hjónin. Við vorum að fara út í Ólafsfjörð og festum kaup á miðanum á leiðinni út úr bænum. Þá var að mig minnir þrefaldur pottur, eitthvað í kringum 18 milljónir.

Við fórum að tala um það í bílnum hvernig við ætluðum að eyða vinningsupphæðinni. Nýtt hús og nýr bíll var ekki spurning. Ennfremur góð utanlandsferð með fjölskyldunni. Þá eitt og annað handa börnunum og öðrum ástvinum. Eitthvað rynni til líknarmála. Við vorum mjög rausnarleg í því þótt ég segi sjálfur frá.

Til þess að gera langa sögu stutta vorum við búin með alla peningana við Hlíðarbæ.

Þangað eru einir fimm kílómetrar.

Eyðslan hjá okkur var sem sagt 360 milljónir á hundraðið reiknast mér - sem verður að teljast dágott.

Hvað er ein milljón evra annars í íslenskum?

Ætli þurfi að borga skatt af þessu?

Og Guð blessi hana Söndru Hans.

 

amen2ES

Miðað við fyrstu athugasemdirnar við þessa færslu sýnist mér allir draumar um auðfengið ríkidæmi vera að hrynja. Framundan eru krepputímar og glerhart í ári hjá mörgum. Þeir hjá Church Times fá Amen dagsins fyrir þessa mynd.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Gísli Sigurðsson

Ég er ansi hræddur um að þú sitjir nú ekki einn að þessum vinningi. Ég fékk nefnilega tilkynningu um að ég ætti þetta númer líka. Þannig að þú verður aðeins að róa þig í eyðslunni, allavega að deila með tveimur, minni jeppa, minni villu og bara allt svona minna í sniðum. En ég verð að segja að þetta er gífurlegt áfall að sjá það að ég sit ekki einn að þessum glæsilega vinningi.

Gísli Sigurðsson, 1.5.2008 kl. 20:15

2 Smámynd: Guðni Már Henningsson

Velkominn í hópinn. Annars er þetta pínöts hjá því sem ég vann.... á þriðju milljón evra... eigum við að kaupa flgroup?

Guðni Már Henningsson, 1.5.2008 kl. 21:00

3 Smámynd: Sigurður Hreiðar

Ef þetta er eitthvað svipað þeim gríðarlegu vinningum sem ég fæ annað slagið tilkynningu um að ég hafi unnið grunar mig að ekki sé sopið kálið -- ætli þú þurfir ekki að leysa einhverjar þrjár þrautir, svo sem gefa upp bankareikninginn þinn, leggja einhverja fúlgu inn á einhvern reikning í útlöndum eða eitthvað í þeim dúr.

Ég hef fyrir reglu að framsenda allt svona beint til ríkislögreglunnar. Fólk þar á bæ er trúi ég í sambandi við starfssystkini í útlöndum sem kunna að meðhöndla svona álfasögur.

Sigurður Hreiðar, 2.5.2008 kl. 10:06

4 Smámynd: Hólmgeir Karlsson

Til hamingju með vinninginn Svavar. Ég fékk einn svona líka en ég bað hana Söndru að koma upphæðinni til rlr því þeir væru í miklum verr settir peningalega en ég, ættu hvorki rafmagns eða plastbyssur og yrðu bara að notast við spreybrúsa greyin :)

Hólmgeir Karlsson, 2.5.2008 kl. 21:09

5 Smámynd: Ingólfur

Ég fer venjulega eftir reglunni "Ef það hljómar of gott til að vera satt að þá er það." En hver veit, kannski er þetta bara Guð að sjá um sína.

Annars held ég að Sandra ætti að hafa platupphæðirnar lægri. Ég gæti nefnilega kannski trúað því að ég hefði unnið 1.000€ eða jafnvel 10.000€. En milljón Evrur í lottói sem ég hef aldrei heyrt um, hvað þá tekið þátt í, ég held ekki.

Ingólfur, 3.5.2008 kl. 16:33

6 Smámynd: Óskar Arnórsson

Frábær vinningur. Peningur í huganum sem er eytt í huganum og allir hamingjusamir...ég fæ bara svona lottotilkynningar á PC, aldrei á makkanum. Samt er Macintosh þrisvar sinnum dýrari enn PC! Ég ætti kannski að selja Makkan, kaupa mér þrjár PC og verða þrefaldur milli í evrum!

Óskar Arnórsson, 4.5.2008 kl. 02:44

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband