Blessaðir leyndardómarnir

stonehengeFærslan mín hér að neðan um einn einfaldan fékk töluverð viðbrögð. Þau voru alls ekki öll á einn veg - enda býður tilveran ekki upp á neitt svoleiðis eins og ég sagði.

Mannkynið hefur alltaf búið við öfl sem vilja ekki leyfa nema eina tegund af sannleika hvort sem í hlut hafa átt miðaldakirkjan eða alræðisstefnur nær okkur í tíma.

Í okkar samtíð heyrast raddir sem aðeins vilja hafa fyrir satt það sem hægt er að sýna fram á með aðferðum raunvísindanna.

Þau eiga að skera úr um hver sé hin leyfilega og gilda útgáfa af sannleikanum og veruleikanum.

Ekki hef ég á móti raunvísindum en auðvitað geta þau ekki sagt okkur allt um okkur sjálf og veröldina.

Raunvísindin geta til dæmis ekki sannað tilvist Guðs. Eða afsannað. Þau eru til annars brúks og séu þau rétt notuð geta þau fært okkur mikla blessun.

Tilveruna er hægt að skynja á marga vegu og þar sýnist sitt hverjum. Sé aðeins til ein leyfileg útgáfa af henni, ein gild skynjun, hefur maðurinn ekkert frelsi lengur.

Það er fleira en Guð sem erfitt getur verið að skilgreina til fulls í tilraunaglasi eða undir smásjá. Ósköp hversdagsleg fyrirbæri eru flóknari en þau virðast gjarnan vera:

Tíminn, frelsið, að vera til, rými, orsök, meðvitund, ást, ég, dauði og líf.

Jafnvel raunvísindaleg hugtök á borð við efni og tala.

Allt þetta má nálgast sem leyndardóm. Leyndardómur er hvorki gáta sem á eftir að ráða né óleyst vandamál.

Ég ætti nú ekki annað eftir en að útskýra fyrir ykkur leyndardóminn. Ef ég gæti það væri hann enginn leyndardómur lengur.

Ef til vill er samt ofangreint ekki slæm útskýring á fyrirbærinu?

(Myndina með færslunni tók ég á Stonehenge á Englandi, þeim magnaða og leyndardómsfulla stað.)


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Hvað er þetta Guð?  Þetta er í mínum huga gersamlega óskilgreint hugtak sem hefur enga skíra merkingu.  Þetta er bara eitthvað svakalega stórt og gersamlega óskiljanlegt.  Þess vegna skil ég ekki allt þetta fólk, eins og t.d. þig, sem er sífellt að bulla um þetta fyrirbrigði.  Eitt er ég persónulega sannfærður um:  Guð er a.m.k örugglega ekki þetta skrímsli sem er líst í Biblíunni, og Jesú var örugglega ekki þetta þríeina skoffín sem kirkjan heldur fram.

Vissulega er tilveran mikill leyndardómur og hugsanlega mun mannkynið aldrei finna út með neinni vissu hvernig alheimurinn varð til, hvernig lífið kviknaði og svo framvegis, en ég treysti vísindunum a.m.k. betur en trúarbrögðunum til að nálgast þann sannleik eins og frekast er kostur. 

Mín æðsta ósk mannkyninu til handa er að það nái að varpa oki trúarbragðanna af sér og frelsa anda sinn. 

Theodór Gunnarsson (IP-tala skráð) 19.5.2008 kl. 12:01

2 Smámynd: Ingólfur

Svavar, ég viðurkenni það fúslega að það er margt hulið leyndardómi og vísindin eru langt frá því að svara öllum spurningum.

Þess vegna er mjög margt sem ekki er neitt eitt svar við. Eru farsímabylgjur hættulega? Vísindin eru ósammála um það. Hvað með rafsegulbylgjur, eru þær að valda fósturdauða í kindum? Vísindin gefa mismunandi svör.

Svo ekki sé minnst á stóru spurningarnar: Ef heimurinn varð til við Mikla hvell, hvað orsakaði þá hann?

Það væri rosalega þægilegt bara að búa til skýringuna við þessum spurningum sem við virðumst ekki getað svarað, en það mun ekki hjálpa okkur að finna rétta svarið við þeim. Þess vegna er þessu haldið opnu, óvissan viðurkennd og málið skoðað betur í von um að svar finnist.

Það er nefnilega líka ótal margt sem enginn vafi leikur um. Við skiljum þyngdaraflið nokkuð vel og getum illa afneitað því.

Við vitum að maðurinn getur ekki andað í vatni.

Ég, eins og páfinn, vil ekki útiloka líf á öðrum hnöttum og ég býst fastlega við því að "geimverur" hafi fundið leiðir til þess að ferðast á milli sólkerfa. Ég tek hins vegar takmarkað mark á þeim sem segist vera í samskiptum við geimverur.

Hin kristna þjóð Norðmenn hneykslaðist mikið þegar prinsessan þeirra Märtha Louise sagðist hafa samskipti við engla. Þetta var álitið hlægilegt bull.

En að eiga samskipti við almáttugan guð, það er allt annað.

Kirkjan hefur í gegnum aldirnar stjórnað því hvaða væri raunverulegt og hvað ekki, án þess að hafa nokkuð fyrir sér en trúarrit og pólitík.

Það sem vísindin gera er að setja mælistokk við hlutina sem segir okkur hversu líklegt sé að eitthvað sé rétt eða rangt. Mælistokkurinn er vissulega ófullkominn en hann er það besta sem við höfum.

P.S. Hver heldurðu að viðbröðin væru, ef enginn hefði heyrt minnst á guð, Biblíuna eða Jésú, og að síðan kæmi fram prestur og segði fólki frá krossfestingunni og upprisunni?

Ingólfur, 19.5.2008 kl. 13:29

3 Smámynd: Svavar Alfreð Jónsson

Rétt hjá þér, Ingólfur Harri, mælistokkurinn er hið mesta nytsemdartól - en það er meira að segja um tilveruna en það sem hann birtir og stundum segir hann ekki nokkurn skapaðan hlut.

Svavar Alfreð Jónsson, 19.5.2008 kl. 15:36

4 Smámynd: Víðir Benediktsson

Ég hef oft heyrt að heimurinn hafi orðið til í stórri sprengingu en þá spyr ég. Hvað srakk?

Víðir Benediktsson, 19.5.2008 kl. 23:05

5 Smámynd: Víðir Benediktsson

Átt að vera. Hvað sprakk?

Víðir Benediktsson, 19.5.2008 kl. 23:54

6 Smámynd: Ingólfur

Víðir, ég veit það ekki. Ég gæti vissulega sagt að guð hefði búið til sprenginguna og þar með er ég búinn að svara spurningunni, og get þá líka sagt að guð segi eitthvað um það sem "mælistokkurinn" segir ekkert um (ennþá).

En ég veit ekkert hvort svarið er rétt eða rangt.

Svar sem maður veit ekki hvort er rétt eða rangt er ekki bara tilgangslaust, heldur er það verra en ekkert svar.

Kenningar trúarbragðanna standast sjaldnast almenna skynsemi. Hins vegar tiplar fólk á trjánum í kring um þær svona eins og þegar maður lætur eins og jólasveinninn sé til þegar börn eru nálægt.

Af hverju má ekki gera sömu kröfur til trúarbragða og alls annars, er það kannski af því þau standast þær ekki?

Ingólfur, 20.5.2008 kl. 01:02

7 Smámynd: Jón Valur Jensson

  • "Mannkynið hefur alltaf búið við öfl sem vilja ekki leyfa nema eina tegund af sannleika hvort sem í hlut hafa átt miðaldakirkjan eða alræðisstefnur nær okkur í tíma."

Þetta eru afar ómakleg orð – sýna raunar, að þú þekkir lítt til miðaldakirkjunnar, séra Svavar, og er það að vísu allalgengt í þinni lúthersku stétt. Miðaldakirkjan varðveitti margháttuð fræði og vísindi (þríveginn og fjórveginn, þ.e. artes liberales, ásamt heimspeki, sagnfræði og bókmenntarfinum klassíska) og nytjagreinar (eins og garðyrkjufræði); og þegar hennar eigin guðfræðiiðkun var í algleymingi, á 12. og einkum 13. öld og lengur, voru kirkjubyggingar, klaustur og skólar ekki lengur fyrst og fremst geymslu- og uppskriftastaður gagnvart þessum fornu veraldarfræðum, heldur voru þau fræði, sem og grískættuð heimspeki, stunduð þar á öflugan hátt og nutu mikillar virðingar. Allir helztu fulltrúar skólaspekinnar, s.s. Boethius, heil. Anselm, Abaelard, Alexander frá Hales, Grosseteste, Albert mikli (sct. Albertus Magnus, sem var mikill náttúrufræðingur auk annars), heil. Bonaventura, heil. Thómas frá Aquino (lærisveinn Alberts), Duns Scotus o.s.frv., höfðu þetta opna viðhorf gagnvart öðrum fræðum en Biblíu- og guðfræði og stunduðu þau fræði. Svo mjög var það gert, að Lúther og flokkur hans kvörtuðu yfir og réðust á rationalisma skólaspekinganna, og sjálfur kallaði hann skynsemina 'hóru'. And-rationalísk viðhorf geturðu fundið hjá honum, ekki hjá Thómistunum og Scotistunum (helztu meginflokkum heimspekilegra guðfræðinga frá lokum 13. aldar), ekki hjá Benediktínunum, Franciskönunum né Dóminikönunum á miðöldum og heldur ekki hjá Jesúítunum á nýöld, enda voru allar þessar reglur fræðaiðkunarreglur.

