8.5.2008 | 20:49
Trúarkerran tóm
Oft finnst okkur Guð óþarflega nískur á hagstæða atburði. Sumir segja enda ekki til neins að vera að trúa á hann.
"Hvað hjálpar heilög trú?" spurði séra Matthías í frægum sálmi.
Ekki gengur trúuðu fólki neitt betur en öðru? Verður fólk ekki fyrir ægilegum áföllum þótt það trúi á Guð?
Guð ætti meiri séns ef hann gerði tákn, gripi inn í tilveruna, sveigði hana í rétta átt og léti réttu hlutina verða.
Veröldin er ein allsherjar verslunarferð og Guð á að sjá til þess að innkaupakerran okkar fyllist af gæðavörum á góðum prísum.
Trú sem er háð því að það hagstæða gerist er grunn, þröng, stutt og lág. Hún hjálpar í raun engum. Hún kulnar um leið og okkur fer að ganga illa, hún kafnar í áföllunum og visnar í skortinum.
Hún lýsir bara í birtunni en hverfur í myrkrinu.
Þannig trú er í raun van-trú.
Athugasemdir
Þetta er frábærlega orðað hjá þér... ég hef alldrey verið trúaðri en þessi misserin sem hafa verið min erviðustu í lífinu...
Blogg kveðja
Margrét Ingibjörg Lindquist, 8.5.2008 kl. 22:11
Hér finnst mér óþarflega fast skotið á kollega þína sem halda fyrirbænastundir. Hvetja meira að segja sjúka til að mæta og biðja fyrir lækningu.
Ég hélt að samstaða ykkar prestanna væri meiri.
Matthías Ásgeirsson, 8.5.2008 kl. 23:05
Þessi færsla snýst um að setja glans-merkimiðavöru á ómerkilega hugmynd. Ég vil góðan rökstuðning fyrir því að trú á hið óhagstæða sé til hins góða og að "slæmir" atburðir sé vísvitandi gerðir af Guði til þess að við verðum ekki of "nískir" á hina góðu atburði.
Er trú sem innifelur einnig í sér hið "vonda" og "slæma" heilbrigðari en sú sem inniheldur einungis trú á góða hluti? Trúir þú á tilvist djöfulsins Svavar Alfreð? Gerir Guð stundum vonda hluti vísvitandi til að annað hvort "reyna" okkur, eða hann sé ekki algóður, eða einfaldlega valdasjúkur yfirmaður?
Er hægt að hugsa sér barnalegri heimsmynd?
Kristján Hrannar Pálsson, 8.5.2008 kl. 23:13
Ég skil vel lógikina í því að trú þess, sem býst við því að trúin létti manni lífið, verði skammlíf þegar hann sér að þeir trúuðu verða alveg jafnt fyrir áföllum og þeir trúlausu.
Það er líka rökrétt halda því fram að trú þess, sem býst ekki við neinu af guði eða trúnni, að sú trú lifi lengur. Því hann verður jú aldrei fyrir vonbrigðum fyrst hann gerir engar væntingar.
En hver er þá tilgangurinn með trúnni, fyrst lífið smælar jafnt framan í trúaða, vantrúaða og trúlausa?
Ef trúin gerir ekkert gagn, er hún þá ekki einskonar vantrú?
Og önnur spurning fyrir prestinn.
Spurningunni um hvers "vegna guð leyfi slæmum hlutum að gerast" er iðulega svarað með því að guð hafi gefið mönnunum frjálsan vilja og geti því ekki gripið inn í þegar mennirnir nota þetta frelsi til slæmra verka.
Á hið sama þá ekki líka við um allt hið góða sem mennirnir gera? Eru það ekki bara menn sem eru að nýta sinn frjála vilja til góðs, og gerðir þeirra því óháðar guði?
Því spyr ég, hvað gerir guð þá fyrst hann er ekki ábyrgur fyrir neinu sem gerist? Ekki er hann enn að hvíla sig eftir að hafa skapað heiminn?
Ingólfur, 9.5.2008 kl. 01:21
Þessi tilvistarkreppa sem þú talar um Svavar er auðleyst: Hætta að trúa á æðra máttarvald og fara loksins að trúa á sína eigin getu til að fylla körfuna sjálfur!
Eitt máltæki segir: Guð hjálpar þeim sem hjálpa sér sjálfir. Þetta á vel við, því þegar menn hjálpa sér sjálfir, þurfa þeir ekki lengur guð. Segir sig sjálft.
Sigurjón, 9.5.2008 kl. 01:57
Ég er hjartanlega sammála greininni þrátt fyrir að vera trúleysingi sjálfur. Enda hef ég ekkert að setja út á trú sem er ekki skynjuð sem raunverulega túlkun á algerum, beinhörðum og staðfestanlegum raunveruleikanum.
En sjáðu til, kæri Svavar, hér er vandinn. Maður heyrir það á mis, að ef maður trúi á Guð þá uppfylli hann bænir manns, en að sama skapi ert þú að segja að hann geri það í rauninni ekki, og að það sé grunnt að líta svo á að Guð eigi að gera það, og þar er ég alveg sammála. Einhvern veginn virkar allt sem varðar trúmál svona; það gengur í báðar áttir. Maður á ekki að drepa... nema þegar maður á að drepa. Guð lýgur aldrei, nema þegar hann hefur góða ástæðu til þess. Guð bænheyrir fólk... en samt ætti það ekki að gera ráð fyrir því að hann geri það. Það er þetta sem fælir fólk eins og mig frá trú, mótsagnirnar í boðskapnum eru svo yfirþyrmandi og algengar að það er heil aðferðafræði innan stóru trúarbragðanna sem virðist snúast eingöngu og alfarið um að hunsa mótsagnirnar.
Þú virðist ekki nógu vitlaus til að stinga í fúlustu alvöru upp á því að Guð raunverulega hjálpi manni með nokkurn skapaðan hlut, nema auðvitað það sama og von, manngæska o.s.frv., andleg fyrirbæri sem hjálpa okkur að díla við lífið, en hafa ekki raunveruleg áhrif á heiminn sem við búum í, þannig séð.
Veit ekki alveg hver punkturinn er, ég er meira að minna sammála greininni þinni þó ég sé trúleysingi; þ.e. þetta er trú mér að skapi. Trú sem snýst ekki um sjálfsblekkingu og heimtufrekju heldur trúna sjálfa. Það er alveg kúl.
En mundu samt að margir starfsbræður þínir hika ekki í eina sekúndu við að lofa gulli og grænum skógum við það að maður biðji, og svo þegar ekkert gerist, þá er það víst manni sjálfum einhvern veginn að kenna. Það er það sem fælir fólk helst frá trúnni, það er þetta gríðarlega magn af tærri vitleysu sem viðgengst innan hennar.
Helgi Hrafn Gunnarsson (IP-tala skráð) 9.5.2008 kl. 15:45
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.