13.5.2008 | 10:27
Hættulegar hugsjónir og hugsjónaleysi
Stundum er sagt að við lifum á hugsjónalausum tímum. Heimurinn sé búinn að fá sig fullsaddan af hugsjónum. Þeir Hitler, Stalín og Pol Pot hafi allir verið hugsjónamenn. Hugsjónir kalli bara á stríð og hryðjuverk.
Þetta má allt til sanns vegar færa.
Hugsjónir geta verið stórhættulegar.
Núna um helgina horfði ég á kvikmynd þýska leikstjórans Marc Rothemund "Sophie Scholl - Die letzten Tage" (2005). Þetta er margverðlaunað snilldarverk með góðum leikurum, byggt á atburðum sem gerðust í Þýskalandi nasismans.
Leikkonan Julia Jentsch fer á kostum í hlutverki Sophie en einnig er André Hennicke ógleymanlegur í túlkun sinni á nasistadómaranum dr. Roland Freisler.
Sophie Scholl var ásamt bróður sínum Hans meðlimur í andspyrnuhreyfingunni Hvítu rósinni. Hreyfingin samanstóð af nokkrum stúdentum í München. Félagar í Hvítu rósinni prentuðu dreifibréf þar sem ógnarstjórn Hitlers var harðlega gagnrýnd og stríðinu mótmælt.
Sophie og bróðir hennar Hans voru staðin að verki við að dreifa sjötta bréfi hreyfingarinnar í háskólanum í München þar sem þau voru stúdentar. Fjórum dögum síðar voru þau dæmd til dauða og gerð höfðunum styttri ásamt félaga sínum Christoph Probst. Þau voru rúmlega tvítug þegar þau voru myrt.
Sophie Scholl var fórnarlamb hættulegra og mannfjandsamlegra hugsjóna.
En ekki var hún hugsjónalaus kona. Líf hennar og dauði er okkur áminning um að enda þótt hugsjónir séu varasamar getur ekki síður verið hættulegt að eiga engar hugsjónir.
Sophie Scholl átti bæði trú og hugsjónir sem kostuðu hana lífið.
Til fróðleiks læt ég hér fylgja brot úr einu dreifibréfi Hvítu rósarinnar:
"Jedes Wort, das aus Hitlers Munde kommt, ist Lüge. Wenn er Frieden sagt, meint er den Krieg, und wenn er in frevelhaftester Weise den Namen des Allmächtigen nennt, meint er die Macht des Bösen, den gefallenen Engel, den Satan. Sein Mund ist der stinkende Rache der Hölle, und seine Macht ist im Grunde verworfen. Wohl muss man mit rationalen Mitteln den Kampf wider den nationalsozialistischen Terrorstaat führen; wer aber heute noch an der realen Existenz der dämonischen Mächte zweifelt, hat den metaphysischen Hintergrund dieses Krieges bei weitem nicht begriffen. Hinter dem Konkreten, hinter dem sinnlich Wahrnehmbaren, hinter allen sachlichen, logischen Ueberlegungen steht das Irrationale, d.i. der Kampf wider den Dämon, wider den Boten des Antichrists....
Gibt es, so frage ich Dich, der Du ein Christ bist, gibt es in diesem Ringen um die Erhaltung Deiner höchsten Güter ein Zögern, ein Spiel mit Intrigen, ein Hinausschieben der Entscheidung in der Hoffnung, dass ein anderer die Waffen erhebt, um Dich zu verteidigen? Hat Dir nicht Gott selbst die Kraft und den Mut gegeben zu kämpfen? Wir müssen das Böse dort angreifen, wo es am mächtigsten ist, und es ist am mächtigsten in der Macht Hitlers."
Öll dreifibréf Hvítu rósarinnar má lesa hér.
Kvikmyndin Sophie Scholl - Die letzten Tage fær Amen dagsins. Ég hvet alla til að sjá hana.
Athugasemdir
góður pistill.kv adda
ps.elskurnar mínar, langar að benda ykkur á þessa ungu hetju og biðja fyrir henni.Hún heitir Sigrún og er ung móðir með hvítblæði,og er úti í svíþjóð þessa dagana í mergskiptum.Þetta er erfið meðferð sem reynir á hetjuna mína!
ps.afsakaðu að ég tróð þessu inn á bloggið þitten allar bænir og hugsanir hjálpa henni
http://sigrunth.bloggar.is/
Adda bloggar, 13.5.2008 kl. 12:44
"Félagar í Hvítu rósinni prentuðu dreifibréf þar sem ógnarstjórn Hitlers var harðlega gagnrýnd og stríðinu mótmælt"
Það er sjaldan þakklátt hlutverk að berjast gegn ríkjandi yfirvaldi, hvort sem það er veraldlegt eða andlegt.
