Gamla góða Akureyrarsólin

Innbaer[1]Páll G. Jónsson (1869 - 1948) var lengi landpóstur norður Flateyjardalsheiði út í Flateyjardal. Árið 2000 kom út bókin Flateyjardalsheiði (ISBN 9979-60-608-8) eftir Pál, en þar lýsir hann þeirri stórmerkilegu heiðarbyggð.

Flateyjardalur er gullfallegur en náttúrufegurðin á heiðinni er líka mikil og fjölbreytileg.

Á einum stað lýsir Páll kaupstaðarferð Heiðarbúa til Akureyrar. Hún var mikið fyrirtæki. Prjónles, ull, tólg og fleira var flutt í kaupstað og lagt inn hjá kaupmönnum en út tekinn ýmis varningur til heimilisnota.

Síðasti farartálminn á leiðinni í kaupstað var Eyjafjarðaráin. Í þessari ferð var hún nokkuð djúp á Vöðlunum en komst ferðafólkið samt yfir hana án áfalla.

Farið var að rjúka á Akureyri þegar lestin nálgaðist kaupstaðinn. Að venju skein þar sól og heitt var í veðri.

Kaupmaður tók á móti Heiðarbúum með flösku og staup. Varð hann harla glaður að sjá kúnnana með vörur sínar og hugði gott til viðskipta.

Hófst síðan ullarvigtun en hana annaðist pakkhúsmaður. Sá kvað ullina hafa komist í kynni við Eyjafjarðarána. Hún væri blaut og þyrfti hann því að taka yfirvigt.

Ekki voru bændur sammála því og sögðu ekki koma að sök þótt einn og einn lagður hefði dignað. En pakkhúsmanni var ekki hnikað.

Létu Heiðarbúar þá sækja kaupmann. Hann kvað upp sinn Salómonsdóm og sagði:

"Það er alls ekki rétt þegar blessaðir bændurnir eru komnir langa leið með vörurnar til okkar að vera að raga það fyrir þeim, þetta ótæti. Við athugum þetta þegar ullin er sekkjuð, sé þar deigur lagður er hægt að athuga það. Það er nóg sólskinið hér á Akureyri til að þurrka smá lagða af ullinni hans Guðmundar míns á Kambsmýrum." (Bls 134)

Akureyrarsólin hefur verið mörgum til ómældrar blessunar en ég hef ekki rekist á eldri heimild um það landsfræga og óskeikula sólskin.

(Myndin með færslunni er af gamla Innbænum og er tekin af visitakureyri.is)

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Magnús Geir Guðmundsson

margblessaður SVavar minn!

Nei,ekki svíkur Akureyrarsólin og þetta var ánægjuleg færsla hjá þér.

Svo má það alveg fylgja með til gamans, að eiginkona páls G. Elísabet Árnadóttir, var afasystir mín í móðurætt.

Magnús Geir Guðmundsson, 14.5.2008 kl. 18:55

2 Smámynd: Sigurður Þór Guðjónsson

Ef þú vilt endilega vita það þá er sólríkara á suðurlandi en á Akureyri. En það er oftar snjór fyrir norðan! 

Sigurður Þór Guðjónsson, 16.5.2008 kl. 20:39

3 Smámynd: Magnús Geir Guðmundsson

Leiðindamórall er þetta í sumum hérna Svavar, en við látum það nú ekkert á okkur fá!

Og fyrst vitnað er í fína vísu eftir Flosa Ólafsson hérna að ofan, er bara alt í lagi að láta hana alla flakka.

Á Akureyri er um það bil,

ekki neins að sakna.

Jú, þar er fallegt þangað til,

þorpsbúarnir vakna!

Magnús Geir Guðmundsson, 16.5.2008 kl. 22:35

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband