29.5.2008 | 16:54
Helgi og Egill Helga
Núna í vikunni sat ég indæla ráðstefnu á Hólum í Hjaltadal þar sem viðfangsefnið var heilagleikinn. Heyrði ágæt erindi og tók þátt í skemmtilegum og uppbyggilegum umræðum.
Vandfundinn er betri staður til að ræða helgi en hinir söguþokkafullu og helgu Hólar.
Á ráðstefnunni rifjaðist upp fyrir mér saga sem ónefndur maður sagði mér. Hann var á ferðalagi í Asíu og heimsótti búddískan helgidóm. Þar var fyrir búddamunkur sem bauð honum geitamjólk að drekka. Meðan munkurinn var að gefa honum mjólkina þarna á þessum sérstaka stað upplifði maðurinn nokkuð sem hann hafði aldrei upplifað áður - alla vega ekki svona sterkt:
Helgi.
Hann fann fyrir návist þess heilaga, þess sem er bæði ógnandi og aðlaðandi, nálægt en um leið víðs fjarri.
Það er ekki nóg að Guð sé til.
Maðurinn er andleg vera og fær um að upplifa Guð. Maðurinn er ekki heill fyrr en hann hefur viðurkennt hina andlegu vídd í sjálfum sér.
Annað:
Egill Helgason sýnir mér og séra Baldri Kristjánssyni þann heiður að fjalla um okkur á bloggsíðu sinni.
Hann segir okkur kollegana á villigötum. Og virðist áhyggjufullur.
Ég get tekið undir margt í þessum pistli Egils og þakka honum umhyggjuna.
Ég er til dæmis alls ekki sammála því að hlífa eigi trúnni við gríni eða gagnrýni - þótt Agli finnist endilega að mér eigi að finnast það.
Trúna þarf að gagnrýna og kirkjan hefur margoft unnið til þess að vera dregin sundur og saman í nöpru háði.
Það ætti ekki síst að vera ljóst manni sem tilheyrir lútherskri kirkjudeild.
Lúther gagnrýndi páfakirkjuna harðlega og notaði oft til þess flugbeitt háð.
Húmor getur verið býsna öflugt vopn og stundum er hann eina vopn lítilmagnans andspænis Valdinu.
Þegar húmor er beitt þannig er stundum talað um að hann sé satíra.
Kirkjan hefur gott af hressilegri satíru.
Eins og margt annað sem ræður miklu um afdrif mannsins, t. d. ríkið, menningin, auðvaldið og fjölmiðlarnir.
En þegar fjölmiðlar, ein helsta valdastofnun samfélagsins, bregða sér í það hlutverk að ofsækja minnihlutahópa, breiða út um þá ósannindi og fordóma, niðurlægja þá og svívirða, þá er það ekki lengur "satíra".
Þá er þar um að ræða barsmíðar Valdsins á þeim sem ekki geta borið hönd fyrir höfuð sér.
Athugasemdir
Þú tekur mér þá væntanlega fagnandi ha :)
P.S: Heilagleiki er ekki til
DoctorE (IP-tala skráð) 29.5.2008 kl. 17:02
Biðst afsökuna á ósæmilegu orðbragði sem mig minnir að ég hafi notað í byrjun bloggsins. Trú að DoktorE sé kannski með sömu reynslu og ég. Því fyrir 5 eða 10 árum var ég algjör kópía af honum. Þess vegna þykir mér vænt um hann hvernig sem á því stendur. Get ekki alveg alveg útskýrt það, eða komið orðum að því...myndi vilja biðja þig um eitt símtal, bara stutt ef þú mátt vera að..Svavar..8225623
Óskar Arnórsson, 30.5.2008 kl. 02:58
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.