Einhverntíman verður e.t.v. ritað í sögubækur:
"Félagar í Vantrú héldu úti vefriti þar sem forréttindi ríkiskirkjunnar voru harðlega gagnrýnd og yfirgangi hennar mótmælt."
En við eigum að berjast fyrir hugsjónum okkar, það er mórallinn, er það ekki?
Ari Björn Sigurðsson, 13.5.2008 kl. 12:46
Jú, að sjálfsögðu eigum við að berjast fyrir hugsjónum okkar, Ari - en mórallinn er líka sá að hugsjónir geta verið varasamar.
Nasistarnir áttu líka hugsjónir, ekki satt?
En alla vega þakka ég Guði fyrir að hér geta menn barist fyrir hugsjónum sínum, hvort sem þær ganga út á andstöðu við ákveðið trúfélag eða önnur þjóðþrifaverkefni, án þess að eiga það á hætta að verða höfðinu fátækari.
Svavar Alfreð Jónsson, 13.5.2008 kl. 13:50
Og þakka þér, Adda, fyrir athugasemdina og ábendinguna. Bænir gera svo sannarlega gagn. Ég minnist Sigrúnar í mínum.
Svavar Alfreð Jónsson, 13.5.2008 kl. 14:06
...það eru oftast jákvæðir hugsjónamenn sem lenda í hörðustu bardögunum við neikvæðu hugsjónamenninna...
Óskar Arnórsson, 13.5.2008 kl. 20:07
Það er mjög lítið að marka kvikmyndir sem fjalla um nasisma og eru leyfðar
til sýningar fyrir almenningi. Samtök gyðinga sjá myndirnar áður og ef þeir
álíta að myndin sé ekki boðleg almenningi þá fær almenningur ekki að sjá
hana. Samtökin ADL eru gott dæmi um gyðingasamtök sem standa í þess háttar
ritskoðun ásamt samtökum gyðinga í Þýskalandi.
Minnsta jákvæða umræða um nasisma kemur þér líka í fangelsi í Þýskalandi en
samt segja þeir að það sé málfrelsi í landinu sem stenst ekki við rök enda
eru þjóðernissinnar þar ofsóttir af stjórnvöldum.
Samtökin "Hvíta Rósin" stunduðu hættuleg þjóðernissvik í Þýskalandi á sínum
tíma sem fólust í því að þeir dreifðu and-stríðsáróðri á stríðstímum og
reyndu þar með að draga úr getu þjóðarinnar til að berjast og stefndu því
bæði lífi samborgara sinna og þjóðarinnar í hættu.
Þetta voru því engar hetjur heldur landráðamenn.
Johnny Rebel (IP-tala skráð) 14.5.2008 kl. 02:24
Hugsjónalausir tímar? Eins og sterk bæn verður stundum til úr mannlegri angist, verða merkilegar hugsjónir virkar og knýjandi þegar vandi steðjar að. Og eins er með sterkar manneskjur. Þær verða auðvitað til við sérstakar aðstæður. Inn í hugmyndalandhelgi íslendinga er ekki hleypt inn neinni veraldlegri armæðu að heitið geti - amk ekki á hinn stóra mælikvarða. Við erum hins vegar andsk duglegri til vinnu og hrikalega góðir skaffarar, Hugsjónir fyrir okkur eru kubbaleikir. Sumir útlendingar hafa sagt að hér séu allir eins og sælir, samlyndir en nokkuð frekir krakkar.
Guðmundur Pálsson, 14.5.2008 kl. 09:36
Og eru nú íslenskir nasistar á leið upp úr kjöllurunum með viðkomu á blogginu mínu!
Tilvist þeirra kemur mér svo sem ekki á óvart; nasistafnykinn leggur af ýmsu á íslenskum vef- og bloggsíðum.
Ræfla-Jóni bendi ég á að mér er ekkert sérstaklega vel við þá sem útbreiða óhróður um annað fólk í skjóli nafnleyndar.
(Hér er ég ekki að meina þína góðu athugasemd, Guðmundur Pálsson, til að fyrirbyggja misskilning.)
Svavar Alfreð Jónsson, 14.5.2008 kl. 13:00
Ég finn ekki votta fyrir kristilegum kærleik í þessu svari þínu til mín Svavar.
Johnny Rebel (IP-tala skráð) 14.5.2008 kl. 19:51
Mörg er bloggmanns raunin og vandlifað í veröldinni.
Nú birtast snöktandi nasistar og kvarta undan hjartakulda mínum.
Jón, ég efast ekki um að á bak við dulnefnið og skoðanirnar leynist manneskja sem vel má láta sér þykja vænt um.
Fyrirgefðu ef ég hef gefið eitthvað annað í skyn.
Svavar Alfreð Jónsson, 14.5.2008 kl. 21:11
Þetta er allt í lagi.
Athugasemdin kl. 19.51 var líka skráð í góðu glensi
Johnny Rebel (IP-tala skráð) 14.5.2008 kl. 21:38
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.