5.5.2008 | 22:53
Lottóvinningurinn var ekki gabb!
Þann 1. maí síðastliðinn tilkynnti fröken Sandra Hans hjá Sponsor Loterij International að ég hefði unnið eina milljón evra í því kunna lotteríi eins og frægt er orðið.
Enn hef ég ekkert séð af þessum peningum en er kominn vel áleiðis með að eyða þeim.
Öfundsjúkir bloggarar hafa keppst við að telja mér trú um að fröken Hans hljóti að hafa óhreint mjöl í sínum peningapokahornum og hafa beðið mig að opna kampavínsflöskurnar ekki alveg strax.
Sumir hafa jafnvel gert stólpagrín að einfeldni minni og trúgirni.
Ég skal viðurkenna að ég var orðinn dálítið smeykur um að fröken Hans væri ekki öll þar sem hún er séð - þó að ég hafi aldrei séð hana.
Nú sé ég að ótti minn var ástæðulaus. Ég get haldið áfram að eyða og kampavínið mun freyða í glösunum hérna á morgun.
Áðan fékk ég staðfestingu á því að lottóvinningurinn var ekkert gabb.
Mér barst með öðrum orðum tölvupóstur frá brasilískum herramanni að nafni Reginaldo Oliveira.
Sá á enga ósk heitari en að gerast sérlegur lífvörður minn.
Eða svo ég vitni í hans eigin tölvupóst:
"I am a Professional Life Guard with several years of experience in 5 stars hotel in
Brazil. I really want to have an international experience abroad in Middle East , USA or
Cruise Ships."
Síðan kemur senjor Oliviera sér beint að efninu og falast eftir vinnu hjá mér:
"Could you send me an Application for Employment? I am ready to pay for my flight an visa expenses."
Ég hlýt að vera orðinn dýr fyrst menn suður í Brasilíu eru tilbúnir að kosta sig sjálfir heimsálfa á milli til að geta gætt lífs míns og lima.
ES
Alveg sé ég senjor Oliveira fyrir mér þar sem hann stendur grár fyrir járnum við suðurhlið altarisins meðan ég messa sallarólegur. Síkvik augu hans undir sólgleraugunum skanna ískyggilegan söfnuðinn og nema hvers konar skyndilegar hreyfingar í kirkjubekkjunum eða á söngloftinu.
Athugasemdir
Ef þig vantar skotsilfur fyrir frímerki á umsókn senjor Oliviera get ég beðið herra Courtney Scott um að senda þér eitthvað af 700 þúsund pundunum sem ég vann í írska lottóinu nýliðinn laugardag.
Ólöf Ingibjörg Davíðsdóttir, 5.5.2008 kl. 23:55
Ég tel engar líkur á fjárskorti á þessum bæ eftir tíðindi vikunnar. Þakka samt elskulegheitin, Ólöf mín. Sama og þegið.
Svavar Alfreð Jónsson, 6.5.2008 kl. 00:00
Vann 618 krónur í íslenska lottóinu í þar síðustu viku. Það gladdi mig mjög og ég ákvað þegar í stað að halda upp á vinninginn með því að kaupa ís handa fjölskyldunni. Vinningurinn dugði ekki alveg fyrir ísnum en ég setti það ekki fyrir mig.
Sigríður Gunnarsdóttir, 6.5.2008 kl. 08:56
Gaman að þessu - til lukku með vinninginn og ég bið að heilsa fröken Hans!
Soffía Valdimarsdóttir, 6.5.2008 kl. 14:30
Sé allar tómu 50 000 kr kampavínsflöskurnar úti í garði og reyni með fjörugu ímyndunaraflinu að setja mér fyrir hugskotsjónir hvernig heimilið lítur út. Sennilega situr þú Svavar minn, og horfir órakaður, með úfið hár, kampavínglasið kámuga í hendinni og horfir á bréfalúguna. Vonar að bréfið með lottovinningnum komi eða a m k millifærslukvittunin frá bankanum þínum.
Skrýtið hvað svona vinningar greiðast seint út, ekki satt? Svo vill ekki pólska hreingerningarfólkið koma og taka til því þau vilja fá greitt svart i beinhörðum peningum. Skrýtið hvað svona fólk er vantrúað!
Baldur Gautur Baldursson, 7.5.2008 kl. 09:11
Ég held að Senjor Oliveira væri flott stáss fyrir nýríkan netlottóhafa.
Kveðja,
Ransu, 7.5.2008 kl. 20:52
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.