Þú sérð heldur ekki í miðaldakirkjunni íslenzku þá andstöðu við sannleika veraldlegra fræða, sem þú ímyndaðir þér í hinum tilfærðu orðum þínum. Ég ætla ekki að fara að rekja það fyrir þér hér, því að þú átt að geta fundið það út sjálfur, séra minn, og gangi þér bara vel með það sem allt annað. Með blessunarósk og góðri kveðju,

Jón Valur Jensson, 20.5.2008 kl. 10:17

8 Smámynd: Svavar Alfreð Jónsson

Jón Valur: Miðaldir eru á margan hátt forvitnilegur tími og þar gerðist margt spennandi. Eflaust er þekking mín á þeim tíma ekki tæmandi. Ég er samt þeirrar skoðunar að rómverska kirkjan á miðöldum hafi sýnt eindregna alræðistilburði þegar um var að ræða trúarskoðanir fólks, sbr. viðbrögð hennar við gagnrýni og siðbótarstarfi á þessum tíma. Í kirkjunni voru - og eru ef til vill enn - öfl sem ekki líða nema sína útgáfu af sannleikanum.

Svavar Alfreð Jónsson, 20.5.2008 kl. 12:39

9 Smámynd: Jón Valur Jensson

"Eindregnir alræðistilburðir" eru afar sterkt orð, Svavar. Gættu orða þinna, veldu þau betur og minnztu þess, sem sagt er um ónytjuorðin! – Kaþólsk trú er ekki alræðishyggja eins og t.d. kommúnisminn (Marx-Lenínismi). Og gagnrýni tíðkaðist líka í miðaldakirkjunni og umbótahreyfingar, svo sem hin afar útbreidda Cluny-hreyfing (10. öld o.áfr.) og evangelísk hreyfing förumunkareglnanna (12. öld o.áfr.), þ.e. Fransciskana og Dóminíkana, sem ég gat um hér ofar; þar að auki margháttaðar fræðahreyfingar og ekki sízt uppkoma og vöxtur miðaldaháskólanna, sem flestir voru af kirkjulegum rótum. Aðrar hreyfingar voru t.d. Jóhannesarreglan o.fl. slíkar sem gerðu mikið fyrir sjúkrahjálp með spítölum sínum.

Jón Valur Jensson, 20.5.2008 kl. 16:45

10 Smámynd: Ingólfur

Jón, hva' er ekki lengur nóg fyrir þig að ritstýra eigin síðu?

Ingólfur, 20.5.2008 kl. 23:52

11 Smámynd: Hjalti Rúnar Ómarsson

Vísindin ganga út á að rannsaka hrekjanlegar tilgátur. Ef þú kemur fram með hugmynd um andaveru sem felur í sér hrekjanlegar afleiðingar, þá geta vísindin rannsakað tilvist þeirrar andaveru. Ef þú myndir til dæmis stinga upp á andaveru sem myndi alltaf koma í veg fyrir að glös brotni, þá væri hægt að rannsaka það hvort sú andavera væri til, með því að reyna að reyna að brjóta glös.

Þú og kristið fólk segir almennt að andaveran sem þið haldið að sé til sé algóð, almáttug og alvitur. Ég myndi segja að þessum eiginleikum fylgja hrekjanlegar afleiðingar. T.d. gætir þú útskýrt fyrir okkur hvers vegna algóði guðinn þinn ákvað að skapa malaríu, ég myndi halda að hún afsannaði tilvist guðs kristinna manna.

Hjalti Rúnar Ómarsson, 22.5.2008 kl. 20:18

12 identicon

Maðurinn er hópdýr og félagsvera ergo, Það vita allir sem vilja vita..  þ.e. opna augu sín fyrir því að trúarþörf mannsins er fyrst og fremst sprottin upp úr þörf hans til þess að sætta sig við andlát ástvina (búa til himnaríki, annað tilverustig, betri stað osfrv.).. Þetta hafa rannsóknir sýnt fram á. Maðurinn hefur alla tíð trúað á æðra vald e-h yfirskilvitlegt (þ.e löngu fyrir samtíma trúarbrögð)..  Þetta er einfaldur galli í félagslegri hegðun mannsins ekkert annað. Á ekkert skylt við raunveruleikann. Trúarbrögðin þróast með okkur eins og allt annað..  Nú þegar vísindunum hefur fleygt fram og okkur hefur tekist að útskýra býsna margt, sem áður var hulin ráðgáta, þá berjast prestar við að segja okkur að Guð sé svo flókin að ómögulegt sé að skilja hann. Já auðvitað!!  Hann er jú bara til í höfði þess trúaða..

Nú segi það eru yfirgnæfandi líkur á að, ekki sé til neinn Guð.. Fullyrða má hinsvegar að biblíu-Jesú hafi aldrei til og Biblían sjálf er ekki neinn sannleikur.

Það þjónar því ekki nokkrum einast tilgangi að þvarga um guðspjöllin eða túlkanir á einstökum köflum biblíunnar..  Þetta þvarg tefur, í besta falli, bara fyrir eðlilegri þekkingaröflun mannskepnunnar, en í versta falli leiðir til trúarbragðastríðs, eins og sagan segir okkur.

Látum trúna eiga sig og finnum okkur önnur heilbrigðari málefni til þess fullnægja félagsþörf okkar.

Halldór Halldórsson (IP-tala skráð) 29.5.2008 kl. 10:22

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband