7.6.2008 | 11:36
Mikilvægasta stéttin
Því er haldið fram að ekki eigi að móta börn í trúarefnum. Þau eigi að ákveða um slíkt þegar þau hafi aldur og þroska til. Ekki eigi að ala þau upp í kristnum sið. Þau eigi að fá að velja þá trú sem þeim líst best á þegar þar að kemur. Hækka eigi fermingaraldurinn og miða við það þegar börn hafi öðlast þroska til að taka sjálfstæðar ákvarðanir.
Í þessari umræðu láta menn stundum eins og kirkjan sé nánast eini aðilinn í veröldinni sem áhuga hafi á því að móta börn - og það sé hennar glæpur.
Auðvitað er uppeldi barnanna fyrst og fremst á ábyrgð foreldra og forráðamanna barna. Börnin verða samt fyrir áhrifum frá fleirum, heilnæmum og skaðlegum. Börn eru ekki óskrifað blað þangað til þau hafa aldur og þroska til eða þangað til þar að kemur. Þau eru forvitin og fróðleiksfús. Þau drekka í sig áreiti úr umhverfinu.
Það skiptir máli hvað þau sjá og heyra. Öll viljum við að börnin mótist af því sem er þeim til blessunar. Við viljum skapa þeim umhverfi sem laðar fram það besta í þeim. Við viljum búa þeim aðstæður þar sem þau geta nýtt og þroskað hæfileika sína. Við viljum innræta þeim virðingu fyrir sjálfum sér, öðrum manneskjum og umhverfinu, hinni góðu sköpun.
Ekki eru allir sammála því. Í þjóðfélagi okkar eru öfl sem keppast við að innræta börnunum okkar það gagnstæða; virðingarleysið fyrir sjálfum sér, öðrum og umhverfinu. Þessi öfl höfða til þess versta í börnunum okkar, vilja ræna þau sakleysinu og hjartahreinleikanum.
Nú er tími skólaslita. Þau eru skemmtilegar samkomur. Þar finnur maður tilhlökkun barnanna þegar þau horfa framan í sumarfríið en ekki síður má skynja þakklæti þeirra til kennaranna sinna, þess góða fólks, sem látið hefur sér annt um börnin okkar undanfarna mánuði. Reynt að hafa góð áhrif á þau, móta þau, verja þau því skaðlega en gera þau móttækileg fyrir því uppbyggilega.
Við eigum kennurunum svo óskaplega margt að þakka.
Ofangreint var pistill dagsins á tru.is síðastliðinn fimmtudag. Á töflunni stendur: Ég má ekki bíta kennarann minn.
Í sömu viku benti Jónas Kristjánsson á gildi þess að flýta sér hægt. Ekki er ég nú alltaf sammála Jónasi en tek heilshugar undir það. Gef honum Amen dagsins fyrir. Pistilinn er að finna hér, undir fyrirsögninni Hraðfólkið missir af lífsgæðum.
Athugasemdir
við viljum jú kenna börnum að haga sér vel, virða aðra og óskir þeirra, vera fylgin sér, ákveðin, full sjálfstrausts, lífsglöð, óhrædd að taka áhættu þegar kemur að ást(kemur þegar nær unglingsaldri dregur), meta góðan vinnudag, eltast við drauma sína, aldrei gefast upp.
ég sé ekkert hérna sem kemur trúarbrögðum við, þetta má allt kenna og innræta án þess að trú á eitthvað yfirnátturlegt þurfi að koma að.
mjög sammála þessu með kennarana og sumarfríin, börnin eru þeim þakklát því þeir hafa kennt þeim mannkynssögu, stærðfræði, tungumál, málfræði, samfélagsfræði, eðlisfræði, efnafræði, bókmenntir, íþróttir.
enda er svona uppfræðsla barna okkar ástæðan fyrir þeirri framþróun sem hefur átt sér stað síðustu árhundruðin sérstaklega, það að læra hvað jésu á að hafa gert, eða hvað múhamed sagði við hinn og þennan, eða hvað búdda fannst um trén og sólina, hefur lítið sem ekkert gert til að hlúa að þróun nútímasamfélagsins.
eitt hafa trúarbrögð jú gert, fallegar byggingar, fallega tónlist, falleg málverk og styttur. því á einhverjum tíma varð einhver mögulega fyrir innblástri vegna þessara sögusagna og bjó til eitthvað fallegt vegna þess, en það sama hefur verið gert án trúarbragða.
spurning til hvers sem vill svara:
(hef hana á ensku því íslenskan gæti breytt skilnings fólks á spurningunni)
What moral action taken or moral statement made, could a religious person take or made, that a non-religious person could not have performed.
og svo númer 2.
What immoral action taken or immoral statement made, could only have been made by a religious person and not a non-religious person.
hingað til hefur fólk ekki fundið neitt gott svar fyrir fyrri spurningunni, en á í engum vandræðum með að finna svar við þeirra seinni.
og þá spyr ég í sambandi við þetta með að börn velji sér trú sem þeim lýst best á, hvað með enga trú?
Egill, 7.6.2008 kl. 17:30
Laukrétt er að það eru fjölmargir áhrifavaldar í umhverfi barna, en enginn þeirra er jafn sterkur og eindreginn eins og skólinn, að fjölskyldu og vinum undanskildum. Í skólanum er börnum uppálagt að taka öllu sem fyrir þau er borið án fyrirvara, sem heilögum sannleika. Fólk í valdstöðu er stöðugt að ýta að þeim alls konar þekkingu sem krakkarnir eiga ekki, undir nokkrum kringumstæðum, að véfengja. Það á réttilega við um t.d. lestur, skrift, stærðfræði, náttúrufræði og, já, kristinfræði sem hluta af trúarbragðafræðslu. Almenn lífsleikni og siðfræði eiga einnig heima í skóla.
Kynning á trú, trúboð, trúarleg fræðsla og annað slíkt tilheyrir ekki þessari upptalningu. Ef sagt er, í skólanum, að einhver sé besti vinur barnanna hljóta börnin að taka því sem óvéfengjanlegum sannleik. Það er bara þannig að þetta er ekki fyrir alla og leik- og grunnskólabörn eiga ekki að vera í þeirri aðstöðu að þurfa að taka afstöðu til þess. Ég hef fullan skilning á því að fjölmargir vilji ala börn sín upp í trú, en þeir verða þá að sjá um það sjálfir. Sú skylda getur ekki verið íþyngjandi fyrir foreldra sem þykir vænt um sína trú. Þvert á móti hljóta þeir að fagna henni.
Vera má að í þjóðfélagi nútímans séu öfl sem keppist við að rífa niður góð og gegn gildi. Einmitt þess vegna er svo mikilvægt að grundvalla skólastarf á veraldlegum grunni þar sem vísindi og hlutlægt mat ráða ríkjum. Það geta allir verið sammála um réttmæti stærðfræði í skólanum, en um trúna stendur styr.
Það segir allt sem segja þarf.
Óli Jón, 8.6.2008 kl. 00:51
Vel, & fallega skrifaður pistill hjá þér.
Steingrímur Helgason, 8.6.2008 kl. 23:06
Flestir foreldrar eru fífl og gera börnin sín að enn meiri fíflum. - Ég er ekki að fíflast!
Sigurður Þór Guðjónsson, 10.6.2008 kl. 00:54
Góður pistill hjá þér, er þér alveg sammála.
kv.
Linda, 13.6.2008 kl. 16:49
Góð lesning og líka um hraðfólkið, svo satt.
alva (IP-tala skráð) 14.6.2008 kl. 00:58
